Um daginn var ég með einn saumaklúbbinn minn hjá mér, Stjörnurnar. Ég furða mig á að það séu liðin 18 ár síðan við byrjuðum að hittast, þá allar á þeim tímamótum í lífi okkar að móðurhlutverkin voru ýmist að hefjast eða handan við hornið. Núna 18 árum síðar erum við mörgum börnum ríkari, nokkrar búnar að flytja erlendis og heim aftur, sumar sestar að erlendis og ein flutt norður í land. Engu að síður höldum við alltaf saman og þessar vinkonur mínar verða mér alltaf kærar.
Og hvað bauð ég þeim svo upp á? Sitt lítið af hverju. Osta, beikonvafðar döðlur, tapasskinku, ber, pekanhjúpaða ostakúlu, ofnbakaðan camembert og súkkulaðiköku. Einfalt, fljótlegt og gott.
Súkkulaðikakan var svakaleg, þó ég segi sjálf frá, og jafnvel betri daginn eftir. Ég bar hana fram með rjóma, saltkaramelluís frá Häagen-Dazs (ég mæli með að þið prófið hann…. eða haldið ykkur alveg frá honum því hann er ávanabindandi!) og jarðaberjum. Skothelt!
Dásamleg frönsk súkkulaðikaka
- 4 egg
- 6 dl sykur
- 3 dl hveiti
- 9 msk kakó
- ½ msk vanillusykur
- smá salt
- 200 g smjör
Súkkulaðikaramellukrem
- 75 g smjör
- ½ dl sykur
- ½ dl sýróp
- 1 msk kakó
- 1½ dl rjómi
- 200 g mjólkursúkkulaði (ég var með frá Cadbury)
Botninn:
Hrærið lauslega saman egg og sykur. Blandið hveiti, kakói, vanillusykri og salti saman og hrærið saman við eggjablönduna. Bræðið smjörið og hrærið því saman við. Setjið deigið í smurt form (ca 24 cm) og bakið við 175° í um 40 mínútur. Látið kökuna kólna.
Kremið:
Bræðið smjör í potti og bætið sykri, sýrópi, kakói og rjóma saman við. Látið suðuna koma upp á meðan þið hrærið í blöndunni og látið síðan sjóða við vægan hita í 5-10 mínútur. Takið pottin af hitanum og bætið hökkuðu súkkulaði í hann. Hrærið þar til súkkulaðið hefur bráðnað. Hellið kreminu yfir kökuna og látið hana síðan standa í ísskáp til að kremið stífni.
Mig langar að fá að spyrja út í beikonvöfðu döðlurnar. Er bara sett beikon utan um og inn í ofn ? Þarf að gera eitthvað meira ? Og hvað er þetta ca lengi í ofninum ?
mikið um spurningar um girnilega rétt 😉
kveðja, Kristín S
Um að gera að spyrja! 🙂 Ég sker beikonið bara í tvennt (þversum, þannig að beikonlengjan verði helmingi styttri) og vef því þétt utan um döðluna (best að hafa þær stórar). Legg þetta svo í eldfast mót með sárið niður og set inn í 200° heitan ofn þar til beikonið er orðið stökkt.
takk 🙂
svona dásamlega einfalt !!! Elska svoleiðis
Fer í málið um helgina.
Góða helgi og áfram Ísland 😀
kv. Kristín
Sæl og takk yrir frábærar uppskriftir. Er nýkomin inn í hópinn þinn. Langar að spyrja hvort það sé hægt að gera beikonvöfðu döðlurnar og frysta
Hlýjar kveðjur
Anna S. G.
Velkomin hingað Anna 🙂 Ég hef aldrei prófað að frysta þær en það er alla vega óhætt að vefja döðlunum í beikonið deginum áður og setja þær svo bara í ofninn rétt áður en á að bera þær fram.
Bestu kveðjur,
Svava.
Sæl, þetta er mjög girnilegt allt en eru 6 dl af sykri í kökunni??
Já, ég veit! Þetta er galið magn en stundum verður maður bara að láta sem ekkert sé eðlilegra en 6 dl af sykri í köku. Ég lofa að hún er svakalega góð! Þú getur prófað að minnka sykurinn, ef þér líst ekkert á þetta 🙂
Mig langar líka að vita hvað er ofan á ostinum 😀
Það er karrý, mango chutney og hakkaðar pekanhnetur. Mjög gott á snittubrauð og jafnvel hafa smá chilisultu með 🙂
Sæl Svava….Mig langar að fá að spyrja þig hvar þú keyptir þennan fallega kúlulaga vasa. Finnst hann algjört æði 😆
Ég keypti hann í Stokkhólmi og dröslaði honum heim í handfarangri. Alltaf eitthvað vesen á manni, en ég gat ekki staðist hann!
búin að gera súkkulaði kökuna. Mæ ó mæ, hún er æði 🙂
Gaman að heyra!
Sæl notar þú kitchen aid til að hræra egg og sykuer? á það að verða mjög ljóst eða bara rétt að hræra egg og sykur saman? Takk
Stella