Valentínusarblómin hafa staðið falleg alla vikuna og glatt mig á hverjum degi. Nýtt ljós sem sést glitta í yfir borðstofuborðinu gleður mig líka, enda hefur það staðið lengi á óskalistanum. Þau ljósakaup áttu eftir að vinda verulega upp á sig, sem varð til þess að það tók nánast vikuna að koma því upp. Eftir að við keyptum ljósið fannst okkur nefnilega ekki hægt að setja það upp án þess að renna málningu yfir loftið. Síðan ákváðum við að setja dimmer á ljósið. Það þurfti því að bíða þar til verslanir opnuðu daginn eftir til að kaupa það sem þurfti fyrir dimmerinn. Þá datt okkur í hug að skipta líka vinnuljósinu út í eldhúsinu, þannig að það var aftur farið af stað. Þetta reyndist því fimm daga verkefni í það heila. En núna er ljósið komið upp og það er bara svo fallegt að það nær engri átt. Ég skal mynda það fljótlega og sýna ykkur betur. Mig grunar nefnilega að margir sem kíkja hingað inn í dag séu að bíða eftir vikumatseðlinum!
Vikumatseðill
Mánudagur: Gratineraður fiskur með púrrulauk og blómkáli
Þriðjudagur: Grænmetisréttur með kínóa og sætum kartöflum og Gló-brauðið sívinsæla
Miðvikudagur: Kjúklingasúpa með tómötum, karrý og epli
Fimmtudagur: Hakk og spaghetti
Föstudagur: Kjúklinganaggar
Með helgarkaffinu: Mjúk súkkulaðikaka með vanillukremi og kókos