Á föstudaginn voru skólaslit hjá strákunum og þeir eru því komnir í langþráð sumarfrí. Fríið byrjar vel, með glampandi sól sem hefur verið notið til hins ýtrasta. Þvílíkur munur þegar veðrið er svona gott! Vonandi fáum við sólríkt sumar.
Síðastliðinn fimmtudag útskrifaðist Malín hins vegar úr 10. bekk og lauk þar með grunnskólagöngu sinni. Mér þykir þetta vera svo stór áfangi og mikil tímamót. Skólinn var með fallega athöfn og bauð síðan öllum upp á mat að henni lokinni. Það voru 42 nemendur sem útskrifuðust úr skólanum og skólinn sá til þess að þau gátu kvatt á eftirminnilegan máta. Hvað tekur nú við skýrist í lok mánaðarins en þá koma svör frá menntaskólunum. Spennandi….
Í veislunni í skólanum komst ég að því að Malín var búin að bjóða vinahópnum hingað heim í forpartý. Það vildi svo heppilega til að kvöldið áður hafði ég útbúið tertu og var búin að versla inn í Caesarsalat sem ég ætlaði að hafa í kvöldmatinn. Veðrið var svo gott að við lögðum á borð úti á palli, ég gerði stóran skammt af salatinu og bauð síðan upp á Nutella semifreddo tertuna sem beið í frystinum í eftirrétt. Ég heyrði ekki betur en að allir hafi verið ánægðir og það var glaður hópur sem fór héðan þegar leið á kvöldið.
Uppskriftin af tertunni hef ég séð víða í sænskum bloggheimum þar sem hún hefur vakið mikla lukku. Hún stóð fullkomlega undir væntingum og er frábær eftirréttur fyrir sumarið, svo frískandi og góð. Það skemmir ekki fyrir að hægt er að útbúa hann með góðum fyrirvara og geyma í frysti. Mér þykir nauðsynlegt að bera tertuna fram með berjum, helst jarðaberjum. Súpergott!!!
Nutella semifreddo (fyrir 10 manns)
- 2 marangebottnar (keyptir eða heimagerðir, uppskrift fyrir neðan)
- 4 egg
- 2 msk sykur
- 5 dl rjómi
- 1 dós Nutella (um 400 g)
Skiljið eggjahvítur og -gulur og setjið í sitthvora skálina. Setjið 1 msk af sykri í hvora skál. Stífþeytið eggjahvíturnar og þeytið eggjarauðurnar þar til þær verða léttar og ljósar. Þeytið rjómann í þriðju skálinni.
Setjið annan marangebottninn í botn á smelluformi. Brjótið hinn botinn og leggið til hliðar.
Hærið eggjahvítum, eggjarauðum og rjóma varlega saman og hrærið síðan mulda marangebotninum saman við. Látið Nutella renna úr skeið yfir og blandið því þannig í til að það myndi rendur í deiginu (hitið Nutelladósina aðeins í örbylgjuofninum áður til að það sé betra að eiga við það). Setjið deigið yfir marangebottninn í forminu, ef það er of hátt þá er hægt að útbúa kannt með álpappír til að hækka formið eða hreinlega leggja hringinn (kanntinn) af öðru formi ofan á. Ég setti smá af Nutella yfir kökuna sem skraut áður en hún fór í frystinn.
Frystið tertuna í að minnsta kosti 4 klukkustundir áður en hún er borin fram. Berið hana fram með ferskum jarðaberjum.
Marangebotnar
- 4 eggjahvítur
- 3 dl sykur
Stífþeytt saman, sett í tvö form og bakað við 110° í 2 klst.
Ein athugasemd á “Nutella semifreddo”