Við látum ekki tækifæri til að fagna fara til spillis hér á heimilinu og héldum þrettándan hátíðlegan með veislu sem hefði hæft kóngi og öllu hans föruneyti. Að vísu var veislan fásetin þar sem engum gestum var boðið til hennar öðrum en fjölskyldumeðlimum. Ég hefði þó ekki getað hugsað mér betri félagsskap og þykja satt að segja konungsfjölskyldur fölna í samanburði (sem ég hef þó almennt mikið dálæti á).
Á matseðlinum var lambafilé með ofnbökuðum kartöflum og sveppasósu. Þvílík veisla og ó, hvað við borðuðum yfir okkur. Lambakjötið var svo meyrt og bragðgott, enda búið að liggja í mareneringu í sólarhring. Kartöflurnar voru, eins og unglingurinn orðaði það, klikkaðar og sósuna hefði ég getað borðað eina og sér. Og matur sem ég taldi duga í tvær máltíðir kláraðist upp til agna því enginn gat hætt að borða. Restinni af kvöldinu eyddum við, gjörsamlega afvelta, í að horfa á The Holiday og vorum öll á einu máli um að þetta væri góður endir á þessari síðustu jólaveislu í bili.
Marenering fyrir lambakjöt
- 2 rósmarínkvistar, stöngullinn fjarlægður og nálarnar hakkaðar
- 4 hvítlauksrif, pressuð
- 4 tsk Dijonsinnep
- 0,5 dl ólívuolía
- salt
- pipar
Blandið öllu saman. Látið kjötið og marineringuna í plastpoka (nuddið marineringunni á kjötið) og látið standa í ískáp í sólarhring. Brúnið kjötið á pönnu og setjið síðan í ofn við 150°. Eldunartíminn fer eftir bita af lambinu. Ef kjötið á að vera ljósrautt er ágætt að miða við 67° á kjöthitamæli.
Kramdar kartöflur með parmesan og steinselju
- 1 kg kartöflur
- 1/2 bolli ólívuolía
- 1 tsk sjávarsalt
- 3 hvítlauksrif, afhýdd, kramin og söxuð
- 1/2 bolli fersk steinselja, hökkuð (er um 1/4 bolli eftir að hún hefur verið hökkuð)
- rifið hýði af 1 sítrónu (passið að raspa léttilega á sítrónuna þannig að það komi ekkert hvítt með)
- 1/4 bolli rifinn parmesanostur
Hitið ofninn í 200°. Skolið kartöflurnar og sjóðið þar til þær eru tilbúnar, um 20 mínútur. Hellið af kartöflunum og látið þær þorna í sigti eða á viskastykki.
Sáldrið ólívuolíu yfir bökunarplötu og leggið kartöfurnar í einföldu lagi á plötuna. Passið að þær liggi allar á ólívuolíunni. Þrýstið botni á skál eða glasi ofan á kartöflurnar þannig að þær kremjist. Sáldrið ólívuolíu yfir og bakið í 30 mínútur, eftir 15 mínútur í ofninum er þeim snúið við.
Blandið saman söxuðum hvítlauk, hakkaðri steinselju, fínrifnu sítrónuhýði og parmesanosti í skál. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar eru þær settar í skál og velt upp úr blöndunni. Berið strax fram.
Sveppasósa með piparosti
- 250 g sveppir, skornir í sneiðar
- 1/2 l rjómi
- 1/2-1 piparostur, skorin í smáa bita
- grænmetisteningur
- smá cayenne pipar
- smjör
- ólívuolía
Bræðið smjör og ólívuolíu saman í potti. Látið sveppina malla í smjörblöndunn í um 5 mínútur (ekki hafa of háan hita). Hellið rjóma yfir og bætið piparosti saman við. Látið sjóða saman við vægan hita um stund. Bætið grænmetisteningi í pottinn og kryddið með örlitlu af cayenne pipar.
Ég segi bara takk takk aftur. Þetta eru HIMNESKAR uppskriftir og bloggið svo inspirerandi.Maður er spenntur að sjá hvern póst. k.kv.Margrét
Hæ, hvað hafði þú lambakjötið lengi inni í ofninum?
Bkv. Berglind