M&M kökur

Það er fátt jafn notalegt og að dunda sér í eldhúsinu um helgar og baka eitthvað gott til að eiga með helgarkaffinu. Um daginn gerði ég M&M kökur sem voru svo æðislega góðar að ég má til með að setja þær hingað inn ef einhver er í baksturshugleiðingum í dag.

M&M kökur (uppskriftin gefur 40-45 kökur)

  • 200 g smjör
  • 200 g púðursykur
  • 200 g sykur
  • 2 egg
  • 2,5 tsk vanilludropar
  • 365 g hveiti
  • 1 tsk maldonsalt
  • 1 tsk matarsódi
  • 1 tsk lyftiduft
  • 300 g M&M (í brúna pokanum)

Hitið ofninn í 175°.

Hrærið saman smjör, púðursykur og sykur. Hrærið eggjum og vanilludropum saman við.Bætið hveiti, salti, matarsóda og lyftidufti í blönduna og hrærið varlega saman þar til allt hefur blandast vel. Hrærið helmingnum af M&M út í deigið.

Kælið deigið í ísskáp í klukkutíma.

Rúllið deiginu í kúlur á stærð við golfbolta og rúllið þeim upp úr M&M. Raðið 6 kökum í einu á ofnplötu með bökunarpappír (þær renna út í ofninum) og bakið í um 15 mínútur. Látið kökurnar kólna á grind.

Jólabakstur

Ég hef aldrei verið jafn sein í jólabakstrinum og í ár. Malín hefur hins vegar staðið sig vel og er búin að baka marsípanfyllta saffransnúða, tvo umganga af sörum og nokkra umganga af smákökum sem hafa klárast jafnóðum. Það hefur því ekki væst um okkur hér heima.

Mér datt í hug að taka saman uppáhalds jólabaksturinn ef einhver er í baksturshugleiðingum og langar að prófa nýjar uppskriftir.  Það er gaman að halda í hefðir og baka sömu sortir á hverju ári en á sama tíma er jú líka skemmtilegt að prófa eitthvað nýtt. Sumar tegundir eru heilagar hjá okkur og jólin koma ekki fyrr en þær eru tilbúnar, á meðan aðrar koma og fara.

Saffransnúðana hef ég bakað fyrir jólin lengur en ég get munað og það má alls ekki sleppa þeim. Malín er búin að fylla frystinn af snúðunum og við erum því í góðum málum. Við elskum allt við þá og lyktin sem kemur í húsið þegar þeir eru bakaðir er ólýsanleg.

Sörurnar eru ómissandi á aðventunni og ég fæ mér helst eina á hverju kvöldi með kaffibolla. Svo gott!

Það er gaman að prófa sig áfram með mismunandi fyllingar í lakkrístoppum en þessir voru okkar uppáhalds í fyrra. Malín hefur bakað nokkra umganga af þeim upp á síðkastið en ég held að þeir hafi alltaf klárast samdægurs.

Rocky road er eitt uppáhalds jólanammið okkar og má ekki vanta yfir hátíðirnar. Ég hef séð sykurpúðunum skipt út fyrir Lindubuff og langar að prófa það í ár. Það er örugglega geggjað.

Dumlefudge gerði ég fyrir ein jólin og þarf að gera aftur. Krakkarnir elskuðu þetta.

Banana- og súkkulaðifudge sló líka í gegn hjá krökkunum.

Ég bakaði súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri fyrir síðustu jól og langar að baka þær aftur núna. Þær eru dásamlegar.

Pestójólatré er einfalt að gera, fallegt á borði og æðislega gott.

Stökk piparmyntustykki með bismark er einfalt og gott.

Súkkulaði- og bananakökulengjur

Mér finnst svo æðislega notalegt að eiga heimabakað með helgarkaffinu. Í gær tók Malín sig til og bakaði sörur sem ég nýt góðs af í dag með kaffibollanum. Ég keypti líka jólaköku á föstudaginn sem við höfum verið að fá okkur af yfir helgina. Um síðustu helgi bakaði ég hins vegar súkkulaði- og bananakökulengjur sem voru svo góðar að ég borðaði þær beint úr ofninum og ætlaði ekki að geta hætt. Þessar verðið þið að prófa!

Súkkulaði- og bananakökulengjur

  • 150 g smjör við stofuhita
  • 3,75 dl hveiti
  • 1,5 dl sykur
  • 3 msk kakó
  • 3 msk sýróp
  • 1,5 tsk vanillusykur
  • 1,5 tsk lyftiduft
  • 15 stk. Dumle bananakaramellur

Hitið ofninn í 175° og klæðið bökunarplötu með bökunarpappír.

Hnoðið öllum hráefnunum (fyrir utan karamellurnar) saman í deig. Skiptið deiginu í þrennt og rúllið út í lengjur. Leggið lengjurnar á bökunarpappírinn.

