Það hljóta allir að kannast við að langa í eitthvað gott en vita ekki hvað það á að vera. Að finnast ekkert vera til en nenna ekki út í búð. Svo ekki sé minnst á sísvanga unglinga sem virðast botnlausir þegar kemur að mat. Ég passa að eiga alltaf hafragraut í pokum til að hita í örbylgjuofni (við sjóðum vatn í hraðsuðukatli og hellum yfir grautinn í staðin fyrir að hita hann í örbylgjuofni, blöndum svo trönuberjum og kanil saman við), skyr, flatkökur, ávexti og orkustykki (hér er t.d. góð uppskrift af hafrastykkjum). Síðan koma dagar þar sem þetta dugar engan vegin til að svala þörfinni og þá eru góð ráð dýr. Ein stórgóð redding eru hvítlauksbrauðstangir. Það tekur enga stund að útbúa þær og það er einfalt að eiga hráefnin heima því þau geymast vel. Þær eru auðvitað frábært meðlæti með pizzum en duga líka vel einar og sér. Það má síðan poppa brauðstangirnar upp með góðri sósu, t.d. pizzasósu, piparostasósu eða jalapenosósu. Súpergott!
Hvítlauksbrauðstangir (uppskrift frá Sugarapron)
- tilbúið pizzadeig
- 1 msk smjör, brætt
- 1 hvítlauksrif, fínhakkað
- 1/2 bolli rifinn mozzarella
- 1 msk parmesan
- 1 msk þurrkuð basilika
- salt og pipar eftir smekk
Hitið ofn í 220°. Hrærið brætt smjör og hvítlauk saman í skál og penslið yfir pizzabotninn. Stráið osti og kryddum yfir botninn. Skerið pizzabotninn í stangir en takið þær ekki í sundur. Bakið í 10-12 mínútur eða þar til osturinn hefur bráðnað og fengið fallegan lit. Skerið aftur í brauðstangirnar til að taka þær í sundur. Berið heitar fram eins og þær eru eða með sósu að eigin vali.