Ég hef lengi staðið í þeirri trú að amerískur matur sé betri en allt gott og komi hann frá suðurríkjunum sé allt toppað. Það var því engin furða að ég hafi verið spennt að baka köku sem kennd er við Texas.
Kakan skaut stoðum undir suðurríkjakenninguna því hún var stórgóð, svo góð að Malín segir hana eina bestu köku sem hún hafi smakkað. Ég hef lesið að kakan sé á stærð við Texas og að þaðan komin nafnið. Ég sel þá skýringu ekki dýrar en ég keypti hana en kakan er vissulega stór, þó ekki nógu stór að okkar mati og kláraðist allt of fljótt.
Texas Sheet Cake
- 1 bolli mjólk
- 1 bolli smjör, skorið í teninga
- 2 bollar hveiti
- 2 bollar sykur
- 2 egg
- ½ bolli sýrður rjómi
- 1 tsk salt
- 1 tsk lyftiduft
- ¼ tsk matarsódi
- 1 tsk möndludropar (ef þú ert ekki hrifin af þeim getur þú skipt þeim út fyrir vanilludropa)
Krem
- 1 bolli sykur
- ½ bolli kakó
- ½ bolli mjólk
- 4 msk smjör
- 2 msk sýróp
- 4 bollar flórsykur
- 2 tsk vanilludropar
Hitið ofninn í 190°og smyrjið kökuform í stærðinni 38 x 25 cm.
Setjið mjólk í pott og hitið við miðlungsháan hita þar til mjólkin er komin að suðu. Bætð smjöri í teningum út í og hrærið í þar til smjörið hefur bráðnað. Takið af hitanum og leggið til hliðar.
Setjið hveiti, sykur og egg í stóra skál og hrærið saman. Hellið heitri mjólkurblöndunni varlega saman við í mjórri bunu og hrærið í deiginu á meðan. Hrærið áfram þar til deigið er kekkjalaust. Hrærið sýrðum rjóma, salti, lyftidufti, möndludropum og matarsóda saman við.
Setjið deigið í kökuformið og jafnið úr því. Bakið í miðjum ofni í 18-22 mínútur. Byrjið strax á kreminu því það er sett yfir kökuna um leið og hún kemur úr ofninum.
Krem: Setjið sykur og kakó í pott og hrærið saman. Setjið pottin yfir miðlungshita og bætið mjólk, smjöri og sýrópi út í. Hrærið í pottinum þar til smjörið er bráðnað og öll hráefnin hafa blandast vel saman. Takið pottinn af hitanum og hrærið sigtuðum flórsykri saman við, einum bolla í einu. Að lokum er vanilludropum hrært í kremið.
Þegar kakan er tilbúin er hún tekin úr ofninum og kreminu hellt strax yfir hana. Látið kökuna kólna og kremið stífna áður en kakan er borin fram.
takk fyrir skemmtileg blogg og góðar uppskriftir, kanilsnúðakakan er í algjöri uppáhaldi, þessi er mjög girnileg, verður prófuð mjög fljótlega
er ekki hægt að nota eitthvað annað í staðinn fyrir sýrðan rjóma ? 🙂
Takk takk þessi slær algerlega út möndlukökuna sem maður hefur keypt í gegnum árin útí búð. Ég setti grískt jógúrt í staðin því ég átti ekki sýrðan rjóma kom mjög vel út og kremið var alveg til að toppa þetta 🙂 Það voru allir sammála um að hún er mjög góð þessi
Bakaði þessa köku í gær og hún fékk frábærar viðtökur í saumó. Næst þegar ég baka hana þá ætla ég að minnka flórsykursmagnið í kreminu eða jafnvel nota öðruvísi krem því maður fær alveg sykur sjokk.
Takk kærlega fyrir frábæra uppskrift 🙂
Sammla ther, er meira ad segja nog ad nota einn bolla florsykur og engann annann sykur.