Lambahryggur með hvítlauks- og rósmarínraspi og sveppasósu

Mér finnst ég ekki hafa sinnt blogginu nógu vel síðustu daga. Ég get ekki kennt annríki um því við eyddum helginni í mestu makindum og vorum mest að hafa það notalegt. Það gerðist fátt en þó má gleðjast yfir einu og öðru, eins og til dæmis að nóvemberkaktusinn lifir enn góðu lífi og hefur nú tekið að blómstra. Ég get ekki hætt að horfa á hann og þykir hann svo dæmalaus fallegur.

Ég keypti lukt og setti í einn gluggann í stofunni. Mér þykir koma svo hlýleg stemmning frá henni og kveiki á kertinu um leið og tekur að dimma. Ég leyfi tálguðu krummunum að húka í skimunni frá kertaljósinu og þykir eitthvað ævintýralegt við það.

Ég fékk akút löngun í að prjóna vettlinga og fór og keypti garn. Þegar ég kom aftur heim blöstu við mér efst í prjónakörfunni sama garn  í sömu litum og ég hafði keypt. Nú ætti ég því að vera vel sett í bili.

Við hengdum loksins upp mynd á tóma eldhúsvegginn. Veggurinn hefur verið ber frá því að við máluðum í sumar því við höfum ekki getað ákveðið hvað eigi að vera þar. Um helgina tókum við loksins ákvörðun og verkið eftir Hring fór á vegginn. Mér þótti það breyta öllu eldhúsinu, ótrúlegt en satt.

Ég bakaði sandköku með vanillukremi sem okkur þótti svo æðislega góð. Ég ætla að setja inn uppskriftina fljótlega, jafnvel bara strax á morgun.

Gunnar lét síða hárið fjúka á laugardeginum. Okkur þótti þetta svo stór ákvörðun og vorum með hnút í maganum yfir henni. Það reyndist ástæðulaust því hann er alsæll með nýja lúkkið og við hin líka.

Við enduðum helgina á dýrindis máltíð sem við hjónin lágum afvelta eftir út kvöldið. Ég hafði séð í helgarblaðinu auglýsingu um að það væri komið ferskt lambakjöt af nýslátruðu í búðina og keypti uppáhalds bitan minn, hrygg.  Ég eldaði hann á nýjan máta og var mjög ánægð með útkomuna. Ég ætla að enda færsluna á uppskriftinni, ef einhverjum langar að prófa.

Lambahryggur með hvítlauks- og rósmarínraspi

  • 1/2 bolli fersk brauðmylsna
  • 2 msk pressaður hvítlaukur
  • 2 msk hakkað ferskt rósmarín
  • 1 tsk maldon salt
  • 1/4 tsk svartur pipar
  • 2 msk ólívuolía
  • 1 tsk salt
  • 1 tsk pipar
  • 2 msk ólívuolía
  • 1 msk dijon sinnep (ég notaði chili-sinnepið frá Nicolas Vahé)

Hitið ofninn í 200°.

Ristið brauðsneið og rífið niður í matvinnsluvél eða með rifjárni. Blandið saman brauðmylsnu, hvítlauk, rósmarín, salti og pipar í skál. Hellið ólívuolíu yfir og blandið vel. Setjið til hliðar.

Kryddið lambahrygginn með salti og pipar. Nuddið með ólívuolíu og burstið sinnepi yfir hrygginn. Veltið hryggnum upp úr brauðmylsnunni og setjið hann í ofnskúffu þannig að beinið snúi niður og kjötið upp.

Eldið í miðjum ofni í um 20 mínútur, lækkið þá hitann í 160° og eldið áfram í 30-45 mínútur, eftir því hversu mikið kjötið á að vera steikt. Látið hrygginn standa í 5-7 mínútur áður en hann er skorinn.

Sveppasósa

Skerið 1 box af sveppum gróflega og 1/4 – 1/2 lauk fínlega niður og steikið við miðlungshita upp úr vænni klípu af smjöri og smá ólívuolíu. Leyfið að malla í góða stund. Hellið ca 3 dl af rjóma eða matreiðslurjóma yfir og bætið  1/2 niðurskornum piparosti í pottinn. Látið sjóða við vægan hita á meðan piparosturinn bráðnar. Smakkið til með grænmetiskrafti (1/2 – 1 teningur) og kryddið með smá cayanne pipar.

13 athugasemdir á “Lambahryggur með hvítlauks- og rósmarínraspi og sveppasósu

  1. Sæl Svava, ég eldaði kjúklingaréttinn þinn , með rjómasósunni, og hrísgrjónunum, notaði mína aðferð við hrísgrjónin. Hef gaman af að skoða uppskriftirnar þínar, og þó manni finnist maður vera búiin að elda allt sem hægt er, þá er mjög hvetjandi að fylgjast með einhverri manneskju. Ætla fljótlega að taka einhverja kökuna, er sjálf svaka hrifin af sandkökum, líka í desember. Takk.

  2. Elsku Svava mín.
    Þetta er svo yndisleg færsla hjá þér og ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina um hrygginn. Hlakka til að koma að kíkja á herlegheitin hjá ykkur og svo er svo spennandi að sjá Gunnar. Hann er svo fallegur þessi elska. Láttu mig vita ef það er eitthvað sem þig vantar úr ICA Maxi. En þú verður að gera það fljótt.
    Kossar og kveðjur til ykkar allra,
    mamma tengdó

  3. Sæl Svava
    þakka þessa dásemdarsíðu á hverjum degi. Langar að spyrja þig um pottana utanum kaktusinn hvar er hægt að fá þá núna?

    1. Sæl Hrafnhildur og takk fyrir kveðjuna.
      Ég keypti pottana nýlega í Pipar og salt á Klapparstíg. Prófaðu að hringja eða kíkja við og athuga hvort þeir fáist ennþá.
      Bestu kveðjur,
      Svava.

    1. Takk, takk. Vettlingarnir eru prjónaðir með prjóni sem kallast rósastrengsprjón. Ég hef aldrei prjónað það áður en er mjög ánægð með útkomuna. Uppskriftin er í bók sem heitir Prjónaperlur.

  4. Gunnar er svo æðislega flottur með stutta hárið, þó hann hafi svo sannarlega verið flottur fyrir. Ég gat ekki hætt að segja honum hvað hann væri fínn og sætur þegar ég sá hann fyrst eftir klippinguna. Þessir strákar eru svo mikil yndi! 🙂

  5. Gerdi tetta ofan a laeri fra adda og aslaugu um helgina. Efndi loford og gaf brynju/ dora og co tetta lika.
    Eg brenndi braudmylsnuna ona audvitad og reykskynjarinn for nokkrum sinnum i gang ,ibudin var a timabili blareykjarmökkvud og emma hundur skithraedd, var ekki m kjöthitamaeli og laerid of hratt fyrst.- tetta var samt Gott.
    Tarf ad gera tetta a hrygg!!
    Ps::: allt annad ad sja Gunnar
    Halla

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s