Um daginn var ég með einn saumaklúbbinn minn hjá mér, Stjörnurnar. Ég furða mig á að það séu liðin 18 ár síðan við byrjuðum að hittast, þá allar á þeim tímamótum í lífi okkar að móðurhlutverkin voru ýmist að hefjast eða handan við hornið. Núna 18 árum síðar erum við mörgum börnum ríkari, nokkrar búnar að flytja erlendis og heim aftur, sumar sestar að erlendis og ein flutt norður í land. Engu að síður höldum við alltaf saman og þessar vinkonur mínar verða mér alltaf kærar.
Og hvað bauð ég þeim svo upp á? Sitt lítið af hverju. Osta, beikonvafðar döðlur, tapasskinku, ber, pekanhjúpaða ostakúlu, ofnbakaðan camembert og súkkulaðiköku. Einfalt, fljótlegt og gott.
Súkkulaðikakan var svakaleg, þó ég segi sjálf frá, og jafnvel betri daginn eftir. Ég bar hana fram með rjóma, saltkaramelluís frá Häagen-Dazs (ég mæli með að þið prófið hann…. eða haldið ykkur alveg frá honum því hann er ávanabindandi!) og jarðaberjum. Skothelt!
Dásamleg frönsk súkkulaðikaka
- 4 egg
- 6 dl sykur
- 3 dl hveiti
- 9 msk kakó
- ½ msk vanillusykur
- smá salt
- 200 g smjör
Súkkulaðikaramellukrem
- 75 g smjör
- ½ dl sykur
- ½ dl sýróp
- 1 msk kakó
- 1½ dl rjómi
- 200 g mjólkursúkkulaði (ég var með frá Cadbury)
Botninn:
Hrærið lauslega saman egg og sykur. Blandið hveiti, kakói, vanillusykri og salti saman og hrærið saman við eggjablönduna. Bræðið smjörið og hrærið því saman við. Setjið deigið í smurt form (ca 24 cm) og bakið við 175° í um 40 mínútur. Látið kökuna kólna.
Kremið:
Bræðið smjör í potti og bætið sykri, sýrópi, kakói og rjóma saman við. Látið suðuna koma upp á meðan þið hrærið í blöndunni og látið síðan sjóða við vægan hita í 5-10 mínútur. Takið pottin af hitanum og bætið hökkuðu súkkulaði í hann. Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellið kreminu yfir kökuna og látið hana síðan standa í ísskáp til að kremið stífni.