Pulled chicken

Pulled Chicken

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag var Malín búin að baka bollakökur með súkkulaðikremi. Þær voru svo mjúkar og góðar að ég hefði getað borðað þær allar. Ég elska að koma heim þegar krakkarnir hafa bakað og finnst það vera dásamlegur hversdagslúxus að fá kökubita eftir vinnudaginn.

Pulled ChickenPulled ChickenPulled Chicken

„Pulled pork“ eða rifið svínakjöt hefur verið vinsæll réttur undanfarin ár (þú getur séð uppskriftina sem ég nota hér). Kjötið setjum við ýmist í hamborgarabrauð, tortillavefjur eða tacoskeljar ásamt grænmeti og oftast smá sýrðum rjóma. Það má svo bera herlegheitin fram með góðu salati, kartöfubátum (þessir eru í algjöru uppáhaldi), nachos eða hverju sem er.

Ég prófaði um daginn að skipta svínakjötinu út fyrir kjúkling og var mjög ánægð með útkomuna. Eldunartíminn var mun styttri og eldamennskan gerist varla einfaldari. Við settum kjúklinginn í tortillakökur ásamt káli, rauðri papriku, tómötum, avokadó, kóriander og sýrðum rjóma. Brjálæðislega gott!

Pulled ChickenPulled Chicken

Rifinn kjúklingur

 • 900 g kjúklingabringur
 • 2½ – 3 dl barbeque sósa
 • 1 laukur, skorin í þunna báta
 • paprikuduft
 • olía

Hitið ofninn í 130-140°. Steikið kjúklingabringurnar á pönnu þar til þær eru komnar með smá steikingarhúð. Kryddið með paprikudufti og leggið yfir í eldfast mót eða ofnpott. Sáldrið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið laukbátana og barbequesósuna yfir. Setjið lok á ofpottinn eða álpappír yfir eldfasta mótið (þó ekki nauðsynlegt). Eldið í miðjum ofni í um 2½ klst, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Kjúklingurinn á að detta hæglega í sundur þegar gaffli er stungið í hann. Tætið kjúklinginn í sundur (t.d. með tveimur göfflum) og berið fram.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili

Í gærmorgun hélt Öggi til vinnu eftir jólafrí en ég nýt góðs af því að vera í fríi til 2. janúar. Mér þykir það æðislegur lúxus að geta verið hér heima á náttfötunum fram eftir degi með krökkunum í jólafríinu þeirra. Í gær var heldur engin venjulegur dagur því strákarnir áttu afmæli. Við héldum afmælisveislu um síðustu helgi og í gær fórum við út að borða og síðan biðu afmælisgjafir og gleði hér heima eftir það.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Við erum búin að eiga yndisleg jól. Höfum borðað mikið, sofið mikið, lesið jólabækurnar, farið út á sleða og í gönguferðir á milli þess sem við klæddum okkur upp og fórum í jólaboð. Núna tek ég árs fríi frá jólamat fagnandi, enda búin að borða yfir mig og vel það af jólamat undanfarna daga. Í kvöld verður kjúklingur hér á borðum og uppskriftin er ekki af verri endanum. Hún kemur úr bók sem ég pantaði mér á netinu fyrir ári síðan og hefur verið mikið notuð síðan þá. Ég mæli svo sannarlega með réttinum enda bæði einfaldur og æðislega góður.

Kjúklingakúskús með sweet chili

Kjúklingakúskús með sweet chili (uppsrift úr Arla kökets bästa)

 • 500 g kjúklingafilé
 • 4 dl vatn
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 4 dl kúskús
 • 1-2 púrrulaukar
 • 2 hvítlauksrif
 • smjör
 • 2 dl appelsínudjús
 • 3/4 dl sweet chilisósa
 • 1 teningur kjúklingakraftur
 • 1 tsk japönsk sojasósa
 • 2 dl jógúrt án bragðefna
 • salt

Hitið vatn og kjúklingakraft að suðu og hrærið kúskús saman við. Takið potinn af hitanum, setjið lokið á og látið standa í 6 mínútur.

Skerið kjúklinginn í bita og púrrulaukinn í strimla. Afhýðið og hakkið hvítlaukinn. Steikið kjúklinginn í smjöri á pönnu. Takið kjúklinginn af pönnunni þegar hann er steiktur. Setjið hvítlauk og púrrulauk á pönnuna og steikið þar til fer að mýkjast.  Bætið appelsínudjús, sweet chilisósu, kjúklingateningi, sojasósu og kjúklingi á pönnuna. Látið sjóða í nokkrar mínútur. Takið pönnuna af hitanum og hrærið helmingnum af jógúrtinni saman við. Smakkið til með salti.

