Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Ég ætlaði að gera svo margt í gær en endaði á að gera nánast ekki neitt. Það tekur á að byrja að vinna eftir frí og vikan er búin að vera annasöm. Ég var því eins og sprungin blaðra í gær, svaf í tæpa 11 klukkutíma án þess að rumska og eyddi síðan deginum að mestu í að dunda mér hér heima. Um kvöldið vorum við Malín bara tvær í mat og hún sótti pizzu handa okkur í kvöldmatinn. Lúxus!

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Ég er ákveðin í að baka í dag en áður en ég fór til Spánar bakaði ég æðislega köku, hálfgerða sjónvarpsköku með Tvix súkkulaði. Uppskriftina fann ég í dönsku blaði, Spis bedre, og þegar ég las í gegnum uppskriftina rak ég augun í orðið „sødmælk“. Eftir að hafa klórað mér í hausnum og blótað því að hafa ekki fylgst betur með í dönskutímunum hér í den ákvað ég að senda snapp á systur mína, sem hefur búið í Kaupmannahöfn undanfarin 15 ár, og spyrja hana hvað þetta væri. Hún svaraði um hæl að sødmælk væri feitasta tegundin af mjólk, líklega það sem heitir léttmjólk á Íslandi! Hahaha… ég held svei mér þá að hún ætti að kíkja oftar í heimsókn heim.

Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

Kakan er bökuð í formkökuformi en ef þið eigið það ekki þá er það ekkert vandamál að nota bara venjulegt springform.

Sjónvarpskaka með twix súkkulaði (uppskrift úr Spis Bedre)

  • 50 g smjör
  • 4 egg
  • 300 g sykur
  • 300 g hveiti
  • 3 tsk lyftiduft
  • korn úr 1 vanillustöng (ég notaði 2 tsk vanillusykur)
  • 2 dl nýmjólk

Ofanbráð

  • 90 g Twix (ca 4 stykki)
  • 75 g smjör
  • 75 g púðursykur
  • 75 g kókosmjöl
  • ½ dl nýmjólk

Hitið ofninn í 200°. Bræðið smjörið og látið það kólna örlítið. Hrærið egg og sykur ljóst og létt, og hrærið smjörinu síðan saman við. Blandið hveiti, lyftidufti og vanillusykri saman og hrærið í deigið. Hrærið að lokum mjólkinni saman við. Setjið deigið í smurt formkökuform (1 lítra form) og bakið í 25 mínútur.

Hakkið Twix súkkulaðið gróft og látið í pott ásamt smjörinu, púðursykrinum, kókosmjölinu og nýmjólkinni. Látið allt bráðna saman við vægan hita.

Athugið með kökuna eftir 25 mínútur (þið gætuð þurft að bæta nokkrum mínútum við), takið hana út og hækkið hitan á ofninum upp í 225°. Setjið ofanbráðið yfir kökuna og bakið hana síðan áfram í 5 mínútur. Látið kökuna kólna aðeins í forminu áður en hún er tekin úr því.

3 athugasemdir á “Sjónvarpskaka með Twix súkkulaði

  1. Södmælk er nýmjólk, skummet mælk er léttmjólk. Kveðja og takk fyrir frábærar uppskriftir og skemmtileg skrif.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s