
Ég hef barist við þreytu alla vikuna eftir hreint út sagt frábæra New York ferð í síðustu viku. Það sem við skemmtum okkur vel!! Ég kom við í Hagkaup áður en ég fór út (krakkarnir voru heima á meðan og ég vildi skilja við fullan ísskáp) og á kassanum kippti ég með mér bók sem var nýkomin út, Tvö hundruð sextíu og einn dagur. Hún beið mín þegar ég kom heim og ég eyddi síðustu helgi í sófanum með bókina og fríhafnarnammið. Ég gat ekki hætt, hvorki með nammið (tveir stórir M&M pokar (sem stóð á sharing size… hvaða stælar eru það! Eins og maður ráði því ekki sjálfur…) og hlauppoki sem ég keypti fyrir krakkana en endaði á að borða svo frá þeim) né bókina. Kristborg Bóel skrifar svo vel og skemmtilega. Ég las bókina á tveim dögum og langaði mest til að hafa samband við hana og spyrja hvort það kæmi ekki örugglega framhald og það helst á morgun. Ég byrjaði svo á nýrri bók í vikunni, sem ég keypti mér á flugvellinum í New York, The light we lost. Hún fer líka mjög vel af stað og ég hlakka til að skríða upp í rúm á kvöldin og halda áfram. Í fyrra hlustaði ég mikið á hljóðbækur en í ár hef ég ekki hlustað á eina einustu heldur hlusta frekar á podcasta (ef þið hafið ekki hlustað á Í ljósi sögunnar þá mæli ég með þeim) og les bækurnar. Það er gaman að breyta til.

Ég ætla að taka saman smá færslu um ferðina við tækifæri en held þó í sunnudagshefðina og tek saman vikumatseðil í dag.
Vikumatseðill

Mánudagur: Grilluð tandoori lambalund með salati

Þriðjudagur: Fiskbakan frábæra

Miðvikudagur: Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Fimmtudagur: Blómkálssúpa með sveppaosti og sweet chili

Föstudagur: Tacopizzubaka

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðibaka
Líkar við:
Líka við Hleð...