Gleðilegan Valentínusardag! Ég veit að það eru skiptar skoðanir varðandi Valentínusardaginn en sjálf tek ég öllum dögum til að gera sér dagamun fagnandi. Í kvöld ætlum við út að borða en ég hef ekki hugmynd um hvert við erum að fara. Hlakka til!
Ég ætlaði að setja þessar súkkulaðibitalengjur inn um helgina en það gafst ekki færi á því þar sem helgin fór í að mála loftið hér heima og stúss í kringum það. Núna er þó allt komið á sinn stað, loftið nýmálað og allt orðið fínt aftur. Ég get því loksins sett inn þessa uppskrift af einföldustu súkkulaðibitakökum í heimi. Ég elska kökulengjur því það er svo fljótlegt að baka þær og dásamlegt að eiga þær í frystinum. Síðan fara þær svakalega vel með kaffibollanum. Þessar urðu seigar og svo góðar!
Súkkulaðibitalengjur
- 100 g smjör við stofuhita
- 2 msk sýróp
- 2,5 dl hveiti
- 1 dl sykur
- 1 tsk lyftiduft
- 2 tsk vanillusykur
- 100 g gott súkkulaði (ég var með frá Marabou)
Hitið ofn í 200°. Hrærið saman smjör, sykur og sýróp. Blandið þurrefnunum saman og hrærið þeim í smjörblönduna. Hrærið að lokum hökkuðu súkkulaði í deigið.
Skiptið deiginu í tvennt og mótið lengur úr þeim. Setjið lengurnar á bökunarplötu með bökunarpappír, þrýstið aðeins á þær og bakið síðan í 12-14 mínútur við 200° (ekki blástur). Takið úr ofninum og skáskerið á meðan kökurnar eru heitar.
Það er ekki hægt að taka blásturinn af minum ofni,get ég þá ekki bakað þessa uppskrift?
Jú! Lækkaðu bara hitann aðeins 🙂
>
Hvað koma ca. margar lengjur útúr þessu? 🙂
Um 25-30 lengjur 🙂
>
Var að prófa þessa uppskrift rétt í þessu og þetta eru virkilega góðar kökur 🙂
Gaman að heyra 🙂
>