Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

Ég var svo heppin að fá að gera nokkrar uppskriftir í samstarfi við Örnu (þið finnið pastauppskrift hér og fylltar kjötbollur með piparostasósu hér) en Arna er með frábært úrval af laktósafríum mjólkurvörum. Ég hefði gefið mikið fyrir að fá þessar vörur fyrr á markaðinn, þar sem heimilið okkar var mjólkurlaust í fjölda mörg ár sökum laktósaóþols.

Ef þið hafið ekki smakkað kryddostana frá Örnu þá mæli ég með að gera það. Þeir eru frábærir, bæði á ostabakkann og líka til að hita eða bræða í rjóma (t.d. laktósafría rjómanum frá Örnu). Ég prófaði um daginn að setja beikon og paprikuostinn á tortillur með skinku, döðlum, klettasalati og furuhnetum og okkur fannst það svo gott að ég hefði þurft að gera helmingi meira. Þetta ætla ég því að gera aftur fljótlega. Mér þykja tortillurnar passa vel sem snarl með fordrykk og hlakka til að bjóða upp á þær næst þegar ég er með saumaklúbb.

Tortillur með kryddosti, skinku, döðlum, klettasalati og ristuðum furuhnetum

  • 3 pizza tortillur
  • 150 g (1 askja) laktosafrír kryddostur með beikoni og papriku frá Örnu, rifinn
  • silkiskorin skinka
  • döðlur, skornar í bita
  • klettasalat
  • balsamik gljái
  • furuhnetur
  • sojasósa

Byrjið á að þurrrista furuhneturnar á heitri pönnu. Undir lokin er smá sojasósu hellt yfir og ristað í nokkrar sekúndur til viðbótar (bara rétt til að hneturnar þorni). Leggið til hliðar.

Setjið tortillurnar (þykkari tegundina, sem er merkt pizza) á ofnplötu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Rífið kryddost yfir botninn og setjið silkiskorna skinku og döðlur yfir. Bakið við 200° í 5-7 mínútur, eða þar til osturinn hefur bráðnað aðeins (hann bráðnar ekki alveg en hitnar í gegn). Takið úr ofninum og stráið klettasalati og ristuðu furuhnetunum yfir. Endið á að sáldra balsamik gljáa yfir og berið fram.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu

Pizza með fíkjusultu, hráskinku, ruccola og parmesan

Það styttist í helgina og eflaust einhverjir farnir að huga að helgarmatnum. Pizzur eru fastur liður á föstudagskvöldum hjá mörgum og hér heima tökum við tarnir í pizzubakstri. Þá höfum við pizzu um hverja helgi og prófum nýtt álegg sem oftast. Þessa samsetningu sá ég hjá The Pioneer Woman og okkur fannst hún meiriháttar góð – eins og allt sem kemur frá henni!

 

Pizza með fíkjusultu, hráskinku, ruccola og parmesan

  • pizzabotn (keyptur eða heimabakaður, uppskrift hér)
  • 1/2 bolli fíkjusulta
  • maldonsalt
  • um 350 g ferskur mozzarella, skorinn í þunnar sneiðar
  • um 225 g hráskinka
  • um 350 g ruccola
  • parmesan

Hitið ofn í 250° og setjið ofnplötu í neðstu grind.

Fletjið pizzadegið út og smyrjið fíkjusultunni yfir. Stráið smá maldonsalti yfir sultuna. Leggið mozzarellasneiðar yfir og bakið pizzuna í 12-15 mínútur, eða þar til botninn er orðinn stökkur og osturinn bráðnaður. Setjið hráskinkuna strax yfir heita pizzuna og leggið síðan vel af ruccola yfir hráskinkuna. Endið á að strá parmesanosti yfir.

Pizzastangir með pepperoni

Þessi fyrsta sumarfrísvika mín hefur boðið upp á æðislegt veður og þrátt fyrir að hafa lofað uppskrift af pizzastöngum hingað inn þá hef ég ekki getað setið inni við tölvuna þegar sólin loksins lét sjá sig.

Ég gerði pizzastangirnar fyrir úrslitaleik HM og fékk fjölmargar fyrirspurnir um uppskriftina eftir að ég setti mynd af þeim í Insta story. Ég gerði mér einfalt fyrir og keypti pizzadeigið tilbúið, þetta sem er upprúllað. Þá þurfti bara að rúlla því út, setja fyllinguna í og síðan notaði ég smjörpappírinn sem pizzadeigið kemur á, til að brjóta deigið saman. Þetta gekk allt mjög hratt fyrir sig og vakti mikla lukku yfir leiknum. Fullkomið föstudagssnarl!

