Um síðustu helgi gerðu strákarnir kókoskúlur sem voru svo góðar að ég gat ekki gengið framhjá ísskápnum án þess að stelast í þær. Þeir buðu síðan upp á kókoskúlurnar yfir sjónvarpinu um kvöldið við mikla lukku viðstaddra.
Í gær átti tengdamamma afmæli og þá ákváðu þeir að gera annan skammt og færa henni í afmælisgjöf. Kókoskúlurnar voru ekki lengi að hverfa ofan í gestina, enda alveg æðislega góðar.
Hér kemur uppskriftin ef ykkur langar til að gera vel við ykkur í páskafríinu. Það er góð afþreying fyrir krakkana að gera kókoskúlurnar og dásamlegt að eiga þær í ísskápnum til að njóta.
Kókoskúlur
- 100 g smjör
- 1 dl sykur
- 1 tsk vanillusykur
- 2 msk kakó
- 3 dl haframjöl
- 2 msk kælt kaffi
- kókosmjöl til að velta kúlunum upp úr
Hrærið smjör og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Bætið vanillusykri, kakó, haframjöli og kaffi saman við og vinnið vel saman. Rúllið litlar kúlur úr deginu og veltið þeim upp úr kókosmjöli. Geymið kókoskúlurnar í ísskáp.
Við mæðgur búinar að skella í þessar og eru þetta með þeim betri kókoskúlum sem við höfum gert 🙂 auðveldar og bragðgóðar 🙂 Takk fyrir okkur
Strákarnir mínir gerðu þessar yndislegu kókoskúlur áðan og vorum að gæða okkur á þeim 🙂 rosalega góðar
Ég var að gera þessar núna, fékk alveg svakalega þörf í eitthvað sætt og fljótlegt. Nema að ég setti bara 2 dl haframjöl og svo 1 dl rice krispies og það koma rosa vel út 🙂