Hrærið kúskús upp með gaffli. Berið fram með kjúklingnum og því sem eftir var af jógúrtinni.

Einfaldur pestókjúklingur

Einfaldur pestókjúklingur

Í gær voru tvær vikur til jóla upp á dag. Hér áður fyrr fannst mér tíminn standa í stað á þessum tímapunkti en í dag þýtur hann frá mér. Ég reyni að teygja lopann og lengja daginn með því að vaka fram eftir á kvöldin. Það er ekki að ég sé svona upptekin, síður en svo. Mér þykir bara svo notalegt hér heima með jólaljós í gluggum, logandi kerti á borðum, smákökur í skálum og myrkrið úti og vil njóta þess til hins ýtrasta. Þegar krakkarnir eru sofnaðir kemur andinn yfir mig og ég sæki aðeins meira jólaskraut, færi hluti á milli staða og ákveð svo að hita mér saffransnúð áður en ég leggst í rúmið. Vesenast fram eftir og vakna svo dauðþreytt. Mér þykja kvöldin einfaldlega of notaleg þessa dagana til að sofa þau frá mér.

Einfaldur pestókjúklingur

Kjúklingaréttir standa alltaf fyrir sínu og um daginn gerði ég einfaldan pestókjúkling sem sló rækilega í gegn hjá fjölskyldunni. Uppskriftina fékk ég hjá æskuvinkonu minni sem taldi sig hafa fengið hana úr gömlu uppskriftarhefti. Rétturinn er dásamlega góður og það tekur enga stund að reiða hann fram. Krakkarnir voru yfir sig hrifin og það var barist um síðasta bitann.

Einfaldur pestókjúklingur

Einfaldur pestókjúklingur

 • kjúklingalundir
 • salt og pipar
 • pestó
 • furuhnetur

Hitið ofn í 200°. Setjið kjúklingalundir í eldfast mót, piprið og saltið og setjið pestó yfir. Setjið í ofninn í 15 mínútur, stráið þá furuhnetum yfir og setjið svo aftur í ofninn í 5 mínútur til viðbótar eða þar til kjúklingalundirnar eru fulleldaðar.

Berið fram með salati, hrísgrjónum, sætri kartöflustöppu eða hverju sem er. Þetta getur ekki klikkað.

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

Ég ætlaði að gefa ykkur þessa uppskrift í gær en tíminn hljóp frá mér. Núna er þó kvöldið laust og helgin framundan, nokkuð sem mig hefur hlakkað til í allan dag. Í kvöld bíða pizzur, nammi, sjónvarpssófinn og prjónarnir. Ég get varla hugsað mér betra föstudagskvöld.

Ef þið eruð að velta fyrir ykkur kvöldmatnum fyrir annað kvöld þá er ég með góða tillögu, nefnilega frábæran kasjúhnetukjúkling. Mér þykir hann slá flestu við og passa vel um helgar, sérstaklega á föstudagskvöldum þegar allir eru þreyttir eftir vikuna en langar að hafa góðan kvöldmat. Þá er þessi réttur himnasending því hann er æðislega góður og  það tekur enga stund að matreiða hann.

Kasjúhnetukjúklingur

Kasjúhnetukjúklingur

 • 700 g kjúklingabringur, skornar í bita
 • 1 msk kornsterkja (maizena mjöl)
 • ¾ tsk gróft salt
 • ¼ tsk mulinn pipar
 • 2 msk grænmetisolía
 • 6 hvítlauksrif, fínhökkuð
 • 8 vorlaukar, hvítu og grænu hlutarnir aðskildir og hvorir um sig skornir í litla bita
 • 2 msk hrísgrjónaedik (rice vinegar)
 • 3 msk hoisin sósa
 • 125 g kasjúhnetur, ristaðar

Ristið kasjúhneturnar með því að dreifa úr þeim á bökunarplötu og setja þær í 175° heitan ofn í 10 mínútur. Fylgist með þeim undir lokin svo þær brenni ekki.

Veltið kjúklingabitunum upp úr kornsterkju þar til hún hjúpar þá. Kryddið með salti og pipar.

