Ég hef varla stigið fæti inn í eldhús þessa vikuna og hef því ekki haft frá miklu að segja hér á blogginu. Ég hefði svo sem getað litið inn oftar, látið vita af mér og birt myndir frá hversdagsleikanum, en ég efast um að það sé áhugi fyrir því nema að það fylgi uppskrift með. Því fór sem fór og ég bæti það vonandi upp á næstu dögum.
Á sprengidag fórum við í árlegt matarboð til mömmu og borðuðum, eins og vera ber, á okkur gat. Mér finnst saltkjöt og baunir svo æðislega gott og mamma gerir það best af öllum. Á miðvikudagskvöldinu fór ég í saumaklúbb til Áslaugar vinkonu minnar og fékk alveg æðislegan mat, indverskan kjúklingarétt og karamellufylltar súkkulaðikökur með sjávarsalti, bornar fram með ís og berjum. Ég vildi óska þess að Áslaug fengist til að halda úti matarbloggi, þá værum við í góðum málum. Ég var ekki lengi að sníkja uppskriftirnar og hlakka til að borða þessar dásemdir aftur. Á fimmtudagskvöldinu fórum við Öggi með vinafólki okkar, Ernu og Óla, á Grillmarkaðinn. Maturinn þar er svo ótrúlega góður og ég gæti í alvöru lifað á sætkartöflufrönskunum þar. Vikan hefur því verið frábær matarvika hjá mér án þess að ég hafi haft neitt fyrir henni.
Um helgar er ég vön að baka köku til að eiga með kaffinu. Uppskriftina að þessari súkkulaðiköku fékk ég úr bók frá sænska kaffihúsinu Rosendals Trädgårdscafé. Þetta er ein af fjölmörgum matreiðslubókum sem ég keypti mér þegar við bjuggum í Svíþjóð og mér þykir alltaf jafn gaman að skoða hana. Uppskriftirnar eru girnilegar og hafa reynst vel. Þessi kaka var engin undantekning og það var barist um síðustu sneiðina. Ísköld mjólk er ómissandi með.
Súkkulaðikaka með þykkri súkkuklaðisósu
Kakan:
- 100 g smjör
- 1 ½ dl mjólk
- 2 egg
- 3 dl sykur
- 3 dl hveiti
- 2 tsk lyftiduft
- 2 ½ msk kakó
- 1 msk vanillusykur
Bræðið smjörið og blandið saman við mjólkina. Látið blönduna verða volga. Hrærið egg og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Blandið saman hveiti, lyftidufti, kakói og vanillusykri og blandið saman við eggjablönduna á víxl með mjólkurblöndunni. Setjið deigið í smurt hringform (ca 23 cm). Bakið í 175° heitum ofni í ca 30 mínútur.
Súkkulaðisósan:
- 50 g smjör
- 1 dl mjólk
- 1½ tsk hveiti
- 2 msk sykur
- 1 msk kakó
- kókos til að strá yfir kökuna
Bræðið smjörið í potti og hellið mjólkinni saman við. Blandið hveiti og sykri saman við kakóið. Setjið blönduna í pottinn og hrærið vel saman. Látið blönduna sjóða þar til hún er orðin að þykkri sósu. Hrærið stöðugt í pottinum og passið að sósan brenni ekki við botninn. Breiðið sósuna yfir kökuna þegar hún hefur aðeins kólnað og stráið kókos yfir.
Er hægt að nota „butter cream“ ?