Í gær voru tvær vikur til jóla upp á dag. Hér áður fyrr fannst mér tíminn standa í stað á þessum tímapunkti en í dag þýtur hann frá mér. Ég reyni að teygja lopann og lengja daginn með því að vaka fram eftir á kvöldin. Það er ekki að ég sé svona upptekin, síður en svo. Mér þykir bara svo notalegt hér heima með jólaljós í gluggum, logandi kerti á borðum, smákökur í skálum og myrkrið úti og vil njóta þess til hins ýtrasta. Þegar krakkarnir eru sofnaðir kemur andinn yfir mig og ég sæki aðeins meira jólaskraut, færi hluti á milli staða og ákveð svo að hita mér saffransnúð áður en ég leggst í rúmið. Vesenast fram eftir og vakna svo dauðþreytt. Mér þykja kvöldin einfaldlega of notaleg þessa dagana til að sofa þau frá mér.
Kjúklingaréttir standa alltaf fyrir sínu og um daginn gerði ég einfaldan pestókjúkling sem sló rækilega í gegn hjá fjölskyldunni. Uppskriftina fékk ég hjá æskuvinkonu minni sem taldi sig hafa fengið hana úr gömlu uppskriftarhefti. Rétturinn er dásamlega góður og það tekur enga stund að reiða hann fram. Krakkarnir voru yfir sig hrifin og það var barist um síðasta bitann.
Einfaldur pestókjúklingur
- kjúklingalundir
- salt og pipar
- pestó
- furuhnetur
Hitið ofn í 200°. Setjið kjúklingalundir í eldfast mót, piprið og saltið og setjið pestó yfir. Setjið í ofninn í 15 mínútur, stráið þá furuhnetum yfir og setjið svo aftur í ofninn í 5 mínútur til viðbótar eða þar til kjúklingalundirnar eru fulleldaðar.
Berið fram með salati, hrísgrjónum, sætri kartöflustöppu eða hverju sem er. Þetta getur ekki klikkað.