Krakkarnir mínir eru öll sólgin í kókoskúlur og þegar ég fer til Svíþjóðar reyni ég alltaf að kaupa sænskar kókoskúlur þar til að taka með heim. Okkur þykja þær bestar. Þegar Malín kom heim frá Stokkhólmi um daginn kom hún heim með bæði venjulegar kókoskúlur og kókoskúlur með dökku súkkulaði, sjávarsalti og karamellukurli. Þær voru dásamlegar. Í Ikeaferðum kippi ég oft kókoskúlum með mér, krökkunum til mikillar gleði. Það ætti því kannski ekki að koma á óvart að hér heima eru oft gerðar kókoskúlur og þá er þessi uppskrift vinsælust en þessi þykir okkur sú allra besta. Það er bara aðeins meira maus að gera þær og því verða hinar oftar fyrir valinu.
Um daginn bakaði ég síðan kókoskúluköku og var með í eftirrétt. Það þarf eflaust ekki að taka það fram að hún sló rækilega í gegn hér heima. Þetta er svo dásamlega einföld kaka sem er hrærð saman í potti með sleif. Það fylgir því bakstrinum lítið uppvask og ekkert vesen. Ég vil hafa kaffið sterkt í henni en það er auðvitað smekksatriði. Síðan þykir mér gott að hafa hana aðeins blauta í sér. Með léttþeyttum rjóma verður kakan gjörsamlega ómótstæðileg!
Kókoskúlukaka
- 125 g smjör
- smá salt
- 3 dl sykur
- 1/2 dl kakó
- 1 dl kókosmjöl
- 1 dl haframjöl
- 1 msk kaffi (gjarnan sterkt kaffi)
- 1 dl hveiti
- 2 egg
Skraut
- kókosmjöl
Hitið ofninn í 180°.
Bræðið smjörið í rúmgóðum potti. Bætið salti, sykri og kakói í pottinn og hrærið vel. Bætið öllum öðrum hráefnum í pottinn og hrærið saman í deig. Setjið deigið í smurt kökuform og stráið kókos yfir. Bakið neðst í ofninum í 20-24 mínútur. Látið kólna í forminu og berið síðan fram með léttþeyttum rjóma.