Á flugvellinum í London keypti ég mér tímarit til að hafa í vélinni á leiðinni heim. Ég var svo heppin að það var til eintak af Jamie Oliver ársblaðinu, þ.e. blaðinu sem hann gefur út með bestu uppskriftum ársins úr Jamie Oliver blöðunum. Ég las hverja einustu uppskrift í blaðinu og eftir flugferðina gat ég ekki beðið eftir að komast heim í eldhúsið. Þar sem það er mánudagur í dag fannst mér tilvalið að byrja á að elda fiskiuppskrift úr blaðinu og valdi gratíneraðan fisk með púrrulauk og blómkáli.
Þessi réttur vakti mikla lukku hjá krökkunum. Malín bað mig um að elda hann fljótlega aftur og eftir matinn þakkaði Gunnar fyrir þennan frábæra mat. Við Öggi vorum sammála þeim og fannst hann báðum mjög góður. Ég breytti uppskriftinni lítillega og gef hana hér með mínum breytingum.
Gratíneraður fiskur með púrrulauk og blómkáli
- 900 gr ýsa eða þorskur
- ólívuolía
- 50 gr smjör
- 100 gr hveiti
- 600 ml mjólk
- 350 gr nýrifinn cheddar
- 50 gr nýrifinn parmesan
- 200 gr blómkál
- 1-2 púrrulaukar
- brauðraspur
Hitið ofninn í 180°. Kryddið fiskinn með salti og pipar og steikið á pönnu við háan hita í 1-2 mínútur (fiskurinn á ekki að verða fulleldaður). Takið fiskinn af hitanum og leggið til hliðar.
Skerið púrrulaukinn í grófar sneiðar og blómkálið í bita. Sjóðið saman í ca 5-7 mínútur og hellið síðan vatninu af.
Bræðið smjörið á pönnu eða í stórum potti. Bætið hveitinu saman við og hrærið vel saman. Leyfið þessu að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Bætið mjólkinni rólega saman við og hrærið stöðugt þangað til blandan er orðin að þykkri, sléttri sósu. Kryddið vel (ég notaði salt, pipar og Krydd lífsins frá Pottagöldrum) og hrærið helmingnum af báðum ostunum saman við. Bætið grænmetinu í og hrærið vel. Hrærið að lokum fiskinum út í. Setjið blönduna í eldfast mót, dreifið restinni af ostunum yfir og að lokum handfylli af brauðraspi. Bakið í ca 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og kominn með fallegan lit.
Krakkarnir mæla með að rétturinn sé borinn fram með tómatsósu.
Ég eldaði þennan í gærkvöldi og öllum í fjölskyldunni fannst hann mjög góður, takk fyrir allar þessar góðu uppskriftir 🙂
Ég gerði þennan rétt og hann er d.á.s.a.m.l.e.g.u.r. eins og allar uppskriftirnar þínar 🙂 Takk fyrir mig og mína.
Þegar þú segir að maður eigi að hræra fiskinum útí, á hann þá að brotna niður í smærri bita??
Hrærðu fiskinum bara varlega út í og þá brotnar hann ekki eins niður. Annars kemur það ekki að sök þó hann brotni í smærri bita, bara að hann verði ekki að mulningi 🙂