Ég hef ekki alveg hangið með þessa vikuna. Þar sem mánudagurinn var frídagur þá þótti mér vera mánudagur á þriðjudeginum og þannig hefur þetta bara haldið áfram. Það er þó svo að nú styttist í helgi eftir stutta vinnuviku og ekki seinna vænna en að fara að huga að föstudagsmatnum.
Síðasta föstudagskvöld vorum við með æðislegt tacogratín í matinn og mig langar mest til að hafa það aftur á morgun. Það uppfyllir allar mínar kröfur til föstudagsmatar, er einfalt, fljótgert og æðislega gott. Meðlætið var það sem til var í ísskápnum en næst mun ég bera tacogratínið fram með góðu salati, guacamole, sýrðum rjóma og auka nachosflögum til að nota sem hálfgerða gaffla. Súúúúúpergott!
Tacogratín með papriku (uppskrift fyrir 5)
- 500 g nautahakk
- 2 rauðar paprikur
- 3/4 dós hakkaðir tómatar
- 1 poki tacokrydd
- 1 askja philadelphiaostur
- nachosflögur með ostabragði
- rifinn ostur
Steikið nautahakkið og fínhakkaðar paprikur. Hrærið tacokryddinu saman við og síðan hökkuðum tómötum.
Smyrjið botn á eldföstu móti með philadelphiaostinum. Hrærið því sem eftir er af honum saman við nautahakksblönduna og setjið hana síðan í eldfasta mótið. Stingið nachosflögum í réttinn og stráið rifnum osti yfir. Setjið í 125° heitan ofn þar til osturinn hefur bráðnað.
Berið fram með góðu salati, nachos flögum, guacamole, sýrðum rjóma, salsa eða því sem hugurinn girnist.
Æðislega gott 🙂 Sló í gegn á heimilinu.
Gaman að heyra! 🙂
Sjúklega góður réttur. Verður reglulega á matseðlinum hér eftir.