Pizzastangir með pepperoni

  • 1 rúlla pizzadeig
  • 3-4 tsk ítölsk hvítlauksblanda
  • 1/2 tsk red pepper flakes
  • 6 msk rifinn parmesan
  • 3 msk ólífuolía
  • 1 bréf pepperoni (um 120 g)
  • rúmlega 1/2 poki rifinn mozzarella (um 120 g)

Hitið ofninn í 200°.

Blandið ítalskri hvítlauksblöndu, red pepper flakes og rifnum parmesan saman í skál.

Rúllið deiginu út (eða fletjið það út í ferhyrning ef notað er heimagert) og stráið helmingnum af kryddblöndunni yfir deigið. Skerið pepperoni í fernt og dreifið yfir helminginn af deiginu. Brjótið helminginn sem er ekki með pepperoni yfir pepperoni-helminginn, þannig að fyllingin verði inn í. Skerið deigið í stangir og snúið hverri stöng í nokkra hringi. Penslið yfir brauðstangirnar með ólífuolíu og stráið kryddblöndu yfir. Færið brauðstangirnar yfir á bökunarplötu með bökunarpappír og snúið krydduðu hliðinni niður. Penslið með olíu og stráið kryddblöndu yfir (þannig að það er olía og krydd bæði undir og yfir brauðstöngunum) og bakið í 8-10 mínútur, eða þar til brauðstangirnar eru orðnar gylltar og fallegar.

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Þá er kominn nýr mánuður og ný vinnuvika. Sumarið (sem hefur þó varla verið neitt sumar hér á höfuðborgarsvæðinu) fer að verða hálfnað! Hér á heimilinu er enginn byrjaður í fríi en við strákarnir fórum í skemmtilega dagsferð á laugardaginn með vinnunni minni, þar sem við gengum upp á Stóra-Dímon og inn í Nauthúsagil og enduðum daginn síðan í grilli. Þetta er skemmtilegur hringur og passar vel fyrir dagsferðir, það er hægt að stoppa við Seljalandsfoss í leiðinni og enda daginn á einhverjum af fjölmörgum veitingastöðum á suðurlandinu.

Í gær var svo hefðbundinn sunnudagur með vikuinnkaupum og vikuundirbúningi. Ég setti myndir um helgina á Insta stories, meðal annars af gróðrastöð fyrir eldhúsið og hef sjaldan fengið jafn mörg skilaboð með fyrirspurnum. Ég held að ég sé búin að svara öllum en gróðrastöðin fæst í Eirberg (þar er útsala núna og 25% afsláttur af gróðrastöðum, þannig að það er um að gera að nýta sér það!) og ég bind miklar vonir við að geta nú loksins átt ferskar kryddjurtir í eldhúsinu. Hingað til hefur mér gengið illa að halda þeim á lífi en gróðrastöðin á að sjá um þetta fyrir mig. Hún veitir birtu og er með sjálvirku vökvunarkerfi. Ég sótti app í símann sem tengdist við gróðrastöðina, þar hakaði ég við þær kryddjurtir sem ég er með og þar með þarf ég varla að gera meira en að skipta um vatn annað slagið. Súpersniðugt!

Planið er síðan að planta þessum pipar í gróðrastöðina (þeir fást líka í Eirberg). Mér þykir það dálítið spennandi, það verður áhugavert að sjá hvað verður úr þessu. Ég er með millistærðina af gróðrastöðinni, þessa hér og setti tvær tegundir af basiliku (venjulega og rauða) og rósmarín í hana. Það er æðisleg lykt í eldhúsinu!

Við vorum búin að ákveða að vera með pizzur í kvöldmatinn í gær, þar sem ég átti mikið af skinku og salami sem ég vildi fara að losna við. Það fór þó svo að þegar basilikan var komin í eldhúsið fékk ég óstjórnlega löngun í tómatapizzu. Úr varð æðisleg pizza sem ég ákvað að skrifa strax niður svo ég geti endurtekið hana. Botninn er úr smiðju Ebbu Guðnýjar en Gunnari þykir þessi pizzabotn vera sá allra besti og velur hann alltaf fram yfir hefðbundinn hveitibotn.

