Þið verðið að afsaka seinaganginn á vikumatseðlinum. Helgin hefur verið þéttbókuð og gærdagurinn flaug frá mér. Við sváfum út, versluðum vikuinnkaupin, gerðum eplaskífur og heitt súkkulaði með aðventukaffinu og fórum svo á yndislega jólatónleika Heru Bjarkar. Góður dagur sem leið allt of hratt.
Það má þó segja að betra er seint en aldrei og hér kemur vikumatseðillinn. Mér þykir erfitt að velja uppáhald á honum enda mikið af uppáhalds réttum þar að finna. Ef þið gerið pretzelvöfðu pylsurnar (súpergóðar!) þá mæli ég með ofnbökuðu kartöflubátunum með, ég gæti lifað á þeim! Kjúklingabakan er æði og tacogratínið ekki síðra. Rocky road má vera í eftirrétt alla vikuna mín vegna, það er ómótstæðilegt.
Mánudagur: Gratineraður fiskur á hrísgrjónabeði er ljúffeng byrjun á vikunni.
Þriðjudagur: Tacogratín með pastabotni er máltíð sem hittir í mark. Berið réttinn fram með góðu salati og nachos.
Miðvikudagur: Blómkálssúpa með beikoni er einföld og góð máltíð sem hentar vel í miðri viku.
Fimmtudagur: Kjúklingabaka með sweet chili er ævintýralega góð baka sem allir eiga eftir að falla fyrir. Ég bara veit það.
Föstudagur: Ég veit að pretzelvafðar pylsur líta út fyrir að vera mikil fyrirhöfn og vesen en þær eru svo sannarlega þess virði. Berið þær fram með ofnbakuðum kartöfluhelmingum og þið eigið eftir að slá í gegn. Af hverju ekki að borða matinn fyrir framan jólamynd í sjónvarpinu? Hrúgið pylsunum á stórann disk, setjið kartöflurnar í stóra skál, tómatsósu og sinnep í litlar skálar og borðið sem hálfgerðan plokkmat. Súpernæs!
Með helgarkaffinu: Mér þykir tilvalið að gera rocky road og bjóða gestum og gangandi upp á um helgina. Einfalt jólanammi sem allir elska.
Langaði að hrósa þér fyrir virkilega skemmtilega og góða síðu 🙂 Þið eruð greinilega mjög hrifinn af osti hehe 😉 En langaði að spurja þig hvar fékkstu þetta fallega hvíta bakka sem hreindýrin og nappula stjakarnir eru í???? 🙂
Sæl Sara Lind.
Ég fékk bakkann í Kaupmannahöfn. Hann er frá danska merkinu HAY og dettur helst í hug að hann gæti kannski fengist í Epal.
Bestu kveðjur,
Svava.