Skerið dumlekaramellurnar í tvennt (á lengdina) og þrýstið þeim í lengjurnar (sjá mynd). Bakið í miðjum ofni í 8-10 mínútur. Takið úr ofninum og látið kólna aðeins áður en lengjurnar eru skornar niður.

 

Kókoskúlur í ofnskúffu

Getum við verið sammála um að heimagerðar kókoskúlur eru óstjórnlega góðar? Sérstaklega þegar þær eru súkkulaðihúðaðar eins og þessar. Þegar þær eru kaldar úr ísskápnum þá er ekki hægt að standast þær með kaffibollanum. Það fer svo brjálæðislega vel saman.

Eins og mér þykja kókoskúlur góðar þá nenni ég sjaldan að gera þær. Jakob tekur sig stundum til og gerir skammt en er þá oftast fljótur að klára þær sjálfur, ef hann býður ekki vinum sínum upp á þær. Ég datt því heldur betur í lukkupottinn þegar ég sá þessa snjöllu aðferð á Instagram, að setja deigið einfaldlega í ofnskúffu, setja súkkulaði og kókos yfir og skera síðan í passlega stóra bita. Tekur enga stund. Stórkostlegasta uppfinning ever!

Kókoskúlur í ofnskúffu

  • 400 g smjör við stofuhita
  • 2 dl flórsykur
  • 1 dl kakó
  • 1 dl Nesquik (eða annað drykkjarkakaó)
  • 2 msk vanillusykur
  • 1 dl kaffi
  • 100 g rjómasúkkulaði
  • um 18 dl haframjöl

Yfir kókoskúlurnar

  • 200 g súkkulaði (ég var með suðusúkkulaði)
  • kókosmjöl

Byrjið á að þeyta smjör og flórsykur saman þar til blandan verður létt. Bætið kakói, Nesquik, vanillusykri, kaffi og bræddu rjómasúkkulaði í skálina og hrærið öllu vel saman. Hrærið haframjöli smátt og smátt saman við þar til réttri áferð er náð. Blandan á að vera blaut í sér en þéttur massi. Þrýstið blöndunni í ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír og látið standa í ísskáp í smá stund.

Bræðið súkkulaðið til að setja yfir kókoskúlurnar og dreifið því yfir kókoskúludeigið. Stráið kókosmjöli yfir og látið síðan standa í ísskáp í um 30 mínútur.

Skerið kókoskúlurnar í bita. Geymið í loftþéttum umbúðum í ísskáp eða frysti.

Súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri

Ég ætlaði að setja þessa uppskrift hingað inn í gær en kvöldið tók óvænta stefnu þegar við ákváðum að setja jólatréið upp. Krakkarnir eru í prófum og stóru „börnin“ að vinna þau kvöld sem þau eru ekki að læra og því erfitt að ná öllum saman. Í gærkvöldi voru hins vegar allir heima og enginn að læra undir próf þannig að við gripum gæsina og vorum með hálfgerð litlu jól hér heima. Undir jólaplötu Michael Bublé var jólatréið skreytt á milli þess sem við gæddum okkur á nýbökuðum eplaskífum, flatkökum með hangikjöti, súkkulaðismákökum og heitu súkkulaði með rjóma. Dásamlegt í alla staði.

Helginni var eytt í jólaundirbúning. Það voru keypt jólaföt, við horfðum á jólamynd, keyptum gjafir frá mömmu til strákanna og ég bakaði æðislegar súkkulaðismákökur sem krakkarnir hafa notið þess að gæða sér á í próflestrinum. Ég stóð mig að því að hugsa að vonandi væru þær ekki búnar, þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag, því þær eru æðislegar með kaffibollanum. Heppnin var með mér og nú sit hér hér með kaffibolla og smáköku við tölvuna. Elska svona notalegheit!

Súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri 

  • 2 1/2 bolli hveiti
  • 1 tsk matarsódi
  • 1/2 tsk sjávarsalt
  • 3/4 bolli kakó
  • 1 bolli ósaltað smjör, við stofuhita
  • 1 bolli sykur
  • 1 bolli púðursykur
  • 2 stór egg, við stofuhita
  • 1 tsk vanilludropar
  • 1 bolli suðusúkkulaðidropar eða grófhakkað suðusúkkulaði

Súkkulaðihjúpur

  • 200 g suðusúkkulaði
  • 1 dl rjómi
  • 1 bolli mulinn bismark brjóstsykur eða jólastafabrjóstsykur

Hitið ofninn í 175° og setjið bökunarpappír á bökunarplötu.

Hrærið saman hveiti, matarsóda, sjávarsalt og kakó. Setjið til hliðar.

