Hversu dásamlegir eru svona dagar, þegar það er löng helgi framundan og góð veðurspá? Til að auka á gleðina hjá mér þá er mamma komin heim eftir tveggja vikna dvöl hjá systur minni í Danmörku. Það sem ég hef saknað hennar.
Við blésum til matarboðs í gærkvöldi og buðum mömmu og Eyþóri bróður mínum hingað til okkar í grískan ofnrétt og hættulega góðan eftirrétt. Uppskriftin er væntanleg á bloggið, að sjálfsögðu. Mamma kom hlaðin gjöfum, eins og henni er von og vísa, og færði mér m.a. dásamlega fallegt Le Creuset bökumót. Það verður ekki amalegt að bera það á borð með nýbökuðum kræsingum í.
Annað sem væri ekki amalegt að bera á borð eru þessar stórgóðu daimlengjur. Þær eru mjög fljótgerðar og því væri ekki úr vegi að skella í þær og taka með í nesti á 17. júní hátíðarhöldin. Daimlengurnar eru stökkar að utan og seigar að innan með stökkum daimbitum inn á milli. Hljómar vel, ekki satt?
Daimlengjur (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)
- 100 g mjúkt smjör
- 1 dl sykur
- 2 msk sýróp
- 2,5 msk kakó
- 2 dl hveiti
- ½ tsk matarsódi
- 1 tsk vanillusykur
- 2 x 28 g. daimstykki
Hrærið smjör, sykur og sýróp saman þar til blandan verður kremkennd. Bætið hveiti, kakói, matarsóda og vanillusykri saman við og hrærið áfram. Setjið hakkað daim út í og hnoðið saman í deig með höndunum.
Skiptið deiginu í tvennt og rúllið út í tvær lengur á lengd við bökunarpappír. Leggið lengurnar á bökunarpappírinn og sléttið þær úr. Bakið í ca. 15 mínútur við 175° hita. Skerið kökurnar niður þegar þær koma út úr ofninum og látið þær síðan kólna.
Takk fyrir mig, þetta var dásamlega góður réttur og brauðið gott sem þú bakaðir með.Og eftirrétturinn vardáseeeeemd.
Prófaði þessa uppskrift í dag. Þær lyftust nánast ekki neitt hjá mér…geturu ímyndað þér hvað hafi klikkað…? Hvernig sýróp ertu að nota? Voru samt bragðgóðar en rosalega þunnar 🙂
En leiðinlegt. Mínar eru reyndar líka þunnar, svolítið eins og kex en þó seigar að innan. Ég nota Lyle´s Golden Syrup.
ég lenti einmitt í því sama og Sara og þær urðu bara rosalega þunnar….alls ekki eins og á myndinni þinni 🙂
Frystir þú svona kökur – það er að segja ef það er afgangur – eða eru þetta kökur sem geymast í boxi en halda mýktinni. Tek það fram að ég hef ekki prófað þessa en líst vel á.
Við erum svo öflug hér á heimilinu að við klárum þær á tveim dögum 🙂 Hef því miður ekki reynslu á að geyma þær lengur en það ætti að vera í fínu lagi að frysta þær 🙂
Ohmyyy girnó 😀
Ég hef gert þessar þær eru fuuullkomnar. Ætla að henda í tvöfalda uppskrift fyrir barnaafmæli á laugardaginn, það eru allir sjúkir í þetta gúmmelaði!