Hitið 1 msk af olíu á pönnu yfir miðlungsháum hita. Setjið helminginn af kjúklingabitunum á pönnuna og steikið þar til þeir hafa fengið fallega húð. Það tekur um 3 mínútur. Færið kjúklingabitana yfir á disk.

Setjið 1 msk af olíu og það sem eftir var að kjúklingnum á pönnuna ásamt hvítlauknum og hvíta hlutanum af vorlauknum. Steikið þar til kjúklingabitarnir hafa fengið fallega húð og hrærið oft í pönnunni á meðan. Bætið fyrri skammtinum af kjúklingabitunum á pönnuna og bætið hrísgrjónaediki saman við. Látið sjóða saman í um 30 sekúndur eða þar til edikið hefur gufað upp.

Bætið hoisin sósu og ¼ bolla af vatni á pönnunna. Hrærið í pönnunni og látið sjóða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Það ætti að taka um 1 mínútu. Takið pönnuna af hitanum og hrærið græna hlutanum af vorlaukunum og ristuðu kasjúhnetunum saman við. Berið strax fram með soðnum hrísgrjónum.

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Ég hef verið hrifin af tælenskum mat frá því að ég smakkaði hann fyrst og þessi einfalda uppskrift vakti því strax áhuga minn. Mér finnst vera eitthvað notalegt við svona mat. Mat sem er bragðgóður og hollur en tekur ekki nokkra stund að reiða fram. Slíkar uppskriftir geta reynst mikill fjársjóður þegar lítill tími gefst í eldhúsinu og allir eru svangir.

Það er kannski ekkert sérlega framandi við þessa uppskrift en hún er svo einföld og bragðgóð að mér finnst ekki annað hægt en að birta hana hér. Hún er algjör draumur eftir langan dag, þegar góður matur lokkar meira en að standa yfir pottunum.

Einfaldur og fjótlegur tælenskur kjúklingaréttur

Einfaldur og fljótlegur tælenskur kjúklingaréttur

 • 3 kjúklingabringur
 • 1 spergilkálshaus
 • 1 rauð paprika
 • 2 rauðlaukar
 • 1 dós kókosmjólk
 • 2 tsk fiskisósa
 • 3 msk tamari
 • 0,5 dl rauður chili, fræhreinsaður og hakkaður smátt
 • 2 msk engifer, fínhakkað
 • ferskt kóriander

Skerið kjúklingabringurnar og grænmetið í bita. Sjóðið í kókosmjólkinni þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til með fiskisósu og tamari. Stráið hökkuðu chili, engifer og kóriander yfir. Berið fram með hrísgrjónum eða núðlum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Í dag er engin venjulegur dagur því hér fögnum við stórafmæli. Það er ótrúlegt að liðin séu 10 ár síðan við Öggi keyrðum snemma morguns á fæðingadeildina í Uppsölum. Ég man að við stoppuðum á ljósum á leiðinni og mér var litið á bílana í kringum okkur og sagði við Ögga; „Hugsa sér, hér er allt þetta fólk á leið til vinnu en við erum að fara að eignast tvö börn“. Lítið vissum við hvað biði okkar og hversu óendanlega mikla gleði þessir bræður ættu eftir að færa okkur.

Við fögnuðum deginum að ósk afmælisbarnanna á Hamborgarafabrikunni. Um helgina verður afmælisboð og þeir hafa beðið um að hafa mexíkóska kjúklingasúpu og kökur í eftirrétt.

Desembermánður hefur verið sá annasamasti sem ég man eftir og mér finnst ég varla hafa gert neitt af viti í eldhúsinu. Ég eldaði þó æðislegan kjúklingarétt um daginn sem ég átti eftir að setja inn. Þessi réttur sló í gegn á heimilinu og við mælum heilshugar með honum.

Ofnbakaðar kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

Kjúklingabringur með sólþurrkuðum tómötum

 • 600 g kjúklingabringur (eða úrbeinað kjúklingalæri)
 • 2 dl sýrður rjómi
 • 75 g marineraðir sólþurrkaðir tómatar + 1 tsk olía
 • 1 tsk salt + 3/4 tsk salt
 • ferskmalaður pipar
 • 1 lítill púrrulaukur
 • 1 msk + 1 msk olía
 • 1 dl vatn

Hitið ofninn í 200°. Mixið sýrðum rjóma, sólþurrkuðum tómötum og 1 tsk af olíunni af tómötunum saman með töfrasprota. Kryddið með 1 tsk salti og nokkrum snúningum úr piparkvörninni. Fletjið bringurnar út (ef þær eru mjög þykkar getur verið gott að kljúfa þær) og setjið 1/3 af tómatamaukinu á þær. Rúllið bringunum upp og festið með tannstöngli. Kryddið með 3/4 tsk salti og smá pipar og brúnið á pönnu í 1 msk af olíu  þannig að bringurnar fái fallegan lit. Setjið kjúklinginn í eldfast mót og setjið í ofninn í ca 10 mínútur.

