Ég eyddi gærkvöldinu í matarboði með vinkonum mínum og kom ekki heim fyrr en um miðnætti. Þá var gjafaleiknum í samvinnu við Heru Björk ný lokið og ég fór að velta því fyrir mér hvernig best væri að draga vinningshafana. Það fór svo að ég prentaði út öll kommentin og sat svo langt fram á nótt við að klippa nöfnin í sundur og brjóta miðana saman. Ég áttaði mig engan vegin á því hversu mikil vinna biði mín, enda rúmlega 400 þátttakendur, og eftir á að hyggja hefði verið skynsamlegra að nýta tæknina og láta tölvuforrit velja vinningshafa. Að lokum voru þó nöfn allra þátttakenda komin í pottinn og þrjú nöfn dregin upp úr.
Ég óska Kristínu, Helgu og Ingu Lind innilega til hamingju með vinningana og vona að þeir eigi eftir að auka á notalegheit desembermánaðar. Þið hafið fengið tölvupóst frá mér með upplýsingum um hvernig þið nálgist vinningana. Sjálf hlakka ég mikið til tónleikanna á sunnudaginn. Kannski að við sjáumst þar?
Úr jólatónlist í jólabakstur, nú styttist í aðra aðventu og smákökurnar lokka. Ég gaf uppskrift af súkkulaðimarenstoppum með frönsku núggati hér um daginn en geri enn betur í dag með þessum Daimtoppum. Þeir eru algjört sælgæti og ég átti engan möguleika á að halda þeim frá fjölskyldunni. Topparnir staldra því ekki lengi við en það er í fínu lagi því það er einfalt að útbúa þá. Ég mæli með að þið prófið!
Daimtoppar
- 3 eggjahvítur
- 200 g ljós púðursykur
- 400 g Daimkúlur (4 pokar)
Stífþeytið eggjahvíturnar og hrærið púðursykrinum smátt og smátt saman við. Hrærið Daimkúlum varlega saman við.
Setjið litla toppa með teskeiðum á bökunarpappírsklædda plötu og bakið við 150°í ca 15 mínútur.