Hrærið saman smjöri, sykri og púðursykri í hrærivél (eða með handþeytara). Hrærið eggjunum, einu í einu, saman við. Hrærið vanilludropum í deigið. Bætið þurrefnunum varlega smátt og smátt út í og hrærið saman í deig. Hrærið að lokum súkkulaðinu í deigið.

Mótið litlar kúlur úr deiginu (notið um msk af deigi í hverja kúlu) og raðið á bökunarplötuna. Þrýstið örlítið á kúlurnar og bakið í um 10 mínútur, eða þar til kökurnar hafa fengið stökkan hjúp en eru mjúkar að innan. Passið að ofbaka þær ekki. Takið úr ofninum og látið standa á plötunni í smá stund áður en þær eru færðar yfir á grind og látnar kólna alveg.

Á meðan kökurnar kólna er súkkulaðihjúpurinn útbúinn. Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið. Látið blönduna standa í 30-45 sekúndur og hrærið síðan í henni þar til blandan er slétt. Dífið helmingnum af kökunum í súkkulaðið, setjið á grind (eða bökunarpappír) og stráið muldum brjóstsykri yfir. Látið kökurnar standa í 1-2 klst eða þar til súkkulaðið er orðið hart. Það má flýta fyrir með því að setja kökurnar í ísskáp.

 

 

Smákökubakstur

Gleðilega aðra aðventu kæru lesendur. Aðventan þetta árið er stutt þar sem fjórði sunnudagurinn er aðfangadagur og mér finnst hún vera að hlaupa frá mér. Gunnar var að keppa í gær og eftir leikinn fórum við í Smáralindina og keyptum jólaföt á hann. Í dag ætlum við Jakob í leiðangur og síðan ætla ég að baka smákökur til að eiga. Hér hafa lakkrístoppar verið bakaðir á færibandi síðustu vikur (Malín á heiðurinn af þeirri framleiðslu) og alltaf klárast þeir samdægurs. Ef fleiri eru í baksturhugleiðingum þá koma hér fimm góðar tillögur að marenstoppum!

Piparlakkrístoppar 

Marengstoppar með piparfylltum lakkrísreimum og súkkulaði

Lakkrístoppar með karamellukurli

Marengstoppar með frönsku núggati

Karamellutoppar

 

 

Piparlakkrístoppar

Hér heima eru jólalögin byrjuð að hljóma, nánast allar jólagjafirnar hafa verið keyptar og nokkrum hefur þegar verið pakkað inn (ég hef ALDREI verið svona snemma í þessu!) og fyrsta smákökusortin var bökuð í gær. Ég gat hreinlega ekki setið á mér að prófa að gera lakkrístoppa með nýja piparlakkrískurlinu. Í fyrra taldið ég lakkrístoppana verða fullkomna með tilkomu piplarlakkrísins (uppskriftin er hér) en nú veit ég ekki, þessir gefa hinum í það minnsta ekkert eftir. Þeir kláruðust á stundinni og það verða klárlega bakaðar nokkrar umferðir af þeim fram að jólum. Þetta verða allir að prófa!

Piparlakkrístoppar

  • 3 eggjahvítur
  • 200 g púðursykur
  • 150 g piparlakkrískurl (1 poki)
  • 150 g rjómasúkkulaðidropa (ég var með síríus sælkerabaksturs rjómasúkkulaðidropa)
Stífþeytið eggjahvítur og púðursykur. Þeytið vel og lengi til að fá marensinn mjúkan og seigan. Blandið lakkrískurli og súkkulaði varlega saman við.
Mótið toppa með tveim teskeiðum og bakið við 140° í 20 mínútur.

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur

Í gær dundaði ég mér við að gera þessar sérlega góðu kókoskúlur. Það sem gerir þær svo dásamlega góðar er að það er bæði brætt súkkulaði í deiginu og utan um kókoskúlurnar. Súkkulaði gerir allt aðeins betra, þannig er það bara! Það er upplagt að gera tvöfaldan skammt og geyma í frysti því það er bara svo gott að geta nælt sér í eina kókoskúlu til að eiga með kaffibollanum. Annars er best að geyma þær í ísskáp en þá er hætta á að þær klárist einn, tveir og tíu!

Súkkulaðihúðaðar kókoskúlur (uppskriftin gefur um 25 kúlur)

  • 4 dl haframjöl (ég var með tröllahafra en hvaða haframjöl sem er dugar)
  • 100 g smjör
  • 1,5 dl flórsykur
  • 2 msk kakó
  • 2 msk sterkt kaffi (kalt)
  • 1/2 msk vanillusykur
  • 50 g rjómasúkkulaði

Utan um kókoskúlurnar:

  • 200 g súkkulaði (ég var með rjómasúkkulaði og suðusúkkulaði til helminga)
  • kókosmjöl

Setjið haframjöl í matvinnsluvél og látið vélina ganga þar til haframjölið er fínmalað. Bætið smjöri, flórsykri, kakó, kaffi og vanillusykri saman við og vinnið saman í sléttan massa. Bræðið súkkulaðið og látið kólna. Bætið því síðan vel saman við massann.

