After Eight súkkulaðimús

Ég hef varla verið heima undanfarnar vikur og hef því lítið náð að dunda mér í eldhúsinu. Það styttist þó í að það fari að róast hjá mér og þegar það gerist verður vonandi meira líf hér á blogginu því ég með langan lista af uppskriftum sem mig langar að prófa.

Þangað til nýt ég góðs af uppskriftum sem eiga eftir að fara hingað inn, eins og þessi súkkulaðimús. Þeir sem lesa hér reglulega vita eflaust að súkkulaðimús er sá eftirréttur sem ég geri hvað oftast því börnin mín vita fátt betra. Um daginn breytti ég út af vananum og bætti After Eight í súkkulaðimúsina. Útkoman var æðisleg!

After Eight súkkulaðimús ( uppskrift fyrir 6)

 • 100 g suðusúkkulaði
 • 15 plötur After Eight
 • 3 eggjarauður
 • 5 dl rjómi

Bræðið súkkulaðið í örbylgjuofni eða yfir vatnsbaði. Látið það kólna aðeins áður en eggjarauðum er hrært saman við. Hrærið þar til blandan er orðin slétt (ef hún verður kekkjótt eða of þykk er smá rjóma hrært saman við).

Þeytið rjómann en alls ekki of stífann. Hrærið léttþeyttum rjómanum saman við súkkulaðiblönduna í smáum skömmtum með sleikju. Hrærið blöndunni varlega saman þar til hún hefur blandast vel.

Setjið súkkulaðimúsina í skálar og látið standa í ísskáp þar til hún hefur stífnað. Berið fram með berjum og jafnvel þeyttum rjóma.

 

Crépes með nutellamús

Ég hef í gegnum tíðina eignast svo mikið af matreiðslubókum að ég hef varla pláss fyrir fleiri. Ég reyni því að sitja á mér og kaupa ekki fleiri bækur en það er erfitt þegar það koma svo margar áhugaverðar út á hverju ári. Ég get skoðað þær endalaust en er því miður ekki jafn dugleg að nota uppskriftirnar. Það koma þó stundir sem ég tek mig á og þá gerast oft spennadi hlutir í eldhúsinu.

Fyrir jólin 2016 pantaði ég mér nokkrar bækur á netinu. Ég var búin að setja allt of margar bækur í körfu og endaði á að skilja matreiðslubækurnar eftir og kaupa frekar skáldsögur til að hafa yfir jólin. Malín stalst hins vegar í tölvuna mína þegar ég sá ekki til og sá hvaða bækur ég hafði skilið eftir í körfunni og pantaði þær. Ég ætlaði ekki að trúa mínum eigin augum þegar ég opnaði jólagjöfina frá henni og sá matreiðslubækurnar sem mig hafði langað  svo í en ekki pantað. Það sem ég var glöð!

Það gerðist svo núna, rétt rúmu ári síðar, að ég lét verða af því að gera eftirrétt úr einni bókinni, Pernillas Kök.. Eftir að hafa lesið bókina fram og til baka og í marga hringi varð crépes með nutellamús fyrir valinu. Þetta var svo brjálæðislega gott að það náði engri átt! Þetta skuluð þið prófa.

Crépes með nutellamús (uppskrift fyrir 4)

Crepes

 • 2 dl hveiti
 • 3 dl mjólk
 • 2 egg
 • 1/2 tsk salt
 • 1 tsk sykur
 • smjör til að steikja úr

Nutellamús

 • 1 dl nutella
 • 2 dl rjómi

Skraut

 • fersk ber
 • súkkulaðisósa
 • grófhakkaðar, ristaðar heslihnetur (ég sleppti þeim)

Setjið hveiti og mjólk í skál og hrærið saman. Hrærið eggjunum saman við og að lokum sykri og salti. Hrærið þar til deigið er slétt. Látið deigið standa í smá stund áður en pönnukökurnar eru steiktar. Bræðið smá smjör á pönnukökupönnu fyrir hverja pönnuköku og steikið þær gylltar á báðum hliðum. Leggið þær til hliðar og látið kólna.

