Í gær áttum við notalegan dag hér heima og ég nýtti hann í að elda stóran skammt af nautahakkschili. Mér þykir eitthvað notalegt við að elda mat sem dugar í nokkrar máltíðir og mér þótti sérlega gott að vita til þess að kvöldmaturinn væri nánast tilbúinn þegar ég keyrði heim úr vinnunni í dag.
Þegar ég eldaði réttinn í gær bar ég hann fram með cheddarskonsum sem reyndist ómótstæðileg samsetning. Kljúfið skonsurnar, setjið chiliréttinn yfir, smá sýrðan rjóma ofan á og hamingjan verður taumlaus. Það þarf ekkert meðlæti en gott salat má alltaf hafa til hliðar, þó ekki sé nema samviskunar vegna.
Það má annars bera þennan rétt fram á ótal marga vegu og í kvöld skar ég snittubrauð eftir því endilöngu, stakk því í örskamma stund í ofninn til að fá það stökkt, setti svo nautahakkschili yfir og að lokum rifinn cheddar ost. Brauðinu var þar á eftir skellt aftur í ofninn þar til osturinn hafði bráðnað. Meðlætið var franskar kartöflur, koktelsósa og hrásalat. Þið getið rétt ímyndað ykkur hamingjuna á heimilinu. Afgangurinn fær eflaust að prýða pizzabotn eða endar með salati í tortillavefjum þegar líður á vikuna. Svo dásamlega gott.
Ég veit að hráefnalistinn er langur en mikið gæti þó leynst í skápnum hjá þér. Ef ekki þá myndi ég samt skoða það að kaupa í réttinn því hann er dásamlegur í alla staði. Ekki vera hrædd við chilimagnið því rétturinn er ekki eins sterkur og maður skyldi halda. Krakkarnir elskuðu hann og við glöddumst öll yfir tilhugsuninni um fá að borða matinn aftur í dag.
Deb, sem heldur úti blogginu Smitten Kitchen, vill meina að uppskriftin sé fyrir 6. GLÆTAN! Við vorum fimm, borðuðum öll yfir okkur og samt var rúmlega helmingur eftir af matnum. Eftir þessar tvær máltíðir okkar er enn örugglega þriðjungur eftir. Ég myndi því segja að uppskriftin væri fyrir 12-15 manns.
Nautahakkschili með cheddarskonsum (lítillega breytt uppskrift frá Smitten Kitchen)
- 2 stórir laukar, hakkaðir
- ¼ bolli bragðlítil olía
- 1 msk hakkaður hvítlaukur
- 2 gulrætur, skornar í þunnar sneiðar
- 1,3 kg. nautahakk (2 góðir bakkar)
- 3 msk chili duft (dagsatt!)
- 1 msk cumin
- 2 msk paprikuduft
- 1 msk oregano
- 1 msk þurrkaðar chili piparflögur (red pepper flakes)
- 2 dósir hakkaðir tómatar
- 1 ¼ bolli vatn
- 1 ½ teningur nautakraftur
- 3 msk hvítvínsedik
- 1 dós nýrnabaunir
- 2 grænar paprikur, hakkaðar
Hitið olíu við vægan hita í stórri pönnu og steikið laukinn í 5-10 mínútur, eða þar til hann er mjúkur. Bætið hvítlauk og gulrótum á pönnuna og steikið áfram í 1 mínútu. Hækkið hitann upp í miðlungshita og bætið nautahakkinu á pönnuna. Brjótið hakkið í sundur og hrærið reglulega í á meðan það steikist, um 10 mínútur. Bætið chilidufti, cumin, paprikudufti, oregano og þurrkuðum chili piparflögum saman við og steikið áfram í aðra mínútu. Bætið niðursoðnum tómötum, vatni, teningi og hvítvínsediki á pönnuna og látið sjóða undir loki við vægan hita í 35-40 mínútur. Skolið nýrnabaunirnar vel og látið renna af þeim. Bætið nýrnabaununum á pönnuna ásamt papriku. Saltið og piprið eftir smekk og látið sjóða í 15 mínútur til viðbótar, eða þar til paprikan er orðin mjúk.
Cheddarskonsur
- 1 ½ bolli hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- ½ tsk matarsódi
- ½ tsk salt
- 2 msk kalt smjör, skorið í litla bita
- 1 ½ bolli rifinn cheddar ostur
- 1 bolli sýrður rjómi
Hitið ofninn í 215°. Hrærið saman hveiti, lyftidufti, matarsóda og salti í stórri skál. Blandið smjörinu vel saman við með höndunum. Hrærið cheddarostinum og sýrða rjómanum saman við þar til blandan myndar klístrað deig. Fletjið deigið út á vel hveitistráðu borði svo það verði rúmur sentimeter á þykkt. Notið glas eða annað hringlaga form til að skera 6-8 hringi úr deginu, miðið við að hringirnir séu um 8 sentimetrar í þvermál. Setjið deighringina á bökunarpappírsklædda bökunarplötu og bakið í 15-17 mínútur, eða þar til skonsurnar eru gylltar á lit.
Ath. að ef þið viljið vinna á undan ykkur, t.d. fyrir matarboð, þá er hægt að útbúa skonsurnar og frysta þær óbakaðar. Það má síðan setja þær frosnar í ofninn en bætið þá 1-2 mínútum við bökunartímann.
Hefuru eitthvað hugsað út í að gera þætti?
ég var með ofnbökuðu hakkbollurnar þínar í vinnunni í dag, þarf að fjórfalda uppskriftina, notaði ferskan parmaggiano, rósmarin og eitthvað annað grænt, átti ekki þau krydd sem að áttu að vera, besta útgáfan hingað til…..en ekki virkar þetta hollt að vera með snittubrauð og franskar með chilinu
Þetta virkar mjög girnilegt og á örugglega eftir að prófa……..Edda Hersir,það drepur engan að hafa ekki alltaf, allt hollt út í gegn:-)
H Hvar kaupir chili flgurnar??g er bin a leita nokkrum bum. Kv. Bergra