Ég ætlaði að setja þessa uppskrift hingað inn í gær en kvöldið tók óvænta stefnu þegar við ákváðum að setja jólatréið upp. Krakkarnir eru í prófum og stóru „börnin“ að vinna þau kvöld sem þau eru ekki að læra og því erfitt að ná öllum saman. Í gærkvöldi voru hins vegar allir heima og enginn að læra undir próf þannig að við gripum gæsina og vorum með hálfgerð litlu jól hér heima. Undir jólaplötu Michael Bublé var jólatréið skreytt á milli þess sem við gæddum okkur á nýbökuðum eplaskífum, flatkökum með hangikjöti, súkkulaðismákökum og heitu súkkulaði með rjóma. Dásamlegt í alla staði.
Helginni var eytt í jólaundirbúning. Það voru keypt jólaföt, við horfðum á jólamynd, keyptum gjafir frá mömmu til strákanna og ég bakaði æðislegar súkkulaðismákökur sem krakkarnir hafa notið þess að gæða sér á í próflestrinum. Ég stóð mig að því að hugsa að vonandi væru þær ekki búnar, þegar ég var á leiðinni heim úr vinnunni í dag, því þær eru æðislegar með kaffibollanum. Heppnin var með mér og nú sit hér hér með kaffibolla og smáköku við tölvuna. Elska svona notalegheit!
Súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri
- 2 1/2 bolli hveiti
- 1 tsk matarsódi
- 1/2 tsk sjávarsalt
- 3/4 bolli kakó
- 1 bolli ósaltað smjör, við stofuhita
- 1 bolli sykur
- 1 bolli púðursykur
- 2 stór egg, við stofuhita
- 1 tsk vanilludropar
- 1 bolli suðusúkkulaðidropar eða grófhakkað suðusúkkulaði
Súkkulaðihjúpur
- 200 g suðusúkkulaði
- 1 dl rjómi
- 1 bolli mulinn bismark brjóstsykur eða jólastafabrjóstsykur
Hitið ofninn í 175° og setjið bökunarpappír á bökunarplötu.
Hrærið saman hveiti, matarsóda, sjávarsalt og kakó. Setjið til hliðar.
Hrærið saman smjöri, sykri og púðursykri í hrærivél (eða með handþeytara). Hrærið eggjunum, einu í einu, saman við. Hrærið vanilludropum í deigið. Bætið þurrefnunum varlega smátt og smátt út í og hrærið saman í deig. Hrærið að lokum súkkulaðinu í deigið.
Mótið litlar kúlur úr deiginu (notið um msk af deigi í hverja kúlu) og raðið á bökunarplötuna. Þrýstið örlítið á kúlurnar og bakið í um 10 mínútur, eða þar til kökurnar hafa fengið stökkan hjúp en eru mjúkar að innan. Passið að ofbaka þær ekki. Takið úr ofninum og látið standa á plötunni í smá stund áður en þær eru færðar yfir á grind og látnar kólna alveg.
Á meðan kökurnar kólna er súkkulaðihjúpurinn útbúinn. Hakkið súkkulaðið og setjið í skál. Hitið rjómann að suðu og hellið yfir súkkulaðið. Látið blönduna standa í 30-45 sekúndur og hrærið síðan í henni þar til blandan er slétt. Dífið helmingnum af kökunum í súkkulaðið, setjið á grind (eða bökunarpappír) og stráið muldum brjóstsykri yfir. Látið kökurnar standa í 1-2 klst eða þar til súkkulaðið er orðið hart. Það má flýta fyrir með því að setja kökurnar í ísskáp.
Ein athugasemd á “Súkkulaðikökur með bismark brjóstsykri”