Ég hef sett nokkrar kjötbolluuppskriftir hingað inn í gegnum árin en við munum eflaust seint þreytast á heimagerðum kjötbollum með kartöflumús og góðri sósu (svo fæ ég mér líka alltaf rifsberjahlaup eða hindberjasultu með). Um helgina prófaði ég að setja smá bbq-sósu, karamelluseraðan lauk og nýja kryddostinn frá Örnu saman við hakkið og útkoman var æðisleg.
Það tekur styttri tíma að gera kjötbollur frá grunni en margir halda. Ég set öll hráefnin saman í hrærivélina og læt hana hræra þeim saman með K-inu. Síðan nota ég ísskeið til að móta bollurnar. Að lokum fara þær í ofninn á meðan kartöflumúsin er útbúin (eða kartöflur soðnar). Þegar ég geri kartöflumús sker ég kartöflurnar niður áður en ég sýð þær, til að stytta suðutímann. Þá tekur þetta enga stund.
Ég notaði hálfa öskju af piparkryddostinum í kjötbollurnar og hinn helmingurinn af ostinum fór í sósuna, ásamt sveppum, grænmetiskrafti og rjóma. Þetta kom æðislega vel út og ég ætlaði ekki að geta hætt að dýfa kartöflumús ofan í sósuskálina, eftir að við vorum búin að borða. Æðisleg máltíð sem vakti lukku hjá öllum.
Ofnbakaðar kjötbollur með bbq- og piparostafyllingu og piparostasósa með sveppum (uppskrift fyrir 5-6 manns)
- 850 g blanda af nauta- og svínahakki (líka hægt að nota bara nautahakk)
- 1 lítill laukur, hakkaður
- smjör
- 1 msk sykur
- 1/2 dl bbq-sósa
- 1 egg
- 75 g (hálf askja) laktósafrír kryddostur með pipar frá Örnu, skorinn í teninga
Hakkið laukinn og steikið upp úr smjöri þar til mjúkur. Stráið sykri yfir og steikið áfram í um 1 mínútu. Setjið laukinn í skál ásamt hakki, bbq-sósu, eggi og kryddosti. Blandið öllu vel saman (ég læt hrærivélina taka nokkra snúninga með K-inu). Mótið kjötbollur (ég gerði 16 stórar bollur) og raðið á bökunarpappirsklædda ofnplötu. Bakið við 180° í um 20 mínútur.
Piparostasósa með sveppum
- um 5 sveppir, sneiddir
- smjör
- pipar
- 75 g (hálf askja) laktósafrír kryddostur með pipar frá Örnu
- 2,5 dl rjómi frá Örnu
- 1 grænmetisteningur
Bræðið smjör í potti við meðalháan hita og steikið sveppina í nokkrar mínútur. Kryddið með pipar og hellið rjóma yfir. Bætið grænmetisteningi og kryddosti í pottinn og látið bráðna í rjómanum.
*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu
Ein athugasemd á “Ofnbakaðar kjötbollur með bbq- og piparostafyllingu og piparostasósa með sveppum”