Hversu dásamlegir eru svona dagar, þegar það er löng helgi framundan og góð veðurspá? Til að auka á gleðina hjá mér þá er mamma komin heim eftir tveggja vikna dvöl hjá systur minni í Danmörku. Það sem ég hef saknað hennar.
Við blésum til matarboðs í gærkvöldi og buðum mömmu og Eyþóri bróður mínum hingað til okkar í grískan ofnrétt og hættulega góðan eftirrétt. Uppskriftin er væntanleg á bloggið, að sjálfsögðu. Mamma kom hlaðin gjöfum, eins og henni er von og vísa, og færði mér m.a. dásamlega fallegt Le Creuset bökumót. Það verður ekki amalegt að bera það á borð með nýbökuðum kræsingum í.
Annað sem væri ekki amalegt að bera á borð eru þessar stórgóðu daimlengjur. Þær eru mjög fljótgerðar og því væri ekki úr vegi að skella í þær og taka með í nesti á 17. júní hátíðarhöldin. Daimlengurnar eru stökkar að utan og seigar að innan með stökkum daimbitum inn á milli. Hljómar vel, ekki satt?
Daimlengjur (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)
- 100 g mjúkt smjör
- 1 dl sykur
- 2 msk sýróp
- 2,5 msk kakó
- 2 dl hveiti
- ½ tsk matarsódi
- 1 tsk vanillusykur
- 2 x 28 g. daimstykki
Hrærið smjör, sykur og sýróp saman þar til blandan verður kremkennd. Bætið hveiti, kakói, matarsóda og vanillusykri saman við og hrærið áfram. Setjið hakkað daim út í og hnoðið saman í deig með höndunum.
Skiptið deiginu í tvennt og rúllið út í tvær lengur á lengd við bökunarpappír. Leggið lengurnar á bökunarpappírinn og sléttið þær úr. Bakið í ca. 15 mínútur við 175° hita. Skerið kökurnar niður þegar þær koma út úr ofninum og látið þær síðan kólna.