Ofnbakaðar kjötbollur með bbq- og piparostafyllingu og piparostasósa með sveppum

 

Ég hef sett nokkrar kjötbolluuppskriftir hingað inn í gegnum árin en við munum eflaust seint þreytast á heimagerðum kjötbollum með kartöflumús og góðri sósu (svo fæ ég mér líka alltaf rifsberjahlaup eða hindberjasultu með). Um helgina prófaði ég að setja smá bbq-sósu, karamelluseraðan lauk og nýja kryddostinn frá Örnu saman við hakkið og útkoman var æðisleg.

Það tekur styttri tíma að gera kjötbollur frá grunni en margir halda. Ég set öll hráefnin saman í hrærivélina og læt hana hræra þeim saman með K-inu. Síðan nota ég ísskeið til að móta bollurnar. Að lokum fara þær í ofninn á meðan kartöflumúsin er útbúin (eða kartöflur soðnar). Þegar ég geri kartöflumús sker ég kartöflurnar niður áður en ég sýð þær, til að stytta suðutímann. Þá tekur þetta enga stund.

Ég notaði hálfa öskju af piparkryddostinum í kjötbollurnar og hinn helmingurinn af ostinum fór í sósuna, ásamt sveppum, grænmetiskrafti og rjóma. Þetta kom æðislega vel út og ég ætlaði ekki að geta hætt að dýfa kartöflumús ofan í sósuskálina, eftir að við vorum búin að borða. Æðisleg máltíð sem vakti lukku hjá öllum.

Ofnbakaðar kjötbollur með bbq- og piparostafyllingu og piparostasósa með sveppum (uppskrift fyrir 5-6 manns)

  • 850 g blanda af nauta- og svínahakki (líka hægt að nota bara nautahakk)
  • 1 lítill laukur, hakkaður
  • smjör
  • 1 msk sykur
  • 1/2 dl bbq-sósa
  • 1 egg
  • 75 g (hálf askja) laktósafrír kryddostur með pipar frá Örnu, skorinn í teninga

Hakkið laukinn og steikið upp úr smjöri þar til mjúkur. Stráið sykri yfir og steikið áfram í um 1 mínútu. Setjið laukinn í skál ásamt hakki, bbq-sósu, eggi og kryddosti. Blandið öllu vel saman (ég læt hrærivélina taka nokkra snúninga með K-inu). Mótið kjötbollur  (ég gerði 16 stórar bollur) og raðið á bökunarpappirsklædda ofnplötu. Bakið við 180° í um 20 mínútur.

Piparostasósa með sveppum

  • um 5 sveppir, sneiddir
  • smjör
  • pipar
  • 75 g (hálf askja) laktósafrír kryddostur með pipar frá Örnu
  • 2,5 dl rjómi frá Örnu
  • 1 grænmetisteningur

Bræðið smjör í potti við meðalháan hita og steikið sveppina í nokkrar mínútur. Kryddið með pipar og hellið rjóma yfir. Bætið grænmetisteningi og kryddosti í pottinn og látið bráðna í rjómanum.

