Indverskur Butter Chicken

Indverskur Butter Chicken

Ja hérna hér, vikan leið án þess að nokkur bloggfærsla liti dagsins ljós. Það átti ekki að fara þannig en vikan hreinlega flaug frá mér og áður en ég vissi af var helgin liðin og aftur kominn mánudagur. Þetta eru hálf furðulegir dagar, ég er ekki í sumarfríi en hegða mér eins og ég sé í fríi. Fer allt of seint að sofa og kemst varla á fætur á morgnanna. Fer hálf þreytt í gegnum vinnudaginn og er svo orðin eldhress þegar ég kem heim og næ að endurtaka leikinn. Þegar svo kemur að helginni er ég eins og sprungin blaðra. Sofnaði klukkan 20.30 á föstudagskvöldinu og svaf í einum rykk til 11 morguninn eftir. Geri aðrir betur!

Indverskur Butter ChickenIndverskur Butter Chicken

Á laugardeginum bauð mamma okkur í bröns sem toppaði alla brönsstaði bæjarins og vel það. Hún bauð meðal annars upp á tvíreykt hangikjöt með piparrótarsósu og melónu, nýbakað brauð, ofnbökuð egg sem voru vafin í hráskinku, heitur brauðréttur, laxavefjur og ég veit ekki hvað og hvað. Svo var skálað í cava og í eftirrétt hafði mamma gert hráköku sem hún bar fram með rjóma. Við borðuðum svo yfir okkur að við vorum enn södd um kvöldið og fengum okkur bara eðlu í kvöldmat.

Indverskur Butter Chicken

Í gærkvöldi eldaði ég hins vegar besta indverska kjúklingarétt sem ég hef fengið í langan tíma. Þennan verðið þið að prófa! Diskarnir voru sleiktir og það var ekki svo mikið sem sósudropi eftir af matnum og því óhætt að segja að hann vakti mikla lukku. Ég setti kjúklinginn í marineringu um morguninn en það er líka hægt að gera það kvöldið áður. Síðan bar ég réttinn fram með hrísgrjónum, léttri jógúrtsósu og besta keypta naan-brauði sem ég hef smakkað (frá Stonefire). Með matnum drukkum við bragðmikið Toscana vín, Mediterra. Þvílík veisla!

Indverskur Butter Chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5) – lítillega breytt uppskrift frá Whats Gaby Cooking

 • 900 g úrbeinuð kjúklingalæri eða -bringur
 • 1 dós grísk jógúrt (350 g)
 • 2 msk sítrónusafi
 • 1 ½ msk túrmerik
 • 2 msk garam masala
 • 2 msk kumin (ath ekki það sama og kúmen)
 • 1 tsk cayenne pipar
 • ½ bolli smjör
 • 1 laukur, hakkaður
 • 4 hvítlauksrif, grófhökkuð
 • 2 msk rifið ferskt engifer
 • 1 dós niðursoðnir hakkaðir tómatar
 • ½ bolli vatn
 • 1 kjúklingateningur
 • 7,5 dl rjómi
 • 1 tsk tómat paste
 • salt
 • ferskt kóriander til skrauts

Hrærið saman kjúklingi, grískri jógúrt, sítrónusafa, rúmerik, garam masala, kumin og cayenne pipar í skál. Látið standa í ísskáp yfir nóttu ( það dugar líka yfir daginn).

Hitið stóra pönnu yfir miðlungsháum hita og bræðið smjörið. Hrærið lauknum saman við smjörið og hægeldið þar til laukurinn er orðinn glær (passið að hafa ekki of háan hita). Bætið hvítlauk og engifer á pönnuna og steikið í 2-3 mínútur til viðbótar.  Bætið niðursoðnum tómötum á pönnuna og látið sjóða í 5 mínútur. Bætið kjúklingnum ásamt marineringunni á pönnuna og eldið í 5 mínútur. Bætið vatni og kjúklingateningi á pönnuna, látið suðuna koma upp, lækkið svo hitann og látið sjóða við vægan hita í 30 mínútur. Hrærið rjóma og tómatpaste saman við og látið sjóða í 15 mínútur til viðbótar. Smakkið til með salti og sítrónusafa.

Butter chicken

Butter chickenMér þykir alltaf verða ákveðin kaflaskil þegar verslunarmannahelgin er að baki. Þá er haustið handan við hornið og allt að fara í gang aftur. Krakkarnir fara að huga að skólasetningu og tómstundum vetrarins á meðan ég bíð með eftirvæntingu eftir að lífið falli í sína hversdagslegu rútínu.

Butter chickenButter chicken

Það er búið að vera svolítið um skyