Hafrastykki

Hafrastykki

Í gærkvöldi gerði ég hafrastykki. Núna eru börnin komin í sumarfrí og þá vil ég passa upp á að eiga gott snarl fyrir þau hér heima. Það er svo einfalt að gera hafrastykki og mér þykja heimagerð svo mikið betri en þau sem fást í stórverslunum. Þurrefnum er einfaldlega blandað saman í skál, smjör, hnetusmjör, hunang og sýróp brætt saman í potti og svo er öllu blandað saman, þrýst í form og bakað.

Hafrastykki

Þegar hafrakakan kemur úr ofninum er hún látin kólna og síðan skorin í passlega stór stykki.

Hafrastykki

Mér þykja hafrastykkin vera frábært nesti sem hentar vel í ferðalagið, göngur eða hjólatúra. Ég pakka þeim inn í bökunarpappír og þá er þægilegt að grípa þau með sér á hlaupum út. Í morgun stakk ég einu í veskið áður en ég fór í vinnuna og mikið þótti mér gott að geta fengið mér það í lok vinnudagsins.

Hafrastykki

Krakkarnir elska hafrastykkin og Malín var fljót að stinga einu í nestiboxið áður en hún hélt af stað í unglingavinnuna í morgun.

Hafrastykki

Hafrastykki

 • 230 g haframjöl (2½ bolli)
 • 10 g rice krispies (½ bolli)
 • 20 g kókosmjöl (¼ bolli)
 • 90 g súkkulaðibitar  (½ bolli ) -mér þykir suðusúkkulaði best
 • 100 g púðursykur (½ bolli)
 • 1/2 tsk salt
 • 50 g smjör (¼ bolli)
 • 60  g hnetusmjör (¼ bolli)
 • 3 msk hunang
 • 2 msk sýróp (má sleppa)
 • 1/2 tsk vanilludropar

Setjið smjör, hnetusmjör, hunang og sýróp í pott og bræðið saman við lágan hita. Þegar blandan hefur bráðnað er vanilludropum bætt út í.

Setjið haframjöl, rice krispies, kókosmjöl, súkkulaðibita, púðursykur og salt í skál og blandið vel. Hellið smjörblöndunni saman við og hrærið öllu vel saman. Þrýstið blöndunni í bökunarform sem er 20×20 cm og bakið við 175° í 20 mínútur. Kælið og skerið síðan í stykki.

14 athugasemdir á “Hafrastykki

 1. Get ég sleppt hnetusmjörinu? Et með einn sem er með bráðaofnæmi f.hnetum. Get ég sett eitthvað annað i staðinn.
  Frábær síða

  1. Ég bjó til möndlusmjör og setti í staðinn (rista möndlur í ofni, 150°C og hakka svo vel í matvinnsluvél, c.a. 10 mín), bætti líka við smá kanil. Þetta bragðaðist a.m.k. mjög vel 🙂

 2. Sæl,
  Takk fyrir frábæran vef og algerlega frábærar uppskriftir! Ég er búin að prufa þó nokkrar og hver og ein hefur slegið í gegn 🙂 M.a. after eight kakan. Ég bakaði hana fyrir fermingu systurdóttur minnar og fékk mikið hrós fyrir. T.d. sagði ein vinkona systur minnar að þetta væri besta kakan á borðinu. Systir mín var pínu móðguð af því að þetta var eina kakan sem hún bakaði ekki 😉
  Ég hlakka alltaf til að fá nýja uppskrift 🙂

 3. Þessir slógu í gegn á mínu heimili. Er núna með tvöfalda uppskrift í ofninum og slengdi smá trönuberjum með. Takk fyrir frábæran vef og góðar uppskriftir sem sumar eru orðnar fastur liður í eldamennskunni. Algjörlega hluti af netrúntinum og gefur lífinu lit 🙂

 4. Takk fyrir frábæra síðu …Ég var að pæla hvernig væri best að geyma hafrastykkin svo þau halda sér svona stökk 🙂

 5. Mmm var að gera þessi og eru þau mjög bragðgóð en þau urðu svolítið þurr hjá mér og hrynja töluvert í sundur, eiga þau kannski að vera þannig? Skiptir máli hvernig hnetusmjör maður notar? (ég notaði gróft frá Sollu)

   1. Þar sem Svava er ekki búin að svara þá langaði mig til að láta þig vita að ég gerði hafrastykkin aftur og í notaði þá meira smjör og meira hunang til að reyna að líma þetta betur saman en minnkaði púðursykurinn. Það tókst vel nema að blandan var svo heit að hún bræddi allt súkkulaðið, kannski á það að vera þannig en mig langaði til að hafa bita í þessu. Spurning um að kæla blönduna bara fyrst.. 🙂

 6. Mjög bragðgott en hrundi einmitt allt í sundur hjá mér svo að ég sé nú ekki að ég geti pakkað inn neinum föstum stykkjum.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s