Ég hef áður sagt frá föstudagspizzunum okkar hér á blogginu en síðustu föstudaga hafa þær staðið hér á borðum í nýrri útfærslu. Mér þykir gaman að hafa örlitla fjölbreytni í þessari annars ágætu hefð og þetta nýjasta útspil mitt í pizzumálunum hefur vakið stormandi lukku hér á heimilinu.
Mér þykir pizzufléttan falleg á borði og því gaman að bera hana fram. Mér líður þó alltaf eins og ég hafi svindlað þegar fólk dáist að henni og heldur að ég hafi staðið einbeitt með tunguna í öðru munnvikinu við baksturinn, þegar sannleikurinn er sá að ég lék mér að því. Það er nefnilega lygilega einfalt að útbúa pizzufléttuna. Ég byrja á að gera pizzadeigið (ég nota þessa uppskrift). Þegar deigið er tilbúið þá er það flatt út í ílangan ferhyrning, t.d. á stærð við ofnskúffu.
Pizzasósa, álegg og ostur eru sett eftir miðjunni endilangri og deigið á hliðunum skorið í ræmur.
Leggið ræmurnar á víxl yfir hvora aðra.
Penslið með hvítlauksolíu og stráið pizzakryddi yfir.
Bakið við 220° þar til pizzufléttan hefur fengið fallegan lit.
Þið sjáið að þetta er ekkert mál!
í pizzadeiginu talaru um 2 og 1/4 tsk þurrger. Hvernig ger ertu með…svona í bréfum eða pakkningu.
Ég er með þurrger (þessi í bréfunum) 🙂
Er þetta ca eitt bréf?
Nei, það eru ca 3 ½ tsk í bréfinu Anna Hlín.
Girnilegt! Þetta verður prófað í kvöld. Ætla að benda á krydd sem er agalega vinsælt á mínu heimili. Það er frá Pottagöldrum og heitir heitt pizzakrydd. Það er sterkt svo það er best að nota það hóflega í byrjun en við elskum allt sem er vel sterkt og nú get ég ekki gert pizzu án þess að hrista staukinn vel yfir ostinn áður pizzan er sett í ofninn 🙂
Takk fyrir að deila með okkur hvað þetta er einfalt – ég held að meira að segja ég geti prófað þetta : )
þetta er mjög girnó – ætla að prófa þetta fljótlega 🙂
Er 1 flétta nóg fyrir fjölskyldu sem kvöldmatur?