Vikumatseðill

Þeir eru orðnir ansi margir vikumatseðlarnir hér á blogginu og enn held ég áfram að bæta í safnið. Mér þykir svo gott að vita hvað ég er að fara að borða í kvöldmat og stundum hlakkar mig til allan daginn að komast heim og byrja að elda matinn. Það er misjafnt hvað hentar fólki en fyrir mig einfaldar svona skipulag lífið til muna. Hér kemur því enn ein tillagan að vikumatseðli.

Mánudagur: Þorskur undir krydduðum osta- og rasphjúp

Þriðjudagur: Pulsu- og makkarónuskúffa

Miðvikudagur: Blómkálssúpa og sýrópsbrauð

Fimmtudagur: Kjúklinga Pad Thai

Föstudagur: Tortillakaka

Með helgarkaffinu: Drømmekage

Vikumatseðill

Þá er annar í aðventu runninn upp og í dag ætla ég að halda í hefðina og vera með aðventukaffi. Nýsteiktar eplaskífur með flórsykri, rjóma og sultu bornar fram með heitu súkkulaði (uppskrift af besta heita súkkulaðinu finnur þú hér) er orðin okkar kærasta aðventuhefð og tilhlökkunin hefst strax á haustin.

Til að halda í aðra hefð kemur hér tillaga að vikumatseðli fyrir komandi viku. Ef það er einhvern tímann gott að vera skipulagður í matarinnkaupum og gera stórinnkaup fyrir vikuna þá er það í desemberamstrinu, þegar það er svo margt skemmtilegra á dagskránni en að ráfa andlaus um búðina eftir vinnu.

Vikumatseðill

Mánudagur: Smjörsteiktur þorskur

Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Miðvikudagur: Grænmetisbaka með piparosti

Fimmtudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Tortillakaka

Með helgarkaffinu: Dumlekökur í ofnskúffu

Vikumatseðill

Eins og svo oft áður byrja ég sunnudaginn með kaffibollann við tölvuna og plana vikuna. Mér þykir svo gott að fara inn í vikuna með fullan ísskáp og gott yfirlit yfir það sem er og þarf að gerast í vikunni.  Það er skemmtileg vika framundan með bíóferð og vinkonuhittingi. Ef ég nenni ætla ég síðan að mála svefnherbergið mitt um næstu helgi. Það hefur staðið til að taka það í gegn og nú ætla ég að láta verða af því. Í gær fór ég að skoða rúm og í dag ætla ég að velja málningu á veggina og ákveða hvernig ég ætla að hafa þetta. En fyrst af öllu, hér kemur vikumatseðill!

Vikumatseðill

Mánudagur: Fiskur í sweet chillí

Þriðjudagur: Hakk í pulsubrauði

Miðvikudagur: Minestrone og mozzarellafylltar brauðbollur

Fimmtudagur: Spaghetti Carbonara

Föstudagur: Kjúklingaborgari

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðikaka

Vikumatseðill

Hér heima eyddum við allri síðustu viku í flensu, þar sem fjölskyldumeðlimir leystu hvort annað af í veikindunum. Ég tók síðust við keflinu og hef legið síðan ég kom heim úr vinnunni á föstudaginn. Nú vona ég að við náum þessu úr okkur í dag og að allir fari frískir inn í nýja viku.

Ég leitaði í gamlar uppskriftir fyrir matseðil vikunnar og fann ýmislegt sem ég var búin að gleyma. Ég man að pastarétturinn var mjög vinsæll hér heima á tímabili og það verður gaman að sjá hvort hann veki enn sömu lukku. Milljón dollara spaghettíið hefur alltaf verið vinsæl uppskrift á blogginu og virðist falla í kramið hjá öllum aldurshópum. Að lokum þá er himneska hnetusmjörskakan uppskrift sem má ekki gleymast, hún er allt of góð til þess!