Hvít pizza með tómötum, avokadó, pestó og basiliku

Botn:

  • 250 g lífrænt spelt
  • 3 tsk vínsteinslyftiduft (má sleppa)
  • 1/2 – 1 tsk sjávarsalt
  • 1-2 tsk óreganó
  • 3 msk kaldpressuð ólífuolía (ég var með kaldpressaða hvítlauksólífuolíu)
  • 135-150 ml heitt vatn

Sjóðið vatnið. Blandið þurrefnum saman. Setjið olíu og vatn út í þurrefnin og hrærið saman í deig (tekur stutta stund, ekki hnoða of lengi). Þetta deig dugar í 4 þunnar pizzur og það er best að forbaka botnana í 4-5 mínútur við 180° (ég var þó með hærri hita á pönnupizzunni). Ég notaði helminginn af deiginu í pönnupizzuna.

Yfir pizzusuna:

  • 2 kúlur ferskur mozzarella
  • tómatar (ég var með litla)
  • 1/2 – 1 avokadó
  • handfylli af ferskri basiliku
  • grænt pestó
  • salt og pipar

Setjið helminginn af deiginu í 30 cm steypujárnspönnu (eða fletjið deigið út á ofnplötu) og bakið við 220° í 4-5 mínútur. Stráið þá rifnum ferskum mozzarella og tómötum yfir og bakið áfram þar til osturinn hefur bráðnað. Skerið avokadó í sneiðar og setjið yfir pizzuna ásamt ferskri basiliku og doppum af pestói. Sáldrið góðri hvítlauksolíu yfir, kryddið með sjávarsalti og svörtum pipar og berið fram.

Pizza með pestó, hráskinku, sólþurrkuðum tómötum og ólífum

Á morgun er föstudagur og pizzakvöld á mörgum heimilum. Við erum búin að vera dugleg að prófa nýjar pizzur upp á síðkastið, eða öllu heldur ný álegg á pizzurnar, og um síðustu helgi gerðum við ítalska pizzu hér heima.

Ég keypti bæði tilbúinn botn og tilbúið pestó, sem gerði það að verkum að það tók enga stund að gera pizzuna. Kósýföt, kertaljós, pizza og rauðvín í glasinu… helgin getur varla byrjað betur!

Pizza með pestó, hráskinku, sólþurrkuðum tómötum og ólífum

  • pizzadeig
  • rautt pestó
  • hráskinka
  • ólífur
  • sólþurrkaðir tómatar
  • rifinn ostur
  • fersk basilika

Fletjið botninn út og smyrjið rauðu pestói yfir. Stráið rifnum osti yfir og setjið svo hráskinku, ólífur og sólþurrkaða tómata yfir. Stráið smá rifnum osti yfir og bakið í funheitum ofni þar til osturinn er bráðnaður. Setjið ferska basiliku yfir pizzuna þegar hún kemur úr ofninum.

 

Mozzarellapizza

Mér finnst ég alltaf vera að skrifa fimmtudagsfærslur því vikurnar hreinlega þjóta frá mér. Ég er að fara í afmæli annað kvöld og á laugardaginn er planið að fara út að borða. Það er því lítið um matarplön hjá mér fyrir þessa helgi, nema þá fyrir sunnudaginn. Þá langar mig að elda eitthvað gott.

Um síðustu helgi prófaði ég að gera nýja pizzu. Það sem gerir þessa pizzu frábrugna þeim hefðbundnu er að sósan er úr sýrðum rjóma sem er mixaður með kúrbít og rauðlauk. Ég var líka með hefðbundna pepperoni pizzu sem ég bar fram með þessari og það fór jafnt af þeim. Ólíkar en báðar svo góðar!

Mozzarellapizza

  • pizzabotn (hér er uppskrift en það er líka hægt að nota búðarkeypt pizzadeig)
  • 1 lítill rauðlaukur
  • 1 kúrbítur
  • 2 dl sýrður rjómi
  • 200 g mozzarella
  • 3-4 tómatar
  • 1 dl kasjúhnetur
  • salat
  • salt og pipar

Afhýðið laukinn og skerið í sneiðar. Skerið kúrbítinn í sneiðar. Hitið olíu í potti og steikið rauðlaukinn og kúrbítinn þar til farið að mýkjast. Bætið sýrðum rjóma saman við og látið suðuna koma upp. Maukið blönduna slétta með töfrasprota eða í matvinnsluvél. Smakkið til með salti og pipar.

Skerið mozzarella og tómata í sneiðar. Þurrristið kasjúhneturnar á pönnu.

Fletið deigið út og setjið kúrbítssósuna yfir botninn (geymið sósuna sem verður afgangs í kæli eða notið hana yfir pizzuna eftir að hún kemur úr ofninum). Setjið ost og tómata yfir sósuna. Bakið pizzuna við 230° í um 10 mínútur. Þegar pizzan kemur úr ofninum er salat og hnetur sett yfir hana. Berið fram með balsamik gljáa og/eða því sem eftir var af sósunni.

