Í gær dundaði ég mér við að gera þessar sérlega góðu kókoskúlur. Það sem gerir þær svo dásamlega góðar er að það er bæði brætt súkkulaði í deiginu og utan um kókoskúlurnar. Súkkulaði gerir allt aðeins betra, þannig er það bara! Það er upplagt að gera tvöfaldan skammt og geyma í frysti því það er bara svo gott að geta nælt sér í eina kókoskúlu til að eiga með kaffibollanum. Annars er best að geyma þær í ísskáp en þá er hætta á að þær klárist einn, tveir og tíu!
Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur (uppskriftin gefur um 25 kúlur)
- 4 dl haframjöl (ég var með tröllahafra en hvaða haframjöl sem er dugar)
- 100 g smjör
- 1,5 dl flórsykur
- 2 msk kakó
- 2 msk sterkt kaffi (kalt)
- 1/2 msk vanillusykur
- 50 g rjómasúkkulaði
Utan um kókoskúlurnar:
- 200 g súkkulaði (ég var með rjómasúkkulaði og suðusúkkulaði til helminga)
- kókosmjöl
Setjið haframjöl í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til haframjölið er fínmalað. Bætið smjöri, flórsykri, kakó, kaffi og vanillusykri saman við og vinnið saman í sléttan massa. Bræðið súkkulaðið og látið kólna. Bætið því síðan vel saman við massann.
Mótið kúlur, leggið þær á smjörpappír og látið standa í frysti í um 30 mínútur.
Bræðið súkkulaðið og setjið kókosmjöl í skál. Dýfið kókoskúlunum, einni í einu, í brædda súkkulaðið og veltið þeim síðan upp úr kókosmjölinu (mér þótti best að nota teskeið til að setja kúluna í súkkulaðið og var síðan með gaffal í kókosmjölinu, byrjaði á að moka kókosmjöl yfir kúluna og velti henni síðan um í kókosmjölinu). Geymið kókoskúlurnar í ísskáp eða frysti.
Er ekki hægt að nota kókosolíu í staðin fyrir smjör?
Hrikalega girnilegt! Verð að prófa!