Vikumatseðill

Mánudagur: Steiktur fiskur í kókoskarrý

Þriðjudagur: Pasta með púrrulauk og beikoni

Miðvikudagur: Milljón dollara spaghetti

Fimmtudagur: Kjúklingagratín með tómat- og ostasósu

Föstudagur: Pizzuídýfa

Með helgarkaffinu: Himnesk hnetusmjörskaka

Vikumatseðill

Skólarnir hefjast á morgun og þar með þykir mér haustið formlega komið. Ég fæ fiðring í magann við tilhugsunina. Þessi árstími hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Í ár eru ákveðin kaflaskipti hjá okkur því núna eru öll börnin mín komin í menntaskóla. Það sem tíminn líður hratt! Fyrir nokkrum árum gerði ég stóra uppskrift súkkulaðibitakökum og degið fékk að dúsa í ísskápnum fyrstu skólavikuna. Á hverju kvöldi bakaði ég nokkrar kökur sem við fengum okkur svo nýbakaðar með kvöldkaffinu. Kannski ekki það hollasta en súpernotaleg byrjun á haustinu.

Vikumatseðill

Mánudagur: Smjörsteiktur þorskur

Þriðjudagur: Tælensk núðlusúpa

Miðvikudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Fimmtudagur: Grænmetisbaka með piparosti

Föstudagur: Kjúklingur í satay með fetaosti og spínati

Með helgarkaffinu: Heimsins bestu súkkulaðibitakökur

Vikumatseðill

Síðasta vinnuvikan mín fyrir sumarfrí er framundan og eins og flesta sunnudaga sit ég við tölvuna og undirbý vikuna. Ég er með svo margar uppsafnaðar uppskriftir frá síðustu vikum sem eiga eftir að koma inn á bloggið og síðan er ég með mikið af uppskriftum sem mig langar að prófa. Listinn er langur! Það verður gaman að fara inn í sumarfríið með gott matarplan.

Lífið hefur snúist svolítið um HM upp á síðkastið. Í gær kom mamma til okkar í vöfflukaffi yfir Svíþjóð-England leiknum og um kvöldið hittumst við SSSskutlurnar og borðuðum saman yfir Rússland-Króatíu. Ég hef aldrei horft jafn mikið á fótbolta eins og undanfarnar vikur. Hef reyndar aldrei horft á fótbolta nema þegar Ísland er að spila landsleiki eða Gunnar að spila með Blikunum. Ég er þó búin að átta mig á að HM er fjör með góðum mat og spennandi leikjum. Hlakka mikið til leikjanna í vikunni og úrslitaleiksins um helgina!

Vikumatseðill

Mánudagur: Einfalt fiskgratín með sveppum

Þriðjudagur: Chili con carne

Miðvikudagur: Blómkálssúpa

Fimmtudagur: Ofnbökuð svínalund með sinnepssveppasósu

Föstudagur: Japanskt kjúklingasalat

Með helgarkaffinu: Uppáhalds vöfflurnar

Vikumatseðill

Gleðilegan þjóðhátíðardag! Ég hélt mér fjarri öllum hátíðarhöldum þetta árið og fór í göngu um Hvaleyrarvatn. Ég vildi að ég væri meira fyrir hátíðarhöldin en satt að segja fæ ég hroll við tilhugsina um að leita að bílastæði í bænum og komast hvorki afturábak né áfram vegna mannfjöldans. Nei, þá vil ég frekar fara í útivistarfötin og halda í öfuga átt við siðmenninguna. Á leiðinni heim kom ég við í Hagkaup og gerði vikuinnkaupin. Nú er ísskápurinn því fullur og allt klárt fyrir nýja vinnuviku.

Vikumatseðill

Mánudagur: Tælenskur lax með núðlum

Þriðjudagur: Karrýgrýta með grænmeti og linsubaunum

Miðvikudagur: Pastagratín

Fimmtudagur: Pizza með sætkartöflupizzubotni

 

Föstudagur: Brauðterta

Með helgarkaffinu: Hnetusmjörs- og súkkulaðivöfflur með bananarjóma

Vikumatseðill

Það er nú ekki hægt að kvarta undan veðrinu þessa helgina. Við náðum bæði að bera á pallinn og slá grasið svo nú má sumarið koma. Í dag hef ég ekki gert neitt af viti og aldrei almennilega farið á fætur. Stundum er það bara svo ljúft! Ég gerði bara lítil vikuinnkaup í gær því ég ætla að elda úr því sem er til í ísskápnum og frystinum þessa vikuna. Hér kemur þó tillaga að vikumatseðli og ég má til með að mæla sérstaklega með kjúklingnum í ostrusósunni. Hann er betri en á veitingahúsum, ég lofa!

