Í letikastinu um helgina, þegar við Malín vorum bara tvær í kvöldmat bæði laugardags- og sunnudagskvöld, rifjaðist upp fyrir mér að ég átti vænan bita af laxi í frystinum. Malín elskar lax og því þótti mér tilvalið að elda laxauppskrift sem ég hef verið á leiðinni að prófa.
Þessi réttur er með þeim einfaldari sem hægt er að elda og hann var alveg dásamlega ljúffengur. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og einföldu tómatsalati sem passaði mjög vel með. Við mæðgurnar vorum alsælar með þetta og það kom ekki annað til greina en að geyma þann litla bita sem varð eftir af laxinum. Kvöldið eftir, þegar vorum ný búin að borða þorsk, rifjaðist upp fyrir Malínu að það hefði verið afgangur af laxinum. Hún rauk upp, hitaði laxbitann og fékk sér hann í eftirrétt! Það hljóta að vera góð meðmæli, ekki satt?
Ofnbakaður lax með fetaosti (uppskrift fyrir 2)
- 400 g lax
- 1/2 dós sýrður rjómi (um 90 g)
- 100 g fetaostur (t.d. fetakubbur)
- 1/2 fiskiteningur
- sítrónupipar
Hitið ofn í 220°. Leggið laxinn í eldfast mót. Hrærið saman sýrðum rjóma, fetaosti, fiskiteningi og sítrónupipar og setjið blönduna yfir laxinn. Setjið í ofninn, eftir 15-20 mínútur er slökkt á honum en laxinn tekinn út þegar 30 mínútur eru liðnar.
Tómatsalat
- tómatar
- rauðlaukur
- ólífuolía
- balsamikedik
- salt og pipar
Skerið tómatana og rauðlaukinn í sneiðar og setjið í skál. Hrærið saman ólífuolíu og balsamikediki í jöfnum hlutföllum (1-2 msk af hvoru) og kryddið með salti og pipar. Hellið yfir tómatana og rauðlaukinn og berið fram.