Chilihakkpizza

 

Í lok október las ég um verkefni sem foreldri í Green School á Balí setti í gang fyrir nokkrum árum, The SHIFT. Verkefnið snýst um að gera eitthvað ákveðið á hverjum degi í heilan mánuð. Þetta á hvorki að vera risavaxin né stór áskorun, heldur litlir hlutir sem auðvelt er að framkvæma. Með þessu er til dæmis auðvelt að komast yfir leiðinleg verkefni sem hafa setið á hakanum, eins og að fara yfir myndirnar í tölvunni (sem er stöðugt á verkefnalistanum mínum). Það er þá hægt að ákveða að eyða 10 mínútum á dag í heilan mánuð í að fara yfir myndirnar og klára verkið þannig. Það er líka hægt að láta verkefnið snúast um að gera eitthvað skemmtilegt á hverjum degi í einn mánuð, eins og að horfa á þátt á Netflix á hverju kvöldi eða að láta eftir sér góðan súkkulaðimola með kaffinu á hverjum degi.

Mér fannst þetta sniðug hugmynd og ákvað að prófa The SHIFT í nóvember. Ég valdi að hætta að skoða Instagram og Snapchat upp í rúmi á kvöldin og gefa mér í staðin meiri tíma til að lesa. Í kvöld er síðasta kvöldið en ég ætla þó að halda þessari rútínu, því mér hefur þótt æðislegt að slökkva á símanum áður en ég skríð upp í rúm með bókina mína á kvöldin. Ég er vön að lesa fyrir svefninn en síminn var farinn að taka tíma frá bókunum. Þetta var því góð leið til að venja mig af því að láta Instagram svæfa mig. Ég byrja ennþá dagana á að renna yfir flæðin í símanum áður en ég fer á fætur og hef engin plön um að hætta því. Mér þykir notalegt að vakna rólega að ég gef mér alltaf korter á morgnana í rúminu til að vakna á meðan ég renni yfir miðlana og helstu fréttir.

Á morgun hefst nýr mánuður og því er upplagt að finna sér verkefni sem gerir hvern einasta dag í desembermánuði örlítið betri. Ég mæli með að prófa þetta, það er engu að tapa!

Það styttist enn og aftur í helgina og því ekki seinna vænna en að fara að huga að föstudagsmatnum. Við höfum verið að prófa mismunandi álegg á pizzur upp á síðkastið sem hefur verið skemmtileg tilbreyting frá hefðbundu pizzunum (það er svo létt að festast í því sama). Ég hef sett inn tvær útfærslur af pizzum sem við höfum gert, eðlupizzuna og döðlupizzuna, og ætla núna að bæta þeirri þriðju í safnið. Þessi þótti okkur alveg æðisleg! Matarmikil og súpergóð!!

Chilihakkpizza

  • 500 g nautahakk
  • 1 laukur, skorinn í þunna hálfmána
  • 1 dós Hunt´s for chili (eða annað sambærilegt)
  • 1 rúlla tilbúið pizzadeig (eða annað pizzadeig)
  • pizzasósa
  • rifinn ostur

Hitið olíu á pönnu og steikið nautahakk vel. Bætið lauk á pönnuna og látið mýkjast. Hellið Hunt´s for chili yfir og látið sjóða saman í nokkrar mínútur.

Rúllið pizzabotninum út (eða fletjið út annað pizzadeig) og fletjið hann út svo hann fylli út í ofnskúffu. Setjið pizzasósu yfir, síðan hakkblönduna og að lokum ost yfir. Bakið í funheitum ofni þar til botninn er stökkur og osturinn bráðnaður. Stráið fínhökkuðum rauðlauki og fersku kóriander eða steinselju yfir áður en pizzan er borin fram.

 

Föstudagspizza með döðlum

Á morgun er loksins föstudagur og það passar alltaf jafn vel að fagna helgunum með pizzu. Eðlupizzan sem ég setti hingað inn um daginn var mjög vinsæl en núna ætla ég að stinga upp á föstudagspizzu sem er ekki síðri. Það var vinnufélagi minn sem benti mér á að setja döðlur á pizzuna og eftir að ég prófaði það er varla aftur snúið. Svo klikkaðslega gott!!

Ef maður er þreyttur eftir vikuna eða í tímaþröng þá er upplagt að kaupa tilbúið pizzadeig, þó að heimagert pizzzadeig er alltaf best. Stundum gefst bara ekki tími og stundum nennir maður einfaldlega ekki að standa í stússi og vill bara fá pizzuna sem fyrst á borðið!