Mánudagur: Fiskur í ljúffengri sósu

Þriðjudagur: Brokkólí- og sveppabaka

Miðvikudagur: Nautahakks- og makkarónupanna

Fimmtudagur: Kjúklingur í ostrusósu

Föstudagur: Eðlupizza

Með helgarkaffinu: Sænskir vanillusnúðar

Vikumatseðill

Ég hef barist við þreytu alla vikuna eftir hreint út sagt frábæra New York ferð í síðustu viku. Það sem við skemmtum okkur vel!! Ég kom við í Hagkaup áður en ég fór út (krakkarnir voru heima á meðan og ég vildi skilja við fullan ísskáp) og á kassanum kippti ég með mér bók sem var nýkomin út, Tvö hundruð sextíu og einn dagur. Hún beið mín þegar ég kom heim og ég eyddi síðustu helgi í sófanum með bókina og fríhafnarnammið. Ég gat ekki hætt, hvorki með nammið (tveir stórir M&M pokar (sem stóð á sharing size… hvaða stælar eru það! Eins og maður ráði því ekki sjálfur…) og hlauppoki sem ég keypti fyrir krakkana en endaði á að borða svo frá þeim) né bókina. Kristborg Bóel skrifar svo vel og skemmtilega. Ég las bókina á tveim dögum og langaði mest til að hafa samband við hana og spyrja hvort það kæmi ekki örugglega framhald og það helst á morgun. Ég byrjaði svo á nýrri bók í vikunni, sem ég keypti mér á flugvellinum í New York, The light we lost. Hún fer líka mjög vel af stað og ég hlakka til að skríða upp í rúm á kvöldin og halda áfram. Í fyrra hlustaði ég mikið á hljóðbækur en í ár hef ég ekki hlustað á eina einustu heldur hlusta frekar á podcasta (ef þið hafið ekki hlustað á Í ljósi sögunnar þá mæli ég með þeim) og les bækurnar. Það er gaman að breyta til.

Ég ætla að taka saman smá færslu um ferðina við tækifæri en held þó í sunnudagshefðina og tek saman vikumatseðil í dag.

Vikumatseðill

Mánudagur: Grilluð tandoori lambalund með salati

Þriðjudagur: Fiskbakan frábæra

Miðvikudagur: Pasta með salami, ruccola, furuhnetum og parmesan

Fimmtudagur: Blómkálssúpa með sveppaosti og sweet chili

Föstudagur: Tacopizzubaka

Með helgarkaffinu: Banana- og súkkulaðibaka

Vikumatseðill

Það er skemmtileg vika að baki með veisluhöldum kvöld eftir kvöld. Þetta er búið að vera fjör! Myndirnar eru frá fimmtudagskvöldinu en þá vorum við með það allra nánasta hér í kvöldkaffi þar sem boðið var upp á Oreo-ostaköku og Rice krispiesköku með bananarjóma og karamellu. Síðan keypti ég uppáhalds nammið hennar Malínar og setti í skálar. Einfalt og gott.

Í kvöld hlakka ég til að leggjast fyrir framan sjónvarpið og horfa á lokaþáttinn af Allir geta dansað. Það sem mér hefur þótt gaman að fylgjast með þessum þáttum og hvað ég dáist að dugnaðinum í dönsurunum! Planið var að grilla eitthvað gott í kvöldmat en það er nú ekki beint grillveður þessa dagana. Eftir veisluhöld síðustu daga langar mig mest til að sækja take-away og gera sem minnst í kvöld. Í næstu viku bíða tveir vinnudagar og svo smá frí. Ég hlakka til!

Vikumatseðill

Mánudagur: Ítalskur lax með fetaostasósu

Þriðjudagur: Hakkabuff með karamelluseruðum lauki og rjómasósu

Miðvikudagur: Puy linsurósmarín og hvítlaukssúpa

Fimmtudagur: Mozzarellapizza

Föstudagur: Kjúklingasalat með BBQ-dressingu

Með helgarkaffinu: Torta di Pernilla