Mamma hefur alltaf verið mikill eldhúsdundari og hefur safnað uppskriftum svo lengi sem ég man eftir mér. Uppskriftabækurnar hennar eru æðislegar, með handskrifuðum uppskriftum í bland við blaðaúrklippur sem hafa verið límdar inn. Persónulegar og fallegar, alveg eins og mamma er.
Um daginn þegar ég var hjá henni lá ein af uppskriftarbókunum á eldhúsborðinu. Þegar ég fór að blaða í hana sá ég að bókin var stútfull af skemmtilegum uppskriftum. Ég nældi mér í nokkrar hversdagsuppskriftir úr henni og við höfum notið góðs af þeim upp á síðkastið. Ég var búin að gefa eina fiskuppskrift úr bókinni (þú finnur hana hér) og hér kemur önnur sem er skemmtileg útfærsla á steiktum fiski. Einfaldari gerist hann varla og allir voru á einu máli um að maturinn væri stórgóður.
Steiktur fiskur í kókoskarrý
- ýsu- eða þorskflök (ca 600-800 g)
- 2 dl hveiti
- 1 dl mjólk
- 1 tsk karrý
- ½ tsk timjan
- 1 egg
- 2 msk kókosmjöl
- salt
- pipar
Öllum hráefnum, fyrir utan fiskinn, er hrært saman í skál. Fiskurinn er skorinn í bita og látinn liggja í blöndunni í 1-1½ klst. Steikið fiskinn á pönnu og berið hann fram með hrísgrjónum og karrýsósu.
‘Eg tárast nú bara þú talar svo fallega um mig Svava mín.
Gaman að sjá þessa uppskrift,þettað var oft eldað og alltaf jafn gott.
ahh þessi er girnilegur, væri frábær að fá uppskrift af karrýsósu…
Nammi!! Þetta er klárlega „must try“ vikunar , er með 11 ára stelpu sem vill ekki sjá fisk en hún hakkaði þetta í sig japplandi og umlandi „mmm namm“
Takk fyrir þetta kæru mæðgur
frábært að fá svona uppskrift, ég ætla að hafa þetta í kvöldmatinn en á ég að hafa kalda eða heita karrysósu???
Æ, ég er kannski of sein að svara en ég hef heita karrýsósu með honum. Ef þú eldaðir fiskinn þá vona ég að hann hafi smakkast vel 🙂
Ég væri líka svo mikið til í uppskrift af heitri karrýsósu, hef barasta aldrei gert þannig né t.d. kjöt í karrý 🙂
Prófuðum þennan í gær og fjölskyldan ótrúlega ánægð 😉
Takk fyrir þessa uppskrift, þessi réttur var kallaður Bylgju fiskur á mínu heimili, þegar mínir krakkar voru litlir, ég er sjálfsagt á sama aldri og mamma þín, og kom þessi uppskrift frá einhverri góðri útvarpskonu á Bylgjunni, og hann var reglulega eldaður og handskrifaður í uppskriftabókina eins og hjá mömmu þinni, og það er ekki langt síðan sonur minn óskaði eftir þessum fiski í matinn.