Setjið nutella í skál með 1 dl af rjóma. Hrærið með handþeytara eða í hræivél þar til blandan hefur myndað slétta og loftkennda mús. Þeytið það sem eftir var af rjómanum í annarri skál og blandið svo varlega saman við nutellamúsina.

Fyllið pönnukökurnar með nutellamúsinni. Brjótið þær saman og setjið fersk ber, hakkaðar hnetur og súkkulaðisósu yfir.

 

SaveSave

SaveSaveSaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

SaveSave

Nutella semifreddo

Nutella semifreddo

Á föstudaginn voru skólaslit hjá strákunum og þeir eru því komnir í langþráð sumarfrí. Fríið byrjar vel, með glampandi sól sem hefur verið notið til hins ýtrasta. Þvílíkur munur þegar veðrið er svona gott! Vonandi fáum við sólríkt sumar.Nutella semifreddo

Síðastliðinn fimmtudag útskrifaðist Malín hins vegar úr 10. bekk og lauk þar með grunnskólagöngu sinni. Mér þykir þetta vera svo stór áfangi og mikil tímamót. Skólinn var með fallega athöfn og bauð síðan öllum upp á mat að henni lokinni. Það voru 42 nemendur sem útskrifuðust úr skólanum og skólinn sá til þess að þau gátu kvatt á eftirminnilegan máta. Hvað tekur nú við skýrist í lok mánaðarins en þá koma svör frá menntaskólunum. Spennandi….

Nutella semifreddo

Í veislunni í skólanum komst ég að því að Malín var búin að bjóða vinahópnum hingað heim í forpartý. Það vildi svo heppilega til að kvöldið áður hafði ég útbúið tertu og var búin að versla inn í Caesarsalat sem ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn. Veðrið var svo gott að við lögðum á borð úti á palli, ég gerði stóran skammt af salatinu og bauð síðan upp á Nutella semifreddo tertuna sem beið í frystinum í eftirrétt. Ég heyrði ekki betur en að allir hafi verið ánægðir og það var glaður hópur sem fór héðan þegar leið á kvöldið.

Nutella semifreddoNutella semifreddo

Uppskriftin af tertunni hef ég séð víða í sænskum bloggheimum þar sem hún hefur vakið mikla lukku. Hún stóð fullkomlega undir væntingum og er frábær eftirréttur fyrir sumarið, svo frískandi og góð. Það skemmir ekki fyrir að hægt er að útbúa hann með góðum fyrirvara og geyma í frysti. Mér þykir nauðsynlegt að bera tertuna fram með berjum, helst jarðaberjum. Súpergott!!!

Nutella semifreddoNutella semifreddo

Nutella semifreddo (fyrir 10 manns)

 • 2 marangebottnar (keyptir eða heimagerðir, uppskrift fyrir neðan)
 • 4 egg
 • 2 msk sykur
 • 5 dl rjómi
 • 1 dós Nutella (um 400 g)

Skiljið eggjahvítur og -gulur og setjið í sitthvora skálina. Setjið 1 msk af sykri í hvora skál. Stífþeytið eggjahvíturnar og þeytið eggjarauðurnar þar til þær verða léttar og ljósar.  Þeytið rjómann í þriðju skálinni.

Setjið annan marangebottninn í botn á smelluformi. Brjótið hinn botinn og leggið til hliðar.

Hærið eggjahvítum, eggjarauðum og rjóma varlega saman og hrærið síðan mulda marangebotninum saman við. Látið Nutella renna úr skeið yfir og blandið því þannig í til að það myndi rendur í deiginu (hitið Nutelladósina aðeins í örbylgjuofninum áður til að það sé betra að eiga við það).  Setjið deigið yfir marangebottninn í forminu, ef það er of hátt þá er hægt að útbúa kannt með álpappír til að hækka formið eða hreinlega leggja hringinn (kanntinn) af öðru formi ofan á. Ég setti smá af Nutella yfir kökuna sem skraut áður en hún fór í frystinn.

