Fyrir nokkrum vikum fékk ég , ásamt fleiri bloggurum, sendingu frá Saltverk sem innihélt þrjár nýjar salttegundir; lavasalt, blóðbergssalt og lakkríssalt.
Ég hef verið hrifin af saltinu frá Saltverk og þetta nýja salt hefur svo sannarlega vakið áhuga minn. Ég ætla að prófa blóðbergssaltið á lambakjötið við tækifæri og er viss um að það eigi eftir að koma vel út. Í gærkvöldi setti ég hins vegar lakkríssaltið í klessukökumuffins og það voru allir á einu máli um að lakkríssaltið færi æðislega vel með súkkulaðibragðinu. Mamma stakk svo upp á að setja smá lakkríssalt út í heitt súkkulaði með rjóma og ég er spennt að prófa það.
Nýju salttegundirnar eru komnar í verslanir (ég veit að þær fást t.d. í Frú Laugu og í Búrinu) og því um að gera að næla sér í þetta gourmet salt.
Klessukökumuffins (12 kökur)
- 100 g smjör
- 2 egg
- 3 dl sykur
- 1,5 dl hveiti
- 1 dl kakó
- 1 msk vanillusykur
- 1/4 tsk lyftiduft
- Saltverks lakkríssalt á hnífsoddi
Bræðið smjörið. Blandið öllum þurrefnum saman og hrærið smjörinu síðan saman við. Hrærið eggjunum síðast í deigið. Skiptið deiginu í um 12 muffinsform og bakið við 175° í um 12-15 mínútur.