Ég hef verið hrifin af tælenskum mat frá því að ég smakkaði hann fyrst og þessi einfalda uppskrift vakti því strax áhuga minn. Mér finnst vera eitthvað notalegt við svona mat. Mat sem er bragðgóður og hollur en tekur ekki nokkra stund að reiða fram. Slíkar uppskriftir geta reynst mikill fjársjóður þegar lítill tími gefst í eldhúsinu og allir eru svangir.
Það er kannski ekkert sérlega framandi við þessa uppskrift en hún er svo einföld og bragðgóð að mér finnst ekki annað hægt en að birta hana hér. Hún er algjör draumur eftir langan dag, þegar góður matur lokkar meira en að standa yfir pottunum.
Einfaldur og fljótlegur tælenskur kjúklingaréttur
- 3 kjúklingabringur
- 1 spergilkálshaus
- 1 rauð paprika
- 2 rauðlaukar
- 1 dós kókosmjólk
- 2 tsk fiskisósa
- 3 msk tamari
- 0,5 dl rauður chili, fræhreinsaður og hakkaður smátt
- 2 msk engifer, fínhakkað
- ferskt kóriander
Skerið kjúklingabringurnar og grænmetið í bita. Sjóðið í kókosmjólkinni þar til kjúklingurinn er eldaður í gegn. Smakkið til með fiskisósu og tamari. Stráið hökkuðu chili, engifer og kóriander yfir. Berið fram með hrísgrjónum eða núðlum.
Kíki á síðuna þína á hverjum degi til að horfa eftir einföldum réttum 🙂
Bara til að hafa það skýrt, í þessari uppskrift þá steikirðu ekki kjúklinginn og grænmetið heldur sýður það bara beint í kókósmjólkinni?
Takk fyrir góða síðu.
En gaman að heyra 🙂 Í þessari uppskrift steiki ég ekki neitt heldur set allt beint í pottinn. Mjög einfalt og fljótlegt 🙂
Hrikalega góður og það besta, fljótlegur 🙂
Þessi er æði og mikið uppáhald. Er að fara að bjóða vinkonu í mat og ætla að elda hann aftur, mér til mikillar ánægju.