*Færslan er unnin í samstarfi við Örnu

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Gleðilega páska. Ég vona að þið hafið átt gott páskafrí og notið með ykkar nánustu. Hjá okkur hafa síðustu dagar einkennst af góðum mat og afslöppun. Veðrið hefur gert okkur kleift að dóla heima í náttfötunum fram eftir degi án nokkurs samviskubits og við höfum notið rólegheitana.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ég byrjaði páskafríið á að gera granóla með pekanhnetum og morgunverðir undanfarna daga hafa verið létt ab-mjólk með fullt af granóla og ferskum bláberjum. Dásamlega gott!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Í gær saumaði ég gjafapoka sem ég síðan fyllti með heimagerðu granóla, páskalakkrísnum frá Johan Bulow, súkkulaði og fleira vel völdu góðgæti sem við Malín færðum síðan vinkonu minni til að njóta yfir páskana. Okkur þótti það persónulegra en að gefa hefðbundið páskaegg og skemmtilegri gjöf. Nokkurs konar heimagert páskaegg!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Á föstudaginn buðum við mömmu í mat og ég eldaði hægeldað nautakjöt og kartöflugratín sem ég bar fram með fersku salati og tveimur sósum. Nautakjötið var innra læri sem var einfaldlega nuddað með olíu, kryddað með vel af pipar og maldon salti og steikt snögglega við háan hita á öllum hliðum. Eftir það setti ég kjöthitamæli í kjötið og stakk því inn í 120° heitan ofn þar til mælirinn sýndi 70°. Það tók um tvo og hálfan tíma. Mér hefði þótt passlegt að hafa kjötið í 65° en smekkur manna er misjafn og sumir vildu ekki hafa kjötið rautt. Þegar kjötið kom úr ofninum vafði ég álpappír um það á meðan kjötið jafnaði sig.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernasie sósa og piparostasveppasósa

Með kjötinu gerði ég kartöflugratín eftir uppskrift frá Pioneer Woman. Ég kann varla við að birta hér þriðju uppskriftina úr sömu bókinni, The Pioneer Woman cooks, Food From My Frontier, en gratínið var það besta sem við höfum smakkað! Ég segi bara kaupið bókina, hún er hverrar krónu virði!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ég ákvað að gera bæði bernaise sósu og piparostasveppasósu með kjötinu. Bernaise sósan var fulkomin! Æðisleg uppskrift sem ég fann á uppskriftavef Hagkaups og kemur frá Rikku. Svo dásamlega bragðmikil og góð. Þú finnur uppskriftina hér.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Piparostasveppasósan klikkar aldrei og stendur alltaf fyrir sínu. Um hálfur laukur er skorinn fínt og um 150 g sveppir sneiddir. Laukurinn er mýktur í potti í blöndu af smjöri og ólívuolíu og sveppunum síðan bætt við. Steikt þar til mjúkt og fallegt og þá er 0,5 l. rjóma/matreiðslurjóma, heilum niðurskornum piparosti og hálfum grænmetisteningi bætt í pottinn. Sjóðið við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Kryddið með smá cayenne pipar (farið varlega því hann er sterkur en smá af honum gerir kraftaverk fyrir sósuna) og bætið seinni helmingnum af grænmetisteningnum í pottin ef þörf þykir. Súpergott!

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Með þessu bar ég fram gott salat með kokteiltómötum, rauðri papriku, rauðlauk, avokadó, bláberjum og fetaosti.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Ljúffeng máltíð sem féll vel í kramið hjá öllum og við lágum afvelta eftir.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Eftirrétturinn var súkkulaðimúsin hennar mömmu sem ég hef þegar birt á blogginu. Þú finnur uppskriftina hér. Það hefur hins vegar komið í ljós að mamma fékk uppskriftina frá systur minni sem býr í Kaupmannahöfn og má því segja að uppskriftin flakki manna á milli, eins og góðar uppskriftir eiga til að gera.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Í dag sváfum við út og hituðum okkur crossant og pains au chocolat í morgunmat áður en páskaeggin voru opnuð. Mér þykir æðislegt að eiga það í frystinum til að hita um helgar. Einfaldara verður það varla! Fæst frosið í Hagkaup og er bæði ódýrara og betra en að fara í bakaríið.

Hægeldað nauta innra læri, kartöflugratín, heimagerð bernaise sósa og piparostasveppasósa

Lambafilé, kramdar kartöflur með parmesan gremolata og sveppasósa með piparosti

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Við látum ekki tækifæri til að fagna fara til spillis hér á heimilinu og héldum þrettándan hátíðlegan með veislu sem hefði hæft kóngi og öllu hans föruneyti. Að vísu var veislan fásetin þar sem engum gestum var boðið til hennar öðrum en fjölskyldumeðlimum. Ég hefði þó ekki getað hugsað mér betri félagsskap og þykja satt að segja konungsfjölskyldur fölna í samanburði (sem ég hef þó almennt mikið dálæti á).

