Spánarfrí

Spánarfrí

Þeir sem fylgja mér á Instagram hafa kannski áttað sig á að ég búin að vera í sumarfríi á Spáni undanfarnar tvær vikur, sem útskýrir fjarveruna hér á blogginu. Eins og oft fyrir frí íhugaði ég að taka tölvuna með mér og blogga úr fríinu en komst líkt og áður að þeirri niðurstöðu að það hefur eflaust enginn áhuga á daglegum uppfærslum af sumarfrísflandri mínu nema elsku mamma mín.

Spánarfrí

Við vorum síðast á Spáni í haust og hefðum því eflaust valið annan áfangastað í ár en ferðin núna kom til vegna keppnisferðar strákanna okkar með 4. flokki Breiðabliks til Spánar. Við ákváðum að framlengja ferðinni og tvískiptum henni, eins og við gerðum sl. haust. Þá vorum við fyrri vikuna í Alicante og þá seinni í Calpe. Núna var fyrri vikan fyrirfram ákveðin þar sem strákarnir voru að keppa á Barcelona cup. Mótið var þó ekki í Barcelona heldur í strandbænum Salou. Dagarnir í Salou snérust aðallega um að fylgjast með leikjunum hjá strákunum en einn daginn sem þeir voru ekki að keppa stungum við af og keyrðum til Sitges, sem er yndislegur standbær sem vert er að heimsækja ef þið eruð á þessum slóðum.

SpánarfríSpánarfrí

Það gekk á ýmsu fyrstu dagana. Gunnar náði að slasa sig í fyrsta leiknum og endaði í gipsi. Hann fékk fyrirmæli frá lækninum um að taka því rólega og var settur í fótboltabann í tvær vikur. Hann lét það sem vind um eyru þjóta og spilaði leik strax morguninn eftir. Hann missti því bara af leiknum sem var spilaður á meðan hann var á spítalanum. Maður fer víst ekki í keppnisferð til Spánar til að sitja á bekknum.

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Jakob gleymdi keppnistreyjunni sinni á hótelinu einn morguninn en það vildi svo heppilega til að hann var með grænu ferðatreyjuna með sér. Það var því hægt að bjarga málunum með hvítu teypi. Það hefði verið einfaldara ef hann væri númer 11 en allt gekk þetta að lokum.

SpánarfríEftir viku í Salou keyrðum við til Benidorm, með viðkomu í Valencia. Í hreinskilni sagt var ég mjög tvístígandi með þá ákvörðun þar sem það var ekki laust við að Benidormfordómar blunduðu í mér, en ég var fljót að skipta um skoðun eftir að við komum þangað. Hótelið okkar var staðsett á ströndinni og var með bílageymslu þannig að það var aldrei vandamál að leggja bílnum. Útsýnið okkar var stórkostlegt og ég fékk ekki nóg af að sitja á svölunum og horfa yfir ströndina. Við fórum í Carrefour og keyptum baguette, osta, ólíkar tegundir af hráskinkum, melónur, kirsuber, köku og hvítvín sem við höfðum sem kvöldsnarl á svölunum okkar. Ég gat setið endalaust yfir því!

Spánarfrí

Benidorm er nokkuð vel staðsett og það er t.d. stutt yfir til Villa Joiosa, Altea, Albir og Alicante. Fyrir utan að vera með bíl þá leigðum við okkur hjól í viku og hjóluðum til Albir og Altea..

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Við eyddum kannski minnstum tíma á Benidorm þar sem við ferðuðumst mikið um nærsveitir. Það var löngu ákveðið að taka dag í Alicante til að versla og borða á uppáhalds tælenska staðnum okkar þar, Thai Corner. Eins er ekki hægt að fara til Alicante án þess að fá sér tapas á besta tapasstað bæjarins, Cerveceria Sento. Við vorum heppin að vera þar um miðjan dag því staðurinn er pínulítill og á kvöldin er hann bæði þétt setinn og margmenni stendur fyrir utan með diskana, því bara örfáir komast að inni við barborðin.

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Það væri synd að fara á þessar slóðir án þess að heimsækja gamla bæinn í Altea. Steinlagðar þröngar götur frá 17. öld með yndislegum litlum veitingahúsum heilla mig upp úr skónum. Við fórum tvisvar þangað og enduðum síðasta kvöldið okkar þar í tapas.

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Það var saumaklúbbur í húsi númer 43. Sá sætasti sem ég hef séð.

Spánarfrí

Ströndin í Altea er líka falleg. Við vorum þar seinni part dags þegar flestir voru farnir. Lúxus.

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Við hjóluðum yfir á ströndina í Albir. Þar gafst Gunnar upp á gipsinu, reif það af sér og óð svo beint út í sjó. Ég skildi það vel, við vorum við búin að vera að hjóla í 36° hita og vorum því að kafna úr hita og síðan var kominn sandur undir það.

SpánarfríSpánarfrí

Villa Joiosa er sjarmerandi bær og gaman að ganga þar um gamla bæinn. Á meðan Altea skartar bara hvítum húsum er litagleðin alsráðandi í Villa Joiosa. Það er svo fallegt að ganga um þröngar göturnar í gamla bænum og dást að fallegu litlu hurðunum inn í húsakynnin.

 

Að lokum má ég til með að benda þeim sem eiga leið á þessar slóðir á Les fonts de l´Algar, sem er í tæplega 30 mínútna akstursfjarlægð frá Benidorm/Albir. Þar er hægt að synda í náttúrulaugum, fossum og gjám. Skemmtilegt fyrir alla!

SpánarfríSpánarfríSpánarfrí

Ég veit að það er næstum eins agalegt og að blóta í kirkju að óska eftir rigningu svona um mitt sumar en eftir 2 vikur í vel yfir 30° hita get ég ekki að því gert. Fersku rigningarlofti myndi ég taka fagnandi! Annað sem ég hlakka alltaf til eftir ferðalög er að komast í eldhúsið mitt og borða heimalagaðan mat. Eins yndisleg og svona frí eru þá er nú samt alltaf gott að koma aftur heim.

5 athugasemdir á “Spánarfrí

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s