Mér þykir tíminn líða allt of hratt á aðventunni og vildi óska að ég gæti hægt á honum til að geta notið betur. Ég vil halda fast í jólahefðirnar okkar eins og að horfa á jólamyndir saman um helgar, að fá okkur kvöldkaffi með smákökum og að spila saman. Mig hefur lengi dreymt um að eplaskífur verði hluti af jólahefðinni og nokkuð sem við hlökkum til að fá þegar styttist í aðventuna. Ástæðan fyrir þessum draumórum mínum er einfaldlega sú að mér þykir eitthvað svo jólalegt við eplaskífur með hvítum flórsykri og rauðri sultu og síðan þykja mér þær líka svo æðislega góðar. Ég hef þó aldrei átt eplaskífupönnu og því hefur lítið farið fyrir eplaskífuveislum hjá mér.
Það var svo í fyrra að tengdamamma mín gaf mér eplaskífupönnu fyrir jólin og um síðustu helgi lét ég þennan langþráða draum minn rætast. Við kveiktum á fyrsta aðventukertinu, hlustuðum á jólatónlist, hituðum okkur súkkulaði og borðuðum nýsteiktar eplaskífur. Stundin stóð svo fyllilega undir væntingum og ég vildi ekki að hún tæki enda. Eplaskífur með þeyttum rjóma og hindberjasultu eru dásamlegar og bornar fram með heitu súkkulaði með rjóma og súkkulaðispæni, ég hef ekki orð til að lýsa því hversu vel það fer saman.
Eplaskífur voru upphaflega steiktar með eplabitum í, sem útskýrir nafnið, en smám saman hafa þeir horfið úr. Ég ætla að prófa að setja þá í þegar ég er orðin klárari í að steikja eplaskífurnar en þangað til munum við gera okkur þær að góðu án eplana. Ég er ekki einu sinni viss um að mér muni þykja þær betri með eplunum. Það á eftir að koma í ljós.
Á morgun endurtökum við leikinn og við hlökkum öll til. Ég er viss um að eplaskífurnar eiga eftir að verða hluti af aðventunni hjá okkur. Enn ein jólahefðin sem verður mér kær.
Eplaskífur með sítrónu og vanillu (um 20-25 stykki)
- 3 egg
- 3 msk sykur
- 2,5 dl mjólk
- 2 dl rjómi
- 1 tsk salt
- 4 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- rifið hýði af 1 sítrónu (passið að rífa bara yfirborðið og ekki niður í hvíta hlutan)
- 2 tsk vanillusykur
Skiljið eggjahvíturnar frá gulunum og setjið í sitthvora skálina. Stífþeytið eggjahvíturnar. Hrærið eggjagulum, sykri, mjólk, rjóma og salti saman og bætið síðan hveiti og lyftidufti saman við. Hrærið þar til deigið er kekkjalaust. Bætið stífþeyttu eggjahvítunum varlega saman við ásamt vanillusykri og sítrónuhýði.
Bakið eplaskífurnar í smjör- og olíublöndu (notið til helminga og passið að vera með bragðdaufa olíu, ekki ólívuolíu) í eplaskífupönnu. Fyllið nánast eplaskífuholurnar á pönnunni með deigi. Lyftiduftið gerir það að verkum að deigið næstum rennur út fyrir en það gerir ekkert til, þegar þú snýrð þeim þá verða skífurnar fallega hringlaga.
Samkvæmt danskri hefð á að bera eplaskifurnar fram með flórsykri og jarðaberjasultu en ég vil borða mínar með flórsykri, hindberjasultu og þeyttum rjóma.
Algjört augnakonfekt þessi vefsíða þín.
…rak augun í hyasintulauka í moomin bolla á mynd hjá þér og ætla að fá þá hugmynd lánaða ;o)
Eplaskífurmeð eplum eru rosalegar góðar.
Þetta líst mér vel á.
Við hjónin og synir okkar bjuggum í eitt ár í Danmörku fyrir nokkrum árum og eignuðumst þar eplaskífupönnu sem keypt var á loppemarked. Ég bakaði eplaskífur með eplabitum og verð eiginlega að segja að mér finnst þær betri án eplanna. Eflaust hafa eplabitarnir upphaflega verið settir í til að drýgja deigið; bændur hafa átt eplatré heima við hús en mjög var aftur á móti dýrt og næstum munaðarvara sums staðar.
Mæli með hindberjasultu og flórsykri með heitum eplaskífum… og glöggi.
Þetta er rosalega girnilegt! Hvar er hægt að kaupa svona pönnu?
Pannan var keypt í Pipar og Salt á Klapparstígnum. Hún er æðisleg, er frá merkinu Skeppshult 🙂
ó, ekki vill svo til að þú vitir hvar pannan þín er keypt? er að leita mér að einni, einmitt í sama tilgangi og þú – að búa til dásamlega jólahefð með familiunni :0) bkv. Eva
Pannan var keypt í Pipar og Salt á Klapparstígnum 🙂 Þetta er æðisleg hefð sem ég mæli svo sannarlega með.
Bestu kveðjur,
Svava.
Ég hef gert eplaskífur í sunnudagskaffi annars lagið í 7 àr en ég set stundum epli sem er velt upp úr kanel en annars set ég alltaf nutellaslettu í eplaskífurnar og fjölskyldan mín elskar það.