Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

Um daginn var ég með einn saumaklúbbinn minn hjá mér, Stjörnurnar. Ég furða mig á að það séu liðin 18 ár síðan við byrjuðum að hittast, þá allar á þeim tímamótum í lífi okkar að móðurhlutverkin voru ýmist að hefjast eða handan við hornið. Núna 18 árum síðar erum við mörgum börnum ríkari, nokkrar búnar að flytja erlendis og heim aftur, sumar sestar að erlendis og ein flutt norður í land. Engu að síður höldum við alltaf saman og þessar vinkonur mínar verða mér alltaf kærar.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Og hvað bauð ég þeim svo upp á? Sitt lítið af hverju. Osta, beikonvafðar döðlur, tapasskinku, ber, pekanhjúpaða ostakúlu, ofnbakaðan camembert og súkkulaðiköku. Einfalt, fljótlegt og gott.

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Súkkulaðikakan var svakaleg, þó ég segi sjálf frá, og jafnvel betri daginn eftir. Ég bar hana fram með rjóma, saltkaramelluís frá Häagen-Dazs (ég mæli með að þið prófið hann…. eða haldið ykkur alveg frá honum því hann er ávanabindandi!) og jarðaberjum. Skothelt!

Dásamleg frönsk súkkulaðikakaDásamleg frönsk súkkulaðikaka

Dásamleg frönsk súkkulaðikaka

  • 4 egg
  • 6 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 9 msk kakó
  • ½ msk vanillusykur
  • smá salt
  • 200 g smjör

Súkkulaðikaramellukrem

  • 75 g smjör
  • ½ dl sykur
  • ½ dl sýróp
  • 1 msk kakó
  • 1½ dl rjómi
  • 200 g mjólkursúkkulaði (ég var með frá Cadbury)

Botninn:

Hrærið lauslega saman egg og sykur. Blandið hveiti, kakói, vanillusykri og salti saman og hrærið saman við eggjablönduna. Bræðið smjörið og hrærið því saman við. Setjið deigið í smurt form (ca 24 cm) og bakið við 175° í um 40 mínútur. Látið kökuna kólna.

Kremið:

Bræðið smjör í potti og bætið sykri, sýrópi, kakói og rjóma saman við. Látið suðuna koma upp á meðan þið hrærið í blöndunni og látið síðan sjóða við vægan hita í 5-10 mínútur. Takið pottin af hitanum og bætið hökkuðu súkkulaði í hann. Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellið kreminu yfir kökuna og látið hana síðan standa í ísskáp til að kremið stífni.

After Eight kaka

After Eight kaka

Ég á dásamlega uppskriftamöppu sem ég útbjó á Svíþjóðarárunum okkar. Á þeim tíma notaði ég netið nánast til þess eins að skoða uppskriftasíður og í hvert sinn sem ég datt niður á spennandi uppskrift þá setti ég hana í word-skjal. Það var ekkert skipulag á þessu hjá mér og uppskriftirnar voru ekki flokkaðar eftir einu né neinu. Ég setti bara alltaf nýjustu uppskriftina neðst og lét þar við sitja. Það er kannski það sem gerir möppuna svona sjarmerandi í mínum augum. Dag einn prentaði ég word-skjalið út, setti í möppu og var þar með komin með eina af mínum bestu uppskriftabókum.

After Eight kaka

Ég hef gert margar uppskriftir úr uppskriftamöppunni en þessi uppskrift er uppáhalds. Ég hef ofnotað hana í mörg ár og veit alltaf að hún á eftir að vekja lukku þegar ég ber hana fram. Ég hef gefið mörgum uppskriftina og verið beðin um að baka hana við ýmis tilefni og furða mig því á að hún hafi ekki ratað hingað á bloggið fyrr. Það var kannski alveg í stíl við það að ég gleymdi að mynda kökuna eftir að hún var skorin og get því ekki boðið upp á mynd þar sem sést inn í kökuna. Þið verðið bara að trúa mér þegar ég segi að hún er mjúk, örlítið blaut og fullkomlega dásamleg.

After Eight kaka

  • 250 g suðusúkkulaði
  • 175 g smjör
  • 2 tsk nescafé (instant kaffiduft)
  • 2 dl sykur
  • 4 egg
  • 1 ½ tsk vanillusykur
  • ½ tsk lyftiduft
  • ½ dl hveiti

Glassúr

  • 25 g smjör
  • 3/4 dl rjómi
  • 200 g After Eight

Hitið ofninn í 175° og smyrjið 24 cm form.

