Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Í vikunni bakaði ég möffins til að eiga með kaffinu. Ég veit ekki hvernig mér datt í hug að þær myndu jafnvel fá að liggja óhreyfðar fram að helginni en það fór auðvitað eins og það fór, og alls ekki eins og ég hafði hugsað mér. Ég hætti ekki að furða mig á því hvað unglinsstrákar geta borðað mikið! Möffinsin kláruðust samdægurs, að sjálfsögðu. Fyrst borðuðum við þau nýkomnin úr ofninum og þá voru súkkulaðibitarnir bráðnaðir í heitum möffinsunum, klikkaðslega gott. Síðan um kvöldið voru súkkulaðibitarnir harðnaðir í þeim og gáfu stökkt kröns í mjúkt möffinsið, líka alveg brjálæðislega gott.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Næst mun ég sýna fyrirhyggju og taka hluta af þeim frá. Það má t.d. frysta möffinsin. Það getur verið gott að eiga þau  í frystinum þegar gesti ber að garði eða möffinslönguninn grípur mann. Þá er bara að hita eitt í örbylgjuofninum í 30-45 sek og það er eins og þú hafir verið að taka það úr ofninum.

Fullkomnar súkkulaðibitamöffins með súkkulaðibitum (uppskriftin gefur 12 ágætlega stór möffins)

 • 2/3 bolli kakó
 • 1 3/4 bolli hveiti
 • 1 1/4 bolli púðursykur
 • 1 tsk matarsódi
 • 3/4 tsk salt
 • 1 tsk instant kaffi
 • 1 1/2 bolli grófhakkað suðusúkkulaði
 • 2 stór egg
 • 3/4 bolli mjólk
 • 2 tsk hvítvíns edik
 • 2 tsk vanilludropar
 • 1/2 bolli smjör, brætt

Hitið ofninn í 175° og takið fram möffinsform. Ég set formin í möffinsmót, þá halda þau löguninni betur. Þessu má þó sleppa.

Hrærið þurrefnum saman (hveiti, sykri, matarsóda, salti og kaffi).

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Grófhakkið súkkulaðið.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Hrærið súkkulaðibitum saman við þurrefnin og leggið til hliðar.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Hrærið eggjum, mjólk, ediki og vanilludropum saman.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Bræðið smjörið.Hrærið eggjablöndunni saman við þurrefnin og hrærið síðan bræddu smjörinu saman við þar til allt hefur blandast vel. Notið skeið og setjið deigið í möffinsformin, fyllið þau að 3/4.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Bakið í 20-15 mínútur, eða þar til prjóni stungið í möffinsin kemur hreinn upp.

Fullkomnar súkkulaðimöffins með súkkulaðibitum

Klessukökumuffins með lakkríssalti

Saltverk

Fyrir nokkrum vikum fékk ég , ásamt fleiri bloggurum, sendingu frá Saltverk sem innihélt þrjár nýjar salttegundir; lavasalt, blóðbergssalt og lakkríssalt.

Ég hef verið hrifin af saltinu frá Saltverk og þetta nýja salt hefur svo sannarlega vakið áhuga minn. Ég ætla að prófa blóðbergssaltið á lambakjötið við tækifæri og er viss um að það eigi eftir að koma vel út. Í gærkvöldi setti ég hins vegar lakkríssaltið í klessukökumuffins og það voru allir á einu máli um að lakkríssaltið færi æðislega vel með súkkulaðibragðinu. Mamma stakk svo upp á að setja smá lakkríssalt út í heitt súkkulaði með rjóma og ég er spennt að prófa það.

Nýju salttegundirnar eru komnar í verslanir (ég veit að þær fást t.d. í Frú Laugu og í Búrinu) og því um að gera að næla sér í þetta gourmet salt.

Saltverk

Klessukökumuffins (12 kökur)

 • 100 g smjör
 • 2 egg
 • 3 dl sykur
 • 1,5 dl hveiti
 • 1 dl kakó
 • 1 msk vanillusykur
 • 1/4 tsk lyftiduft
 • Saltverks lakkríssalt á hnífsoddi

Bræðið smjörið. Blandið öllum þurrefnum saman og hrærið smjörinu síðan saman við. Hrærið eggjunum síðast í deigið. Skiptið deiginu í um 12 muffinsform og bakið við 175° í um 12-15 mínútur.