Döðlupizza

  • tilbúinn pizzabotn eða heimagerður (hér er mín uppáhalds uppskrift) eða tortillapizzabotn
  • pizzasósa
  • rifinn ostur
  • pepperóní
  • sveppir
  • rauðlaukur
  • rjómaostur
  • döðlur

Fletjið pizzabotninn út, setjið pizzasósu yfir hann og rifinn ost. Raðið pepperóní, sneiddum sveppum, rauðlauki og niðurskornum döðlum yfir. Setjið klípur af rjómaosti yfir pizzuna og smá rifinn ost yfir allt. Setjið inn í funheitan ofn þar til osturinn er bráðnaður.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Eðlupizza

Það er pizza á matseðli Pizzunnar sem strákarnir mínir eru vitlausir í. Pizzan heitir Eðlupizza og minnir á hina sívinsælu eðlu, þ.e. rjómaostur, salsasósa og ostur. Það er svo einfalt að gera pizzuna og nú höfum við ítrekað gert hana hér heima um helgar við miklar vinsældir.

Nú vil ég ekki draga úr sölu pizzunnar hjá Pizzunni með því að setja uppskriftina hingað inn en þeir birtu sjálfir myndband af því hvernig þeir gera hana og síðan eru ekki allir með aðgang að þeim ágæta pizzastað og þá er gott að geta reddað sér heima við. Hjá pizzunni setja þeir salsasósu, ost, pepperóní, rjómaost, svart Doritos og meiri ost yfir botninn áður en hún fer inn í ofn. Mjög gott! Ég hef þó aðeins breytt þessu og geri svona…

Eðlupizza

  • pizzabotn (annað hvort keyptur tilbúinn eða bakaður heima, hér er mín uppáhalds uppskrift)
  • rjómaostur (ég er hrifin af Philadelphia rjómaostinum)
  • salsasósa
  • pepperóní
  • rifinn ostur
  • nachos (við notum alltaf svart Doritos)
  • sýrður rjómi til að setja yfir pizzuna

Fletjið pizzabotninn út og smyrjið hann með rjómaosti. Setjið salsasósu og rifinn ost yfir. Setjið þá pepperóni yfir ostinn, grófmyljið Doritos yfir og setjið að lokum smá rifinn ost yfir allt. Bakið í funheitum ofni þar til osturinn er bráðnaður. Setjið doppur af sýrðum rjóma yfir og berið strax fram, jafnvel með smá auka Doritos til að mylja yfir.

Hvítlauksbrauðstangir

Það hljóta allir að kannast við að langa í eitthvað gott en vita ekki hvað það á að vera. Að finnast ekkert vera til en nenna ekki út í búð. Svo ekki sé minnst á sísvanga unglinga sem virðast botnlausir þegar kemur að mat. Ég passa að eiga alltaf hafragraut í pokum til að hita í örbylgjuofni (við sjóðum vatn í hraðsuðukatli og hellum yfir grautinn í staðin fyrir að hita hann í örbylgjuofni, blöndum svo trönuberjum og kanil saman við), skyr, flatkökur, ávexti og orkustykki (hér er t.d. góð uppskrift af hafrastykkjum). Síðan koma dagar þar sem þetta dugar engan vegin til að svala þörfinni og þá eru góð ráð dýr. Ein stórgóð redding eru hvítlauksbrauðstangir. Það tekur enga stund að útbúa þær og það er einfalt að eiga hráefnin heima því þau geymast vel. Þær eru auðvitað frábært meðlæti með pizzum en duga líka vel einar og sér. Það má síðan poppa brauðstangirnar upp með góðri sósu, t.d. pizzasósu, piparostasósu eða jalapenosósu. Súpergott!

Hvítlauksbrauðstangir (uppskrift frá Sugarapron)

  • tilbúið pizzadeig
  • 1 msk smjör, brætt
  • 1 hvítlauksrif, fínhakkað
  • 1/2 bolli rifinn mozzarella
  • 1 msk parmesan
  • 1 msk þurrkuð basilika
  • salt og pipar eftir smekk

Hitið ofn í 220°. Hrærið brætt smjör og hvítlauk saman í skál og penslið yfir pizzabotninn. Stráið osti og kryddum yfir botninn. Skerið pizzabotninn í stangir en takið þær ekki í sundur. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit. Skerið aftur í brauðstangirnar til að taka þær í sundur. Berið heitar fram eins og þær eru eða með sósu að eigin vali.