Dumlekökur í ofnskúffu

Dumlekökur í ofnskúffu

Hér áður fyrr, þegar börnin voru yngri, gat ágústmánuður oft verið svolítið snúin. Þá var sumarfríið oft búið hjá okkur foreldrunum en skólinn ekki byrjaður og málin voru leyst með því að skrá börnin á sumarnámskeið. Í dag er þetta liðin saga og börnin orðin svo stór að í ár voru þau í fyrsta sinn öll í sumarvinnu.  Það sem mér þykir ekki minna merkilegt er að í fyrsta sinn á ævinni kom sú staða upp að ég hef nánast verið ein heima í heila viku! Ég man varla eftir að hafa nokkurn tímann verið ein heima í sólarhring þannig að þetta eru svo sannarlega viðbrigði. Í fyrstu hugsaði ég með mér að það væri nú ágætt að þurfa ekki að hugsa um neinn nema sjálfa mig en þetta fer að verða gott. Á morgun kemur Malín heim (eftir tveggja vikna flakk um Stokkhólm og Wales) og ég get ekki beðið!

Dumlekökur í ofnskúffu

Í vikunni hef ég komið ýmsu í verk og þegar ég var að renna yfir myndirnar í tölvunni í gærkvöldi þá rakst ég á þessar af Dumle kökum sem ég bakaði fyrr í sumar. Þær voru æðislegar og áttu auðvitað að vera fyrir löngu komnar inn á bloggið. Það hentar jú sjaldan jafn vel að eiga góðgæti með kaffinu en þegar allir eru heima í sumarfríi! Þessi uppskrift er stór og gefur um 50 kökur sem hægt er að frysta og taka út eftir þörfum. Ég mæli þó með að þeim sé komið strax í frystinn því annars eiga þær eftir að klárast upp til agna áður en þú veist af. Þar tala ég af reynslu!

Dumlekökur í ofnskúffu

Dumlekökur (uppskriftin gefur um 50 kökur)

 • 300 g smjör, við stofuhita
 • 3 dl sykur
 • 2 msk vanillusykur
 • 3 tsk lyftiduft
 • 3 mak sýróp
 • 7,5 dl hveiti
 • 2 pokar Dumle karamellur (samtals 240 g), hakkaðar

Hitið ofninn í 175° og klæðið ofnskúffu með bökunarpappír. Hnoðið öll hráefnin, fyrir utan Dumle karamellurnar, saman í deig og þrýstið því í ofnskúffuna þannig að það verði jafn þykkt og fylli út í hana. Stráið hökkuðum Dumle karamellum yfir. Bakið 10-12 mínútur, þar til kanntarnir hafa fengið gylltan lit. Látið kólna og skerið síðan í bita.

Dumlekökur í ofnskúffu

Daimlengjur

Daimlengjur

Hversu dásamlegir eru svona dagar, þegar það er löng helgi framundan og góð veðurspá?  Til að auka á gleðina hjá mér þá er mamma komin heim eftir tveggja vikna dvöl hjá systur minni í Danmörku. Það sem ég hef saknað hennar.

Daimlengjur

Við blésum til matarboðs í gærkvöldi og buðum mömmu og Eyþóri bróður mínum hingað til okkar í grískan ofnrétt og hættulega góðan eftirrétt. Uppskriftin er væntanleg á bloggið, að sjálfsögðu. Mamma kom hlaðin gjöfum, eins og henni er von og vísa, og færði mér m.a. dásamlega fallegt Le Creuset bökumót. Það verður ekki amalegt að bera það á borð með nýbökuðum kræsingum í.

Annað sem væri ekki amalegt að bera á borð eru þessar stórgóðu daimlengjur. Þær eru mjög fljótgerðar og því væri ekki úr vegi að skella í þær og taka með í nesti á 17. júní hátíðarhöldin. Daimlengurnar eru stökkar að utan og seigar að innan með stökkum daimbitum inn á milli. Hljómar vel, ekki satt?

Daimlengjur

Daimlengjur (uppskrift frá Bakverk och fikastunder)

 • 100 g mjúkt smjör
 • 1 dl sykur
 • 2 msk sýróp
 • 2,5 msk kakó
 • 2 dl hveiti
 • ½ tsk matarsódi
 • 1 tsk vanillusykur
 • 2 x 28 g. daimstykki

Hrærið smjör, sykur og sýróp saman þar til blandan verður kremkennd. Bætið hveiti, kakói, matarsóda og vanillusykri saman við og hrærið áfram. Setjið hakkað daim út í og hnoðið saman í deig með höndunum.

Skiptið deiginu í tvennt og rúllið út í tvær lengur á lengd við bökunarpappír. Leggið lengurnar á bökunarpappírinn og sléttið þær úr. Bakið í ca. 15 mínútur við 175° hita. Skerið kökurnar niður þegar þær koma út úr ofninum og látið þær síðan kólna.