Ég veit að ég hef verið súpuglöð upp á síðkastið og gefið hér hverja súpuuppskriftina á fætur annarri en ég ræð ekki við mig. Þetta er sá árstími sem ég gæti lifað á súpum og brauði. Um daginn gerði ég tvo fulla súpupotta sem ég frysti og hef verið að gæða mér á nánast daglega síðan. Súpur hljóta að vera notalegasti matur sem til er í vetrarkuldanum!
Þessi gúllassúpa er sérlega ljúffeng og upplagt að frysta hana til að eiga þegar enginn nennir að elda eða allir koma seint heim. Ég borða hana ýmist með góðu brauði eða nachos og þykir bæði betra. Sýrður rjómi fer yfirleitt í súpuskálarnar mínar en auðvitað má sleppa honum. Eins má leika sér með hráefnið, skipta kartöflum út fyrir gulrætur eða sætar kartöflur, nautahakkinu fyrir gúllasbita… það eru engar reglur, bara að dekra við súpuna og hún verður dásamleg.
Gúllassúpa með nautahakki (uppskrift fyrir 5-6)
- 500 g nautahakk
- 3 msk tómatpúrra
- salt og pipar
- 1 hvítlauksrif
- 1 rauð paprika
- smjör
- 1 laukur
- 2 dósir Hunt´s niðursoðnir hakkaðir tómatar, samtals 800 g (mér þykir gott að blanda Roasted Garlic og Basil, Garlic & Oregano)
- 7 litlar kartöflur, skornar í bita
- 1/2 tsk tabasco
- 8 dl vatn
- 3 nautateningar
- 2 msk soja
- 2 tsk paprikukrydd
Steikið nautahakk á pönnu. Kryddið með salti og pipar og hrærið tómatpúrru saman við. Leggið til hliðar.
Hakkið papriku og lauk. Bræðið smjör á pönnu og bætið prpriku, lauk og hvítlauk á pönnuna. Látið mýkjast við vægan hita.
Setjið allt í pott og látið sjóða saman í 15-20 mínútur. Berið fram með sýrðum rjóma og góðu brauði.
Hlakka til að prófa! en það stendur hvítlaukur og svo 1 hvítlauksrif..á bara að nota eitt hvítlauksrif?
Seturur bara ósoðnar kartöflur með?
Já, set þær ósoðnar í pottinn og læt þær sjóða í súpunni.
>
Þessi er svo góð. Fannst hún fyrst líta svo óspennandi út engin framandi hráefni en vá hvað hún er góð. Stundum er einfalt betra 😉 Skemmtileg tilbreyting frá kjúklingasúpum. Verður elduð aftur fljótt