Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag var Malín búin að baka bollakökur með súkkulaðikremi. Þær voru svo mjúkar og góðar að ég hefði getað borðað þær allar. Ég elska að koma heim þegar krakkarnir hafa bakað og finnst það vera dásamlegur hversdagslúxus að fá kökubita eftir vinnudaginn.
„Pulled pork“ eða rifið svínakjöt hefur verið vinsæll réttur undanfarin ár (þú getur séð uppskriftina sem ég nota hér). Kjötið setjum við ýmist í hamborgarabrauð, tortillavefjur eða tacoskeljar ásamt grænmeti og oftast smá sýrðum rjóma. Það má svo bera herlegheitin fram með góðu salati, kartöfubátum (þessir eru í algjöru uppáhaldi), nachos eða hverju sem er.
Ég prófaði um daginn að skipta svínakjötinu út fyrir kjúkling og var mjög ánægð með útkomuna. Eldunartíminn var mun styttri og eldamennskan gerist varla einfaldari. Við settum kjúklinginn í tortillakökur ásamt káli, rauðri papriku, tómötum, avokadó, kóriander og sýrðum rjóma. Brjálæðislega gott!
Rifinn kjúklingur
- 900 g kjúklingabringur
- 2½ – 3 dl barbeque sósa
- 1 laukur, skorin í þunna báta
- paprikuduft
- olía
Hitið ofninn í 130-140°. Steikið kjúklingabringurnar á pönnu þar til þær eru komnar með smá steikingarhúð. Kryddið með paprikudufti og leggið yfir í eldfast mót eða ofnpott. Sáldrið smá olíu yfir kjúklinginn og setjið laukbátana og barbequesósuna yfir. Setjið lok á ofpottinn eða álpappír yfir eldfasta mótið (þó ekki nauðsynlegt). Eldið í miðjum ofni í um 2½ klst, eða þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Kjúklingurinn á að detta hæglega í sundur þegar gaffli er stungið í hann. Tætið kjúklinginn í sundur (t.d. með tveimur göfflum) og berið fram.
Sæl Svava.
Takk kærlega fyrir þessa frábæru síðu. Það er oftar en ekki sem uppskrift frá þér endar á borðum hjá mér, enda fjölbreytnin mikil. Nú hef ég mikin áhuga á þessari uppskrift Pulled Chicken en ég mundi allt í einu eftir því að ég á fullan bakka af svínahnakkasneiðum í frysti, get ég notað þessar þunnu sneiðar og baka ég þær þá í 10 klst.? Mér finnst þetta mjög svo girnilegt og hef hug á að bjóða vinum okkar upp á þessa gómsætu máltið.
Bestu kveðjur.
Sigríður