Á meðan kjúklingurinn er í ofninum er sósan útbúin. Hreinsið púrrulaukinn, kljúfið hann og skerið í þunnar sneiðar. Steikið púrrulaukinn í 1 msk af olíu í ca 3 mínútur. Bætið því sem eftir var af tómatmaukinu á pönnuna ásamt vatni og látið sjóða saman í ca 1 mínútu.  Takið kjúklinginn úr ofninum og hellið sósunni yfir hann. Setjið aftur í ofninn þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn, eða ca 10 mínútur.

Berið kjúklinginn fram með pasta og ruccola eða spínati.

Ofnbakaður kjúklingur með sólþurrkuðum tómötum

Kjúklingur í mildri chili-rjómasósu með krumpuðum kartöflum

Við enduðum helgina með þessum góða kjúklingarétti og krumpuðum kartöflum. Það þarf ekki að hafa mikið fyrir þessum mat og hann var því algjörlega í takt við helgina hjá okkur.

Sósan í þessum kjúklingarétti er æðislega góð og það er kjörið að bera hann fram með pasta eða hrísgrjónum. Mig langaði hins vegar svo mikið í kartöflur og þar sem ég átti fullan poka af þeim urðu þær fyrir valinu í þetta sinn. Þær verða stórgóðar við þessa meðferð, að kremja þær eftir að þær hafa verið soðnar, setja olíu og krydd yfir og leyfa þeim að fá fallegan lit í ofninum. Okkur þótti æði að dýfa þeim í sósuna og hættum ekki fyrr þær voru allar búnar.

Kjúklingur í mildri chili-rjómasósu

 • 900 gr kjúklingabringur
 • paprikukrydd
 • salt
 • 1 dós sýrður rjómi
 • 1 lítill peli rjómi
 • 1-2 kjúklingateningar
 •  1 tsk sambal oelek (fæst t.d. í Bónus, sjá mynd hér að neðan)
 • 2-3 msk chilisósa (t.d. frá Heinz, ekki sweet chilli sósa)
 • salt og pipar
 • ca 2 dl rifinn ostur

Krumpaðar kartöflur

 • kartöflur
 • ólívuolía eða önnur olía
 • salt og jurtakrydd

Hitið ofninn í 200°. Sjóðið kartöflurnar með hýðinu. Skerið bringurnar í tvennt eða þrennt og leggið í eldfast mót. Kryddið með paprikukryddi og salti.

Hrærið saman í potti rjóma, sýrðum rjóma, kjúklingakrafti, chilisósu og sambal oelek og látið suðuna koma upp. Smakkið til með salti og pipar. Hellið heitri sósunni yfir kjúklinginn og setjið í ofninn í ca 20 mínútur. Stráið þá osti yfir réttinn og eldið áfram í ca 15-20 mínútur.

Þegar kartöflurnar eru soðnar er vatninu hellt af og þær lagðar á bökunarpappírsklædda ofnplötu. Þrýstið á kartöflurnar (ég nota botn á glasi til þess), penslið þær með olíu og kryddið með salti og jurtakryddi. Setjið kartöflurnar í ofninn þar til þær hafa fengið fallegan lit.

Mexíkóskur mangókjúklingur

Mér þykir svo gaman að vera með góðan mat á föstudögum og notalegt að byrja helgarfríið á að sitja lengi saman yfir kvöldmatnum. Helst á maturinn að vera þannig að það sé ekki hægt að hætta að borða og að það sé verið að narta allt kvöldið. Ef ég er t.d. með pizzur þá er gengið frá eftir matinn en afgangurinn af pizzunni látinn standa áfram á borðinu. Það er síðan verið að skera sér bita allt kvöldið. Það finnst mér notalegt.