Frystið tertuna í að minnsta kosti 4 klukkustundir áður en hún er borin fram. Berið hana fram með ferskum jarðaberjum.

Marangebotnar

 • 4 eggjahvítur
 • 3 dl sykur

Stífþeytt saman, sett í tvö form og bakað við 110° í 2 klst.

 

 

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Eftir kvöldmatinn í gær létum við okkur dreyma um góðan eftirrétt. Eftir að hafa velt upp öllum mögulegum eftirréttum sem okkur komu til hugar komst ég að þeirri niðurstöðu að mig langaði mest í þessa köku, brownieköku með daim og jarðaberjafrauði. Ég hefði gefið mikið fyrir sneið af henni, þó ekki væri nema smá flís til að njóta eftir matinn. Hún er svo æðislega góð, með ríkulegum súkkulaðibotni og fersku jarðaberjafrauði sem fer saman eins og hönd í hanska.

Það er óhætt að segja að kakan hafi farið sigurför um sænska matarbloggheima og ég hef ekki tölu á þeim bloggsíðum sem ég hef séð uppskriftina á. Mér þykir það alltaf góðs viti að sjá sömu uppskrift á mörgum stöðum og þær uppskriftir hafi undantekningarlaust reynst mér góðar.

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Ég verð að viðurkenna að matarlím fældi mig lengi vel frá uppskriftum en ég er sem betur fer komin yfir það. Ég gerðist meira að segja svo djörf að bæta auka matarlímsblaði í þessa köku þar sem ég las í umsögnum að hún ætti það til að vera ekki nógu stíf. Upphaflega uppskriftin gerði ráð fyrir 5 matarlímsblöðum en ég nota 6 blöð og hef aldrei lent í vandræðum.

Browniekaka með daim og jarðaberjafrauði

Brownie botn:

 • 110 g smjör
 • 2 1/3 dl sykur
 • 1 msk sýróp
 • 2 egg
 • 1 1/2 dl hveiti
 • 1/2 tsk salt
 • 1 1/2 tsk vanillusykur
 • 1 dl kakó
 • 2 stk. stór Daim (56 g hvor pakkning), grófhakkað

Jarðaberjafrauð:

 • 5-6 matarlímsblöð
 • 1/2 kg jarðaber
 • 3 eggjarauður
 • 2 dl flórsykur
 • 6 dl rjómi

Skraut

 • 1 kg jarðaber

Brownie botn: Hitið ofninn í 175°. Hrærið smjör, sykur og sýróp saman þar til blandan verður ljós og létt. Hrærið eggjunum saman við. Bætið hveiti, salti, vanillusykri, kakói og grófhökkuðu Daim út í og hrærið saman. Setjið deigið í smurt smelluform sem er 24 cm í þvermál og bakið í 20 mínútur. Látið botninn kólna alveg áður en jarðaberjafrauðið er gert.

Það getur verið gott að losa um kökuna í forminu áður en jarðaberjafrauðið er sett yfir hana, til að það sé einfaldara að flytja kökuna yfir á kökudisk þegar hún er tilbúin.

Jarðaberjafrauð: Leggið matarlímsblöð í kalt vatn í 5 mínútur. Maukið jarðaber í matvinnsluvél eða með töfrasprota og leggið til hliðar.  Hrærið eggjarauður og flórsykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Léttþeytið rjómann í annarri skál. Hitið 1/10 af jarðaberjamaukinu í potti. Takið matarlímsblöðin úr vatninu, kreystið mesta vökvann frá þeim og bætið blöðunum í pottinn. Látið þau bráðna við vægan hita í jarðaberjamaukinu. Þegar matarlímsblöðin hafa bráðnað er blöndunni hrært saman við restina af jarðaberjamaukinu.