Á matseðlinum var lambafilé með ofnbökuðum kartöflum og sveppasósu. Þvílík veisla og ó, hvað við borðuðum yfir okkur. Lambakjötið var svo meyrt og bragðgott, enda búið að liggja í mareneringu í sólarhring. Kartöflurnar voru, eins og unglingurinn orðaði það, klikkaðar og sósuna hefði ég getað borðað eina og sér. Og matur sem ég taldi duga í tvær máltíðir kláraðist upp til agna því enginn gat hætt að borða. Restinni af kvöldinu eyddum við, gjörsamlega afvelta, í að horfa á The Holiday og vorum öll á einu máli um að þetta væri góður endir á þessari síðustu jólaveislu í bili.

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Marenering fyrir lambakjöt

  • 2 rósmarínkvistar, stöngullinn fjarlægður og nálarnar hakkaðar
  • 4 hvítlauksrif, pressuð
  • 4 tsk Dijonsinnep
  • 0,5 dl ólívuolía
  • salt
  • pipar

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Blandið öllu saman. Látið kjötið og marineringuna í plastpoka (nuddið marineringunni á kjötið) og látið standa í ískáp í sólarhring. Brúnið kjötið á pönnu og setjið síðan í ofn við 150°. Eldunartíminn fer eftir bita af lambinu. Ef kjötið á að vera ljósrautt er ágætt að miða við 67° á kjöthitamæli.

Kramdar kartöflur með parmesan og steinselju

  • 1 kg kartöflur
  • 1/2 bolli ólívuolía
  • 1 tsk sjávarsalt
  • 3 hvítlauksrif, afhýdd, kramin og söxuð
  • 1/2 bolli fersk steinselja, hökkuð (er um 1/4 bolli eftir að hún hefur verið hökkuð)
  • rifið hýði af 1 sítrónu (passið að raspa léttilega á sítrónuna þannig að það komi ekkert hvítt með)
  • 1/4 bolli rifinn parmesanostur

Hitið ofninn í 200°. Skolið kartöflurnar og sjóðið þar til þær eru tilbúnar, um 20 mínútur. Hellið af kartöflunum og látið þær þorna í sigti eða á viskastykki.

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Sáldrið ólívuolíu yfir bökunarplötu og leggið kartöfurnar í einföldu lagi á plötuna. Passið að þær liggi allar á ólívuolíunni. Þrýstið botni á skál eða glasi ofan á kartöflurnar þannig að þær kremjist. Sáldrið ólívuolíu yfir og bakið í 30 mínútur, eftir 15 mínútur í ofninum er þeim snúið við.

Lambalundir með parmesan gremolata krömdum kartöflum og sveppasósu með piparosti

Blandið saman söxuðum hvítlauk, hakkaðri steinselju, fínrifnu sítrónuhýði og parmesanosti í skál. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær settar í skál og velt upp úr blöndunni. Berið strax fram.

Sveppasósa með piparosti

  • 250 g sveppir, skornir í sneiðar
  • 1/2 l rjómi
  • 1/2-1 piparostur, skorin í smáa bita
  • grænmetisteningur
  • smá cayenne pipar
  • smjör
  • ólívuolía

Bræðið smjör og ólívuolíu saman í potti. Látið sveppina malla í smjörblöndunn í um 5 mínútur (ekki hafa of háan hita). Hellið rjóma yfir og bætið piparosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita um stund. Bætið grænmetisteningi í pottinn og kryddið með örlitlu af cayenne pipar.

Lambahryggur með hvítlauks- og rósmarínraspi og sveppasósu

Mér finnst ég ekki hafa sinnt blogginu nógu vel síðustu daga. Ég get ekki kennt annríki um því við eyddum helginni í mestu makindum og vorum mest að hafa það notalegt. Það gerðist fátt en þó má gleðjast yfir einu og öðru, eins og til dæmis að nóvemberkaktusinn lifir enn góðu lífi og hefur nú tekið að blómstra. Ég get ekki hætt að horfa á hann og þykir hann svo dæmalaus fallegur.

