Gleðilega páska. Ég vona að þið hafið átt gott páskafrí og notið með ykkar nánustu. Hjá okkur hafa síðustu dagar einkennst af góðum mat og afslöppun. Veðrið hefur gert okkur kleift að dóla heima í náttfötunum fram eftir degi án nokkurs samviskubits og við höfum notið rólegheitana.
Ég byrjaði páskafríið á að gera granóla með pekanhnetum og morgunverðir undanfarna daga hafa verið létt ab-mjólk með fullt af granóla og ferskum bláberjum. Dásamlega gott!
Í gær saumaði ég gjafapoka sem ég síðan fyllti með heimagerðu granóla, páskalakkrísnum frá Johan Bulow, súkkulaði og fleira vel völdu góðgæti sem við Malín færðum síðan vinkonu minni til að njóta yfir páskana. Okkur þótti það persónulegra en að gefa hefðbundið páskaegg og skemmtilegri gjöf. Nokkurs konar heimagert páskaegg!
Á föstudaginn buðum við mömmu í mat og ég eldaði hægeldað nautakjöt og kartöflugratín sem ég bar fram með fersku salati og tveimur sósum. Nautakjötið var innra læri sem var einfaldlega nuddað með olíu, kryddað með vel af pipar og maldon salti og steikt snögglega við háan hita á öllum hliðum. Eftir það setti ég kjöthitamæli í kjötið og stakk því inn í 120° heitan ofn þar til mælirinn sýndi 70°. Það tók um tvo og hálfan tíma. Mér hefði þótt passlegt að hafa kjötið í 65° en smekkur manna er misjafn og sumir vildu ekki hafa kjötið rautt. Þegar kjötið kom úr ofninum vafði ég álpappír um það á meðan kjötið jafnaði sig.
Með kjötinu gerði ég kartöflugratín eftir uppskrift frá Pioneer Woman. Ég kann varla við að birta hér þriðju uppskriftina úr sömu bókinni, The Pioneer Woman cooks, Food From My Frontier, en gratínið var það besta sem við höfum smakkað! Ég segi bara kaupið bókina, hún er hverrar krónu virði!
Ég ákvað að gera bæði bernaise sósu og piparostasveppasósu með kjötinu. Bernaise sósan var fulkomin! Æðisleg uppskrift sem ég fann á uppskriftavef Hagkaups og kemur frá Rikku. Svo dásamlega bragðmikil og góð. Þú finnur uppskriftina hér.
Piparostasveppasósan klikkar aldrei og stendur alltaf fyrir sínu. Um hálfur laukur er skorinn fínt og um 150 g sveppir sneiddir. Laukurinn er mýktur í potti í blöndu af smjöri og ólívuolíu og sveppunum síðan bætt við. Steikt þar til mjúkt og fallegt og þá er 0,5 l. rjóma/matreiðslurjóma, heilum niðurskornum piparosti og hálfum grænmetisteningi bætt í pottinn. Sjóðið við vægan hita þar til osturinn hefur bráðnað. Kryddið með smá cayenne pipar (farið varlega því hann er sterkur en smá af honum gerir kraftaverk fyrir sósuna) og bætið seinni helmingnum af grænmetisteningnum í pottin ef þörf þykir. Súpergott!
Með þessu bar ég fram gott salat með kokteiltómötum, rauðri papriku, rauðlauk, avokadó, bláberjum og fetaosti.
Ljúffeng máltíð sem féll vel í kramið hjá öllum og við lágum afvelta eftir.
Eftirrétturinn var súkkulaðimúsin hennar mömmu sem ég hef þegar birt á blogginu. Þú finnur uppskriftina hér. Það hefur hins vegar komið í ljós að mamma fékk uppskriftina frá systur minni sem býr í Kaupmannahöfn og má því segja að uppskriftin flakki manna á milli, eins og góðar uppskriftir eiga til að gera.
Í dag sváfum við út og hituðum okkur crossant og pains au chocolat í morgunmat áður en páskaeggin voru opnuð. Mér þykir æðislegt að eiga það í frystinum til að hita um helgar. Einfaldara verður það varla! Fæst frosið í Hagkaup og er bæði ódýrara og betra en að fara í bakaríið.