Indverskur Butter Chicken

Indverskur Butter Chicken

Ja hérna hér, vikan leið án þess að nokkur bloggfærsla liti dagsins ljós. Það átti ekki að fara þannig en vikan hreinlega flaug frá mér og áður en ég vissi af var helgin liðin og aftur kominn mánudagur. Þetta eru hálf furðulegir dagar, ég er ekki í sumarfríi en hegða mér eins og ég sé í fríi. Fer allt of seint að sofa og kemst varla á fætur á morgnanna. Fer hálf þreytt í gegnum vinnudaginn og er svo orðin eldhress þegar ég kem heim og næ að endurtaka leikinn. Þegar svo kemur að helginni er ég eins og sprungin blaðra. Sofnaði klukkan 20.30 á föstudagskvöldinu og svaf í einum rykk til 11 morguninn eftir. Geri aðrir betur!

Indverskur Butter ChickenIndverskur Butter Chicken

Á laugardeginum bauð mamma okkur í bröns sem toppaði alla brönsstaði bæjarins og vel það. Hún bauð meðal annars upp á tvíreykt hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, nýbakað brauð, ofnbökuð egg sem voru vafin í hráskinku, heitur brauðréttur, laxavefjur og ég veit ekki hvað og hvað. Svo var skálað í cava og í eftirrétt hafði mamma gert hráköku sem hún bar fram með rjóma. Við borðuðum svo yfir okkur að við vorum enn södd um kvöldið og fengum okkur bara eðlu í kvöldmat.

Indverskur Butter Chicken

Í gærkvöldi eldaði ég hins vegar besta indverska kjúklingarétt sem ég hef fengið í langan tíma. Þennan verðið þið að prófa! Diskarnir voru sleiktir og það var ekki svo mikið sem sósudropi eftir af matnum og því óhætt að segja að hann vakti mikla lukku. Ég setti kjúklinginn í marineringu um morguninn en það er líka hægt að gera það kvöldið áður. Síðan bar ég réttinn fram með hrísgrjónum, léttri jógúrtsósu og besta keypta naan-brauði sem ég hef smakkað (frá Stonefire). Með matnum drukkum við bragðmikið Toscana vín, Mediterra. Þvílík veisla!

Indverskur Butter Chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5) – lítillega breytt uppskrift frá Whats Gaby Cooking

  • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri eða -bringur
  • 1 dós grísk jógúrt (350 g)
  • 2 msk sítrónusafi
  • 1 ½ msk túrmerik
  • 2 msk garam masala
  • 2 msk kumin (ath ekki það sama og kúmen)
  • 1 tsk cayenne pipar
  • ½ bolli smjör
  • 1 laukur, hakkaður
  • 4 hvítlauksrif, grófhökkuð
  • 2 msk rifið ferskt engifer
  • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
  • ½ bolli vatn
  • 1 kjúklingateningur
  • 7,5 dl rjómi
  • 1 tsk tómat paste
  • salt
  • ferskt kóriander til skrauts

Hrærið saman kjúklingi, grískri jógúrt, sítrónusafa, rúmerik, garam masala, kumin og cayenne pipar í skál. Látið standa í ísskáp yfir nóttu ( það dugar líka yfir daginn).

Hitið stóra pönnu yfir miðlungsháum hita og bræðið smjörið. Hrærið lauknum saman við smjörið og hægeldið þar til laukurinn er orðinn glær (passið að hafa ekki of háan hita). Bætið hvítlauk og engifer á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur til viðbótar.  Bætið niðursoðnum tómötum á pönnuna og látið sjóða í 5 mínútur. Bætið kjúklingnum ásamt marineringunni á pönnuna og eldið í 5 mínútur. Bætið vatni og kjúklingateningi á pönnuna, látið suðuna koma upp, lækkið svo hitann og látið sjóða við vægan hita í 30 mínútur. Hrærið rjóma og tómatpaste saman við og látið sjóða í 15 mínútur til viðbótar. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

22 athugasemdir á “Indverskur Butter Chicken

  1. Grinilegur þessi og fer á listiann minn 😉
    Færðu NAN-brauðið í Hagkaup ? Er það frosið eða ?

    kveðja
    Kristín S

    1. Hahaha… það hljómar nú ekki vel að segjast hafa verið með eðlu í kvöldmat! Eðla er rjómaostur, salsa og ostur sem er hitað í ofni og borðað með nachos 🙂

  2. Úpps… eg gefst upp þegar línurnar í innihaldi er orðnar 10. Þarna eru þær 18. Verð að biðja einhvern að bjóða mér í mat.

    1. Mikið skil ég þig vel! Ég átti þó flest allt í skápnum hjá mér, kannski er það eins hjá þér? Síðan er þetta svo einföld uppskrift þar sem mikið af hráefnunum er bara krydd í marineringuna. Ég vona að þú prófir…. eða fáir einhvern til að bjóða þér í mat því þetta er svooo gott!! 🙂

  3. Vá gerði þetta í gærkvöldi og bara vá hvað þetta var gott ….. marineraði kjúklinginn bara í 15 mínútur en það kom ekki að sök og átti allt í þetta nema ferska engiferrót svo ég notaði bara engiferduft.
    Takk fyrir uppskriftina ég á pottþétt eftir að gera þetta aftur fljótlega!

  4. Miðað við að uppskriftin segji 7.5dl af rjóma og 350 ml af grískri jógúrt þá er nokkuð ljóst að þessi færsla er sponsuð af mjólkursamsölunni. Helmingurinn af hvoru dugir vel.

Færðu inn athugasemd

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

Tengist við %s