Ég keypti lukt og setti í einn gluggann í stofunni. Mér þykir koma svo hlýleg stemmning frá henni og kveiki á kertinu um leið og tekur að dimma. Ég leyfi tálguðu krummunum að húka í skimunni frá kertaljósinu og þykir eitthvað ævintýralegt við það.

Ég fékk akút löngun í að prjóna vettlinga og fór og keypti garn. Þegar ég kom aftur heim blöstu við mér efst í prjónakörfunni sama garn  í sömu litum og ég hafði keypt. Nú ætti ég því að vera vel sett í bili.

Við hengdum loksins upp mynd á tóma eldhúsvegginn. Veggurinn hefur verið ber frá því að við máluðum í sumar því við höfum ekki getað ákveðið hvað eigi að vera þar. Um helgina tókum við loksins ákvörðun og verkið eftir Hring fór á vegginn. Mér þótti það breyta öllu eldhúsinu, ótrúlegt en satt.

Ég bakaði sandköku með vanillukremi sem okkur þótti svo æðislega góð. Ég ætla að setja inn uppskriftina fljótlega, jafnvel bara strax á morgun.

Gunnar lét síða hárið fjúka á laugardeginum. Okkur þótti þetta svo stór ákvörðun og vorum með hnút í maganum yfir henni. Það reyndist ástæðulaust því hann er alsæll með nýja lúkkið og við hin líka.

Við enduðum helgina á dýrindis máltíð sem við hjónin lágum afvelta eftir út kvöldið. Ég hafði séð í helgarblaðinu auglýsingu um að það væri komið ferskt lambakjöt af nýslátruðu í búðina og keypti uppáhalds bitan minn, hrygg.  Ég eldaði hann á nýjan máta og var mjög ánægð með útkomuna. Ég ætla að enda færsluna á uppskriftinni, ef einhverjum langar að prófa.

Lambahryggur með hvítlauks- og rósmarínraspi

  • 1/2 bolli fersk brauðmylsna
  • 2 msk pressaður hvítlaukur
  • 2 msk hakkað ferskt rósmarín
  • 1 tsk maldon salt
  • 1/4 tsk svartur pipar
  • 2 msk ólívuolía
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk pipar
  • 2 msk ólívuolía
  • 1 msk dijon sinnep (ég notaði chili-sinnepið frá Nicolas Vahé)

Hitið ofninn í 200°.

Ristið brauðsneið og rífið niður í matvinnsluvél eða með rifjárni. Blandið saman brauðmylsnu, hvítlauk, rósmarín, salti og pipar í skál. Hellið ólívuolíu yfir og blandið vel. Setjið til hliðar.

Kryddið lambahrygginn með salti og pipar. Nuddið með ólívuolíu og burstið sinnepi yfir hrygginn. Veltið hryggnum upp úr brauðmylsnunni og setjið hann í ofnskúffu þannig að beinið snúi niður og kjötið upp.

Eldið í miðjum ofni í um 20 mínútur, lækkið þá hitann í 160° og eldið áfram í 30-45 mínútur, eftir því hversu mikið kjötið á að vera steikt. Látið hrygginn standa í 5-7 mínútur áður en hann er skorinn.

Sveppasósa

Skerið 1 box af sveppum gróflega og 1/4 – 1/2 lauk fínlega niður og steikið við miðlungshita upp úr vænni klípu af smjöri og smá ólívuolíu. Leyfið að malla í góða stund. Hellið ca 3 dl af rjóma eða matreiðslurjóma yfir og bætið  1/2 niðurskornum piparosti í pottinn. Látið sjóða við vægan hita á meðan piparosturinn bráðnar. Smakkið til með grænmetiskrafti (1/2 – 1 teningur) og kryddið með smá cayanne pipar.