Blandið eggjablöndunni varlega saman við jarðaberjamaukið og hrærið síðan rjómanum varlega saman við þar til blandan er slétt. Hellið blöndunni yfir brownie botninn. Látið kökuna standa í að minnsta kosti 4 tíma í ísskáp áður en hún er borin fram. Það má einnig frysta kökuna og þá er hún tekin út og látin standa við stofuhita 4 tímum áður en hún er borin fram.

Setjið jarðaber yfir kökuna áður en hún er borin fram.

Ísbaka með bourbon karamellu.

Ísbaka með bourbon karamellu

Við höfum undanfarin ár boðið gestum hingað til okkar um áramót í kalkún. Ég geri alltaf tvenna eftirrétti fyrir þetta síðasta kvöld ársins. Annar eftirrétturinn er alltaf marensrúlla með ástaraldin, sem allir elska og má alls ekki sleppa,  en hinn eftirrétturinn er breytilegur og mér þykir alltaf gaman að velja hann og  prófa nýtt.

Ísbaka með bourbon karamellu

Í ár varð þessi ísbaka með bourbon karamellukremi fyrir valinu. Uppskriftin kemur frá engri annarri en Nigellu og eins og flestar uppskriftir sem ég hef gert frá henni var hún óendanlega góð. Börnin litu ekki við henni eftir að þau heyrðu að það væri kaffi í ísnum og whiskey í karamellusósunni en við fullorðna fólkið gátum ekki hætt að borða hana og fögnuðum því að hafa bökuna fyrir okkur.

Það er ekki vínbragð af karamellunni heldur gefur bourbonið henni einungis góðan keim. Ísinn er keyptur og ég valdi að nota cappucino-karamelluís Fabrikkunnar (fæst m.a. í Bónus) sem okkur fannst mjög góður.

Þessi ísbaka var stórkostlega góð og við höfum ekki getað hætt að hugsa um hana. Ég mun klárlega endurtaka leikinn við fyrsta mögulega tækifæri. Eins og svo oft áður fannst mér mikill kostur að geta útbúið hana með góðum fyrirvara og því er hún frábær eftirréttur fyrir matarboð.

Ísbaka með bourbon karamellu

Ísbaka með bourbon karamellu

Skel:

 • 375 g digestive kex
 • 75 g mjúkt smjör
 • 50 g dökkt súkkulaði
 • 50 g rjómasúkkulaði

Fylling:

 • 1 líter kaffiís

Toppur:

 • 300 g síróp (Lyle´s golden syrup)
 • 100 g ljós muscovado sykur (ég notaði 35 g ljósan púðursykur og 65 g venjulegan púðursykur)
 • 75 g smjör
 • 1/4 tsk maldon salt
 • 2 msk bourbon (ég notaði 1 msk)
 • 125 ml rjómi

Setjið hráefnin í skelina í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið deginu í botn og meðfram hliðum á bökumóti. Reynið að hafa hliðarnar háar, helst aðeins upp fyrir kanntinn á mótinu. Frystið í um klukkutíma til að botninn verði alveg harður.

Ísbaka með bourbon karamellu

Látið ísinn mýkjast í ískáp þar til hægt er að breiða honum í skelina. Passið að mýkja hann ekki of mikið, hann á ekki að bráðna. Breiðið ísnum í harða skelina. Setjið plastfilmu yfir og frystið.

Ísbaka með bourbon karamelluÍsbaka með bourbon karamellu

Setjið smjör, síróp, salt og sykur í pott og látið bráðna yfir miðlungshita. Hækkið hitann og sjóðið í 5 mínútur. Takið pottinn af hitanum, bætið  bourbon í hann (það mun krauma í blöndunni við þetta). Bætið rjómanum í pottinn og hrærið öllu vel saman.

