Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Eftir kvöldmatinn í gær létum við okkur dreyma um góðan eftirrétt. Eftir að hafa velt upp öllum mögulegum eftirréttum sem okkur komu til hugar komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði mest í þessa köku, brownieköku með daim og jarðaberjafrauði. Ég hefði gefið mikið fyrir sneið af henni, þó ekki væri nema smá flís til að njóta eftir matinn. Hún er svo æðislega góð, með ríkulegum súkkulaðibotni og fersku jarðaberjafrauði sem fer saman eins og hönd í hanska.

Það er óhætt að segja að kakan hafi farið sigurför um sænska matarbloggheima og ég hef ekki tölu á þeim bloggsíðum sem ég hef séð uppskriftina á. Mér þykir það alltaf góðs viti að sjá sömu uppskrift á mörgum stöðum og þær uppskriftir hafi undantekningarlaust reynst mér góðar.

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Ég verð að viðurkenna að matarlím fældi mig lengi vel frá uppskriftum en ég er sem betur fer komin yfir það. Ég gerðist meira að segja svo djörf að bæta auka matarlímsblaði í þessa köku þar sem ég las í umsögnum að hún ætti það til að vera ekki nógu stíf. Upphaflega uppskriftin gerði ráð fyrir 5 matarlímsblöðum en ég nota 6 blöð og hef aldrei lent í vandræðum.

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Brownie botn:

 • 110 g smjör
 • 2 1/3 dl sykur
 • 1 msk sýróp
 • 2 egg
 • 1 1/2 dl hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • 1 1/2 tsk vanillusykur
 • 1 dl kakó
 • 2 stk. stór Daim (56 g hvor pakkning), grófhakkað

Jarðaberjafrauð:

 • 5-6 matarlímsblöð
 • 1/2 kg jarðaber
 • 3 eggjarauður
 • 2 dl flórsykur
 • 6 dl rjómi

Skraut

 • 1 kg jarðaber

Brownie botn: Hitið ofninn í 175°. Hrærið smjör, sykur og sýróp saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið eggjunum saman við. Bætið hveiti, salti, vanillusykri, kakói og grófhökkuðu Daim út í og hrærið saman. Setjið deigið í smurt smelluform sem er 24 cm í þvermál og bakið í 20 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en jarðaberjafrauðið er gert.

Það getur verið gott að losa um kökuna í forminu áður en jarðaberjafrauðið er sett yfir hana, til að það sé einfaldara að flytja kökuna yfir á kökudisk þegar hún er tilbúin.

Jarðaberjafrauð: Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í 5 mínútur. Maukið jarðaber í matvinnsluvél eða með töfrasprota og leggið til hliðar.  Hrærið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Léttþeytið rjómann í annarri skál. Hitið 1/10 af jarðaberjamaukinu í potti. Takið matarlímsblöðin úr vatninu, kreystið mesta vökvann frá þeim og bætið blöðunum í pottinn. Látið þau bráðna við vægan hita í jarðaberjamaukinu. Þegar matarlímsblöðin hafa bráðnað er blöndunni hrært saman við restina af jarðaberjamaukinu.

Blandið eggjablöndunni varlega saman við jarðaberjamaukið og hrærið síðan rjómanum varlega saman við þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir brownie botninn. Látið kökuna standa í að minnsta kosti 4 tíma í ísskáp áður en hún er borin fram. Það má einnig frysta kökuna og þá er hún tekin út og látin standa við stofuhita 4 tímum áður en hún er borin fram.

Setjið jarðaber yfir kökuna áður en hún er borin fram.

7 athugasemdir á “Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

 1. Myndi það breyta miklu ef notuð væru frosin jarðaber (afþýdd) jarðaber í frauðið í stað þess að nota fersk ?

 2. Ég gerði þessu fyrir áramótin og hún er sjúklega góð!! Ég notaði eina öskju af ferskum jarðaberjum og svo frosin á móti og það kom bara rosa vel út.

   1. Sæl ég er að baka þessa girnilegu köku en eftir 20 mín í ofninum finnst mé r hún óbökuð næstum hrá. Hvað skal gera?

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s