Brjótið súkkulaðið í minni bita og setjið í pott ásamt smjörinu. Bræðið við vægan hita og hrærið reglulega í á meðan. Takið pottinn af hitanum og látið blönduna kólna aðeins.

Myljið kaffiduftið þannig að það verði fínmalað (ég nota mortél til verksins). Hrærið sykri, eggjum og kaffidufti í súkkulaðiblönduna og hrærið þar til deigið er slétt. Blandið vanillusykri, lyftidufti og hveiti saman og sigtið ofan í súkkulaðideigið. Hrærið þar til deigið er slétt.

Setjið deigið í formið og bakið í neðri hluta ofnsins í 55-60 mínútur.

Glassúr: Setjið smjör og rjóma í pott og hitið að suðu. Takið af hitanum og setjið After Eight plöturnar í pottinn. Hrærið þar til blandan er slétt.

Takið kökuna úr forminu og breiðið glassúrinn yfir. Berið kökuna fram með rjóma og jarðaberjum.

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Ég hef varla stigið fæti inn í eldhús þessa vikuna og hef því ekki haft frá miklu að segja hér á blogginu. Ég hefði svo sem getað litið inn oftar, látið vita af mér og birt myndir frá hversdagsleikanum, en ég efast um að það sé áhugi fyrir því nema að það fylgi uppskrift með. Því fór sem fór og ég bæti það vonandi upp á næstu dögum.

Á sprengidag fórum við í árlegt matarboð til mömmu og borðuðum, eins og vera ber, á okkur gat. Mér finnst saltkjöt og baunir svo æðislega gott og mamma gerir það best af öllum. Á miðvikudagskvöldinu fór ég í saumaklúbb til Áslaugar vinkonu minnar og fékk alveg æðislegan mat, indverskan kjúklingarétt og karamellufylltar súkkulaðikökur með sjávarsalti, bornar fram með ís og berjum. Ég vildi óska þess að Áslaug fengist til að halda úti matarbloggi, þá værum við í góðum málum. Ég var ekki lengi að sníkja uppskriftirnar og hlakka til að borða þessar dásemdir aftur. Á fimmtudagskvöldinu fórum við Öggi með vinafólki okkar, Ernu og Óla, á Grillmarkaðinn. Maturinn þar er svo ótrúlega góður og ég gæti í alvöru lifað á sætkartöflufrönskunum þar. Vikan hefur því verið frábær matarvika hjá mér án þess að ég hafi haft neitt fyrir henni.

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Um helgar er ég vön að baka köku til að eiga með kaffinu. Uppskriftina að þessari súkkulaðiköku fékk ég úr bók frá sænska kaffihúsinu Rosendals Trädgårdscafé. Þetta er ein af fjölmörgum matreiðslubókum sem ég keypti mér þegar við bjuggum í Svíþjóð og mér þykir alltaf jafn gaman að skoða hana. Uppskriftirnar eru girnilegar og hafa reynst vel. Þessi kaka var engin undantekning og það var barist um síðustu sneiðina. Ísköld mjólk er ómissandi með.

Súkkulaðikaka með þykkri súkkulaðisósu

Súkkulaðikaka með þykkri súkkuklaðisósu

Kakan:

  • 100 g smjör
  • 1 ½ dl mjólk
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 3 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 2 ½ msk kakó
  • 1 msk vanillusykur

Bræðið smjörið og blandið saman við mjólkina. Látið blönduna verða volga. Hrærið egg og sykur þar til blandan verður ljós og létt. Blandið saman hveiti, lyftidufti, kakói og vanillusykri og blandið saman við eggjablönduna á víxl með mjólkurblöndunni. Setjið deigið í smurt hringform (ca 23 cm). Bakið í 175° heitum ofni í ca 30 mínútur.

Súkkulaðisósan:

  • 50 g smjör
  • 1 dl mjólk
  • 1½ tsk hveiti
  • 2 msk sykur
  • 1 msk kakó
  • kókos til að strá yfir kökuna

Bræðið smjörið í potti og hellið mjólkinni saman við. Blandið hveiti og sykri saman við kakóið. Setjið blönduna í pottinn og hrærið vel saman. Látið blönduna sjóða þar til hún er orðin að þykkri sósu. Hrærið stöðugt í pottinum og passið að sósan brenni ekki við botninn.  Breiðið sósuna yfir kökuna þegar hún hefur aðeins kólnað og stráið kókos yfir.

Einföld og góð skúffukaka

Ég kenni tengdamóður minni alfarið um að hafa ekki litið hingað inn í gær. Hún fór í frí til Svíþjóðar og kom heim í gær með fulla tösku af uppskriftarbókum og -blöðum handa mér. Ég vissi varla hvernig ég átti að hegða mér í gærkvöldi með allar þessar nýju bækur sem ég vildi lesa spjaldana á milli og prófa allt sem ég sá. Takk elsku Malín fyrir að vera alltaf svona yndisleg og góð við mig.