Látið karamelluna kólna áður en hún er sett yfir ísinn. Þegar karamellan hefur kólnað er henni hellt yfir ísinn þannig að hún hylji hann og að því loknu er bakan sett aftur í frystinn. Þegar karamellan er frosin er plastfilma sett yfir og geymt þannig í frystinum þar til bakan er borin fram.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég lofaði í gær að setja inn uppskrift að þessari dásamlegu böku sem ég bauð upp á í afmælisveislu strákanna í dag. Þetta er ein af þeim uppskriftum sem mér þykir mikill fjársjóður að eiga. Ekki bara er einfalt að útbúa bökuna og hægt að gera hana með góðum fyrirvara heldur er hún líka alveg stórkostlega góð.

Við héldum afmælisveislu strákana í dag og þeir vildu bjóða fjölskyldunni í súpu og kökur í hádeginu. Það kom mér ekki á óvart að þeir vildu hafa  Mexíkóska kjúklingasúpu því hún er í miklu uppáhaldi hjá þeim. Í eftirrétt vildu þeir fá að skreyta venjulega skúffuköku og síðan bakaði ég silvíuköku, möndluköku og síðast en ekki síst þessa frosnu bismarkböku með marshmellowkremi.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ég hef bakað þessa frosnu bismarkböku nokkrum sinnum áður og hún slær alltaf í gegn. Í fyrra vorum við með hana í eftirrétt um áramótin sem vakti mikla lukku. Bakan er sæt en jafnframt fersk og passar því vel eftir mikla máltíð. Þar að auki þykir mér frábært að vera með eftirrétt sem hægt er að útbúa með góðum fyrirvara þegar mikið stendur til í eldhúsinu, eins og svo oft vill vera um áramótin.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Ef þið eruð að leita að eftirrétti fyrir áramótin þá er þessi kaka mín tillaga. Það má gera hana strax í dag og geyma í frystinum þar til hún verður borin fram. Uppskriftin kemur úr sænskri matreiðslubók, Vinterns söta.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Botn:

 • 20 súkkulaðikexkökur, t.d. Maryland
 • 2 msk kakó
 • 25 g brætt smjör

Bismarkkrem

 • 5 dl rjómi
 • 1 dós marshmalowkrem (fæst t.d. í Hagkaup, sjá mynd)
 • Nokkrir dropar af piparmintudropum
 • nokkrir dropar af rauðum matarlit
 • 1 dl bismarkbrjóstyskur + nokkrir til skrauts

Súkkulaðisósa:

 • 125 g dökkt súkkulaði
 • 75 g smjör
 • ½ dl sykur
 • ½ dl sýróp
 • ½ dl vatn
 • smá salt

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Setjið kex, kakó og brætt smjör í matvinnsluvél og vinnið saman. Þrýstið blöndunni í smelluform með lausum botni (það getur verið gott að klæða það fyrst með smjörpappír) og setjið í frysti.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Þeytið rjómann og blandið marshmallowkreminu varlega saman við. Passið að hræra marshmallowkreminu ekki of vel saman við rjómann, það á að vera í litlum klessum í rjómanum. Hrærið nokkrum dropum af piparmintudropum saman við (smakkið til, mér þykir passlegt að nota ca 1 tsk.).  Setjið um þriðjung af kreminu í aðra skál og leggið til hliðar.

Myljið bismarkbrjóstsykurinn í mortéli og blandið honum saman við stærri hluta kremsins. Takið kökubotninn úr frystinum og breiðið kreminu með bismarkbrjóstsykrinum yfir hann.  Hrærið nokkrum dropum af rauðum matarlit saman við kremið sem var lagt til hliðar og breiðið það yfir hvíta bismarkkremið. Notið hníf til að mynda óreglulega áferð í kremið.

Frystið kökuna í að minnsta kosti 5 klukkutíma. Takið hana úr frystinum 10-15 mínútum áður en það á að bera hana fram. Skreytið með bismarkbrjóstsykri.

