Helgin hefur verið lituð af sorg. Á föstudagskvöldinu buðum við mömmu, bróður mínum, systur minni (sem er á landinu aldrei þessu vant) og börnunum hennar í mat. Við áttum svo yndislegt kvöld, borðuðum yfir okkur og nutum þess að vera öll saman. Það gerist sjaldan því systir mín býr í Kaupmannahöfn. Þegar þau fóru lagðist ég í sófann með tölvuna og komst að því sem hafði gerst í París. Svo hræðilega sorglegt og óskiljanlegt. Hvernig getur svona mannvonska verið til?
Ég fór í göngu um Elliðarárdalinn í gær og það var svo kyrrsælt þar. Ég gat ekki annað en hugsað til þess hvað við erum lánsöm að búa hér, á landi þar sem við þurfum ekki að hafa áhyggjur af árásum og hryðjuverkum. Að við getum gengið um fallega landið okkar áhyggjulaus. Getum farið á fótboltaleiki, tónleika og veitingahús áhyggjulaus. Parísarbúar voru líka öruggir og áhyggjulausir, þar til á föstudagskvöldinu. Það hræðir mig hvað lífið getur breyst snögglega.
Vikumatseðill
Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum
Þriðjudagur: Gúllassúpa með nautahakki
Miðvikudagur: Skinku- og spergilkálsbaka
Fimmtudagur: Kjúklingakúskús með sweet chili
Föstudagur: Súpergott tacogratín
Með helgarkaffinu: Daimlengjur