Föstudagskvöldið var nokkuð hefðbundið að öðru leiti. Ég eldaði þessa kjúklingasúpu og hún varð sérlega góð. Það er svo skrýtið að mér þykir hún aldrei verða eins. Ég hef eldað hana svo oft en veit aldrei hvernig hún endar. Hún er þó alltaf góð og hefur aldrei klikkað. Í gær setti ég smá karrý út í hana og chilisósu frá Felix sem mér þótti gera hana að spánýrri súpu. Eftir matinn settum við nammi í skál og horfðum á X-factor. Gleðin hélt síðan áfram þegar við uppgötvuðum að það var verið að sýna tónleika með Adele í norska sjónvarpinu. Allt kvöldið var ég þó að laumast í nýju matreiðslubækurnar og grípandi í prjónana þess á milli.

Ég er búin að eyða morgninum í að fletta uppskriftum og skrifa vikumatseðilinn. Áður en ég fer út í búð ætla ég að gefa uppskrift af þessari góðu skúffuköku sem ég baka svo oft og síðast núna í vikunni. Mikið þykir mér þessi kaka alltaf góð og með ískaldri mjólk er hún gjörsamlega ómótstæðileg.

Einföld og góð skúffukaka

  • 150 g smjör
  • 2 egg
  • 3 dl sykur
  • 2 tsk vanillusykur
  • 2 msk kakó
  • 4 dl hveiti
  • 2 tsk lyftiduft
  • 1 1/2 dl mjólk

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið  og látið það kólna aðeins. Hrærið egg og sykur saman þar til blandan verður ljós og létt. Blandið þurrefnunum saman og hrærið saman við eggin og sykurinn. Bætið smjörinu og mjólkinni saman við og blandið öllu vel saman. Setjið deigið í smurt skúffukökuform og bakið í miðjum ofni í ca 25 mínútur.

Glassúr

  • 75 g smjör
  • 2 msk kaffi
  • 2 msk kakó
  • 2 tsk vanillusykur
  • 3 1/2 dl flórsykur

Bræðið smjörið og blandið hinum hráefnunum saman við þannig að allt bráðni saman. Breiðið glassúrnum yfir kökuna og stráið grófu kókosmjöli yfir.

Sænsk kladdkaka með vanillurjómakremi

Á heimilinu ríkir eintóm hamingja yfir að vera búin að endurheimta Malínu frá Svíþjóð. Hennar hefur verið sárlega saknað og mér finnst hún hafa verið í burtu svo mikið lengur en raun er. Ef einhvern tímann hefur verið tilefni til að fagna þá var það núna. Við vorum með kvöldmat sem okkur finnst hæfa kóngi, kjöt í káli og spánýjar kartöflur. Í eftirrétt var ég með eina af uppáhalds kökunum mínum sem tekur enga stund að gera.

Uppskriftin að kökunni kemur frá margrómuðu kaffihúsi í Stokkhólmi sem heitir Rosendals Trädgårdscafé. Eina dásemdin sem ég hef notið þaðan er uppskriftabók frá þeim sem ég keypti mér fyrir mörgum árum og hef notað vel. Þó mig hafi lengi langað til að fara á kaffihúsið hef ég ekki enn látið verða af því. Ég hef  hins vegar bakað mikið úr bókinni og finnst uppskriftirnar vera mjög góðar.

Vanillurjómakremið finnst mér passa fullkomlega við kökuna. Jarðaberin fullkomna svo herlegheitin og fara einstaklega vel með súkkulaðinu og vanillukreminu.

Sænsk kladdkaka

  • 100 gr smjör
  • 3 dl sykur
  • 2 egg
  • 2 tsk vanillusykur
  • 5 msk kakó
  • 1 1/2 dl hveiti

Hitið ofninn í 175°. Bræðið smjörið í potti og blandið öllum hráefnunum vel saman við. Setjið deigið í smurt form (helst 22 cm) og bakið í ca 30 mínútur. Sigtið flórsykur yfir kökuna áður en hún er borin fram.

Vanillurjómakrem

  • 3 dl rjómi
  • 3 eggjarauður
  • 3 msk flórsykur
  • 1 msk vanillusykur

Hrærið saman eggjarauður, flórsykur og vanillusykur þar til úr verður þykkt og ljóst krem. Þeytið rjómann og blandið saman við eggjablönduna. Hrærið saman í þykkt krem.