Mótið kúlur, leggið þær á smjörpappír og látið standa í frysti í um 30 mínútur.

Bræðið súkkulaðið og setjið kókosmjöl í skál. Dýfið kókoskúlunum, einni í einu, í brædda súkkulaðið og veltið þeim síðan upp úr kókosmjölinu (mér þótti best að nota teskeið til að setja kúluna í súkkulaðið og var síðan með gaffal í kókosmjölinu, byrjaði á að moka kókosmjöl yfir kúluna og velti henni síðan um í kókosmjölinu). Geymið kókoskúlurnar í ísskáp eða frysti.

 

Súkkulaðibitalengjur

Súkkulaðibitalengjur

Gleðilegan Valentínusardag! Ég veit að það eru skiptar skoðanir varðandi Valentínusardaginn en sjálf tek ég öllum dögum til að gera sér dagamun fagnandi. Í kvöld ætlum við út að borða en ég hef ekki hugmynd um hvert við erum að fara. Hlakka til!

Súkkulaðibitalengjur

Ég ætlaði að setja þessar súkkulaðibitalengjur inn um helgina en það gafst ekki færi á því þar sem helgin fór í að mála loftið hér heima og stúss í kringum það. Núna er þó allt komið á sinn stað, loftið nýmálað og allt orðið fínt aftur. Ég get því loksins sett inn þessa uppskrift af einföldustu súkkulaðibitakökum í heimi. Ég elska kökulengjur því það er svo fljótlegt að baka þær og dásamlegt að eiga þær í frystinum. Síðan fara þær svakalega vel með kaffibollanum. Þessar urðu seigar og svo góðar!

Súkkulaðibitalengjur

Súkkulaðibitalengjur

  • 100 g smjör við stofuhita
  • 2 msk sýróp
  • 2,5 dl hveiti
  • 1 dl sykur
  • 1 tsk lyftiduft
  • 2 tsk vanillusykur
  • 100 g gott súkkulaði (ég var með frá Marabou)

Hitið ofn í 200°. Hrærið saman smjör, sykur og sýróp. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim í smjörblönduna. Hrærið að lokum hökkuðu súkkulaði í deigið.

Skiptið deiginu í tvennt og mótið lengur úr þeim. Setjið lengurnar á bökunarplötu með bökunarpappír, þrýstið aðeins á þær og bakið síðan í 12-14 mínútur við 200° (ekki blástur). Takið úr ofninum og skáskerið á meðan kökurnar eru heitar.

Sultukökur

Sultukökur

Í dag er vika í aðfangadag. Mér þykir aðventan hafa liðið svo brjálæðislega hratt og man varla eftir jafn skemmtilegum desembermánuði. Tveir saumaklúbbar, vinkonuhittingar, matarboð, jólaboð, jólahlaðborð, Baggalútstónleikar og kampavínshittingur er þegar afstaðið og stuðið heldur áfram því í næstu viku bíður annað jólahlaðborð, skötuveisla og síðast en ekki síst – ég verð fertug!

Sultukökur

Ég hef ekki verið nógu dugleg í smákökubakstrinum þessa aðventuna og það litla sem ég hef bakað hefur klárast samstundis. Hér eru því engin smákökubox á borðum en ég á sörur í frystinum og konfekt í skápnum þannig að það væsir ekki um okkur.  Mig grunar að þetta verði síðasta smákökuuppskriftin sem ég set inn fyrir þessi jól en hún er ekki af verri endanum. Klassískar sænskar sultukökur sem eru svo góðar að það hálfa væri nóg. Uppskriftin er ekkert brjálæðislega stór og því snjallt að tvöfalda hana.

Sultukökur

Það er upplagt að setja nokkrar kökur í poka og færa ástvinum fyrir jólin. Gjöf sem gleður!

Sultukökur – uppskrift úr tímaritinu Hembakat

  • 2,5 dl hveiti (150 g)
  • 120 g smjör við stofuhita
  • 3/4 dl flórsykur (45 g)
  • 1 tsk vanillusykur
  • St. Dalfour hindberjasulta

Hitið ofninn í 200°. Hrærið smjör, flórsykur og vanillusykur saman þar til blandan er létt. Bætið hveitinu saman við og vinnið vel saman. Setjið deigið í sprautupoka og sprautið kökurnar á bökunarpappírsklædda bökunarplötu. Gerið smá holu í miðja kökuna og setjið hindberjasultu þar í. Bakið í 12-15 mínútur.

SultukökurSultukökurSultukökurSultukökur