Setjið öll hráefnin í súkkulaðisósuna í pott. Látið suðuna koma upp við vægan hita og hrærið þar til súkkulaðið er bráðnað. Látið sjóða við vægan hita í 10 mínútur eða þar til sósan er orðin þykk og glansandi.

Berið sósuna fram heita eða kalda með kökunni.

Frosin bismarkbaka með marshmellowkremi

Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði

Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði

Ég vil meina að þessi súkkulaðibrownieskaka sé í raun jólaleg kaka, að minnsta kosti jólaleg súkkulaðikaka. Ástæðan fyrir því að mér þykir þetta er að hún er með bismark brjóstsykri og hvítu súkkulaði, sem mér þykir vera svo jólalegt. Hvað sem öðrum finnst þá get ég lofað að hún mun fara vel á hvaða jólaborði sem er og með þeyttum rjóma mun enginn geta staðist hana.

Ég bakaði þessa bismarkbrownies með hvítu súkkulaði fyrir saumaklúbbinn í gær og við kolféllum allar fyrir henni. Þar að auki tók 11 ára sjarmör svo djúpt í árina að segja að þetta væri besta kaka sem hann hafði smakkað. Hann hefði ekki getað gefið mér betra hól og nú hefur hann mig alveg í lófa sínum.

Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði

Ef þið ætlið bara að baka eina köku fyrir jólin þá skuluð þið velja þessa. Geymið hana í ísskáp og þegar þið berið hana fram skuluð þið skera hana í bita, raða á fallegan disk og sigta flórsykri yfir. Það ætla ég alla vega að gera. Síðan má alls ekki gleyma rjómanum, hann fullkomnar dásemdina.

Uppskriftina fann ég í sænsku matreiðslublaði, Allt om mat. Ég rétt náði að mynda síðustu sneiðarnar sem enduðu klesstar saman í skál. Ekki láta þessa ógirnilegu mynd fæla ykkur frá kökunni því hún á svo mikið meira skilið.

Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði

 • 4 egg
 • 4 dl sykur
 • 200 g smjör
 • 200 g suðusúkkulaði
 • smá salt
 • 2 dl hveiti
 • 2 msk kakó
 • 1 poki bismarkbrjóstsykur (150 g)

Hvítt súkkulaðideig

 • 2 egg
 • 2 dl sykur
 • 150 g smjör
 • 150 g hvítt súkkulaði
 • smá salt
 • 1 ½ dl hveiti

Hitið ofninn í 175°. Blandið eggi og sykri saman fyrir bæði deigin í sitthvorri skálinni. Passið að þeyta ekki blönduna heldur bara að hræra henni saman.  Bræðið smjörin í sitthvorum pottinum og setjið niðurskorið súkkulaðið út í. Hrærið varlega í pottunum og látið súkkulaðið bráðna í smjörinu. Bætið saltinu saman við.Hellið súkkulaðiblöndunum í eggjablöndurnar. Siktið hveiti og kakó saman við dökka deigið og hveiti saman við hvíta súkkulaðideigið. Hrærið í blöndunum þar til þær verða sléttar.

Leggið bökunarpappír í botninn á skúffukökuformi sem er ca 20×30 cm stórt. Fínmyljið helminginn af bismarkbrjóstsykrinum og grófmyljið hinn helminginn og leggið til hliðar.

Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði

Setjið helminginn af dökka deiginu í formið og stráið fínmulda bismarkbrjóstsykrinum yfir. Setjið allt hvíta súkkulaðideigið yfir og síðan seinni helminginn af dökka deiginu. Endið á að strá grófmulda bismarkbrjóstsykrinum yfir.  Bakið í miðjum ofni í ca. 30 mínútur. Kakan á að vera svolítið blaut í miðjunni. Látið kökuna kólna og geymið hana helst í ísskáp.

Bismarkbrownies með hvítu súkkulaði