Einfalt fiskgratín með sveppum

Fiskgratín með sveppum

Þó að mig langi allra mest að setja inn uppskriftina að sörunum sem ég baka alltaf fyrir aðventuna eða góðu kókostoppunum sem ég bakaði um helgina þá sé ég hag minn vænstan í því að gefa frekar uppskrift að þessum fiskirétti. Ástæðan er sú að ég er farin að hræðast að lesendur haldi að við borðum fátt annað en smákökur og sætindi þessa dagana og kippist orðið við í hvert skipti sem síminn hringir af hræðslu við að Lýðheilsustöð sé að hringja til að lesa yfir mér.

Svo ég eldaði fisk. Einfalt og mjög gott fiskgratín sem öllum líkaði vel. Mér brá þó heldur í brún þegar ég sá myndirnar sem ég tók því þær voru svo hræðilega ljótar. Sveppirnir líta út eins og nautahakksklessur og nánast ómöglegt að átta sig á að þarna sé fiskgratín á ferð. Þið takið vonandi viljann fyrir verkið og trúið mér þegar ég segi að rétturinn var svo mikið betri en myndirnar gefa til kynna.  Okkur þótti hann stórgóður og ég ætla að elda hann fljótlega aftur.

Fiskgratín með sveppum

Einfalt fiskgratín með sveppum

 • 700 g þorskur eða ýsa
 • 1 tsk + ½ tsk salt
 • 250 g sveppir
 • 2 msk bragðdauf olía
 • 2 hvítlauksrif
 • 2 dl rjómi
 • ½ – 1 msk maizena
 • ½ – 1 grænmetisteningur
 • 1 dl rifinn ostur

Hitið ofninn í 200°. Saltið fiskinn með 1 tsk af salti og leggið hann i eldfast mót. Skerið sveppina í sneiðar og steikið í olíu í um 5 mínútur. Skalið og fínhakkið hvítlaukinn og steikið hann með sveppunum síðustu 2 mínúturnar. Kryddið með ½ tsk af salti og hellið rjóma saman við. Látið sjóða í 2 mínútur og bætið þá maizenasterkju í sósuna. Setjið grænmetiskraft út í og látið sjóða um stund. Hellið sveppasósunni yfir fiskinn, stráið rifnum osti yfir og bakið í miðjum ofni í um 20 mínútur.

Gratíneraður fiskur með púrrulauk og blómkáli

Á flugvellinum í London keypti ég mér tímarit til að hafa í vélinni á leiðinni heim. Ég var svo heppin að það var til eintak af Jamie Oliver ársblaðinu, þ.e. blaðinu sem hann gefur út með bestu uppskriftum ársins úr Jamie Oliver blöðunum. Ég las hverja einustu uppskrift í blaðinu og eftir flugferðina gat ég ekki beðið eftir að komast heim í eldhúsið. Þar sem það er mánudagur í dag fannst mér tilvalið að byrja á að elda fiskiuppskrift úr blaðinu og valdi gratíneraðan fisk með púrrulauk og blómkáli.

Þessi réttur vakti mikla lukku hjá krökkunum. Malín bað mig um að elda hann fljótlega aftur og eftir matinn þakkaði Gunnar fyrir þennan frábæra mat. Við Öggi vorum sammála þeim og fannst hann báðum mjög góður. Ég breytti uppskriftinni lítillega og gef hana hér með mínum breytingum.

Gratíneraður fiskur með púrrulauk og blómkáli

 • 900 gr ýsa eða þorskur
 • ólívuolía
 • 50 gr smjör
 • 100 gr hveiti
 • 600 ml mjólk
 • 350 gr nýrifinn cheddar
 • 50 gr nýrifinn parmesan
 • 200 gr blómkál
 • 1-2 púrrulaukar
 • brauðraspur

Hitið ofninn í 180°. Kryddið fiskinn með salti og pipar og steikið á pönnu við háan hita í 1-2 mínútur (fiskurinn á ekki að verða fulleldaður). Takið fiskinn af hitanum og leggið til hliðar.

Skerið púrrulaukinn í grófar sneiðar og blómkálið í bita. Sjóðið saman í ca 5-7 mínútur og hellið síðan vatninu af.

Bræðið smjörið á pönnu eða í stórum potti. Bætið hveitinu saman við og hrærið vel saman. Leyfið þessu að sjóða við vægan hita í nokkrar mínútur og hrærið í á meðan. Bætið mjólkinni rólega saman við og hrærið stöðugt þangað til blandan er orðin að þykkri, sléttri sósu. Kryddið vel (ég notaði salt, pipar og Krydd lífsins frá Pottagöldrum) og hrærið helmingnum af báðum ostunum saman við. Bætið grænmetinu í og hrærið vel. Hrærið að lokum fiskinum út í. Setjið blönduna í eldfast mót, dreifið restinni af ostunum yfir og að lokum handfylli af brauðraspi. Bakið í ca 20 mínútur eða þar til osturinn er bráðinn og kominn með fallegan lit.

Krakkarnir mæla með að rétturinn sé borinn fram með tómatsósu.