Ég er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvernig mat ég vil hafa á föstudagskvöldum og suma rétti myndi ég alls ekki hafa. Mér þykir t.d. mexíkóskur matur, pizzur og kjúklingur vera ekta föstudagsmatur á meðan t.d. lambalæri, fiskur og grjónagrautur eru það alls ekki. Ég get ekki útskýrt af hverju, svona er þetta bara, en sitt sýnist hverjum.

Í gærkvöldi var ég með ekta föstudagsmat, kjúklingabringur í mexíkóskri mangósósu með hrísgrjónum og góðu salati, sem var að mínu mati fullkomin byrjun á helgarfríinu.

Mexíkóskur mangókjúklingur

 • 4 kjúklingabringur
 • 2-3 tsk tacokrydd
 • 250 gr frosið niðurskorið mangó
 • 4 dl sýrður rjómi
 • 1,5 msk fljótandi kjúklingakraftur eða 1 ½ teningur
 • 2 rauðar paprikur

Hitið ofninn í 200°. Kljúfið kjúklingabringurnar á lengdina. Saltið og piprið og veltið þeim upp úr tacokryddinu. Leggið í smurt eldfast mót.

Blandið mangó, sýrðum rjóma og kjúklingakrafti saman með töfrasprota. Hellið blöndunni yfir kjúklinginn. Skerið paprikuna smátt og stráið yfir. Bakið í ofninum í ca 25 mínútur.

Berið réttin fram með hrísgrjónum og góðu salati með t.d. tómötum, rauðlauk, papriku, avokadó, fetaosti og muldum nachosflögum með kjúklingnum.

Oreganokjúklingur og vettlingar

Ég hef aldrei skrifað bloggfærslu við eins fallegar aðstæður og núna. Við erum í Vestmannaeyjum og ég horfi yfir dalinn, byggðina, Heimaklett og út á haf. Mér finnst alltaf jafn yndislegt að koma hingað og það er að verða hefð hjá okkur að fara til Eyja á sumrin. Í gærkvöldi fórum við í sund fyrir kvöldmat og komum svo við í videóleigunni á leiðinni heim, leigðum 4 myndir og keyptum ársbyrgðir af nammi og snakki. Öggi og strákarnir eru að horfa á síðustu myndina, mynd sem strákarnir völdu. Mér líst ekkert á hana og sit því hér við tölvuna og ætla að gefa uppskrifina af kvöldmatnum hjá okkur í gær.

Áður en við lögðum af stað hingað leist okkur ekkert á veðurspána en núna þegar við erum á heimleið erum við sammála um að helgin hefði ekki verið svona róleg og notaleg ef við hefðum ekki fengið rigninguna. Við erum meðal annars búin að klára að lesa Hungurleikana, horfa á sjónvarpið, spila, blogga og prjóna. Prjónaverkefni helgarinnar voru þessir vetrarvettlingar fyrir Gunnar sem ég prjónaði úr afgangsgarni sem ég átti. Uppskriftin kemur úr bók eftir Kristínu Harðardóttur sem heitir Vettlingar og fleira.

Uppskrifina að kjúklingaréttinum fékk ég fyrir mörgum árum í blaði sem sænska matvörukeðjan Ica gefur út, Buffé. Þetta er einfaldur og fljótlegur réttur sem okkur þykir feiknagóður. Oregano og balsamik edik gefur réttinum mikið og gott bragð og okkur þykir gott að hafa baguette með til að dýfa í sósuna.

Oreganokjúklingur

 • 4 kjúklingabringur
 • 4 hvítlauksrif
 • smjör
 • salt og pipar
 • 5 dl matreiðslurjómi
 • 2 kjúklingateningar
 • 5-6 tsk ferskt eða þurrkað oregano
 • 2-3 msk balsamik edik

Skerið hverja kjúklingabringu í þrennt á lengdina. Takið hýðið af hvítlauksrifunum og hakkið þau fínt niður.  Steikið kjúklinginn upp úr smjöri á pönnu við miðlungsháan hita og saltið og piprið. Blandið matreiðslurjóma, kjúklingateningum, oregano og balsamik ediki saman í potti og látið suðuna koma upp. Bætið kjúklingnum og hvítlauknum út í og látið sjóða við vægan hita undir loki í ca 5 mínútur. Smakkið til og bætið ef til vill meiri oregano eða basamik ediki út í. Berið fram með ofnbökuðum kartöflum eða hrísgrjónum og salati. Okkur þykir líka gott að hafa baguette brauð með til að dýfa í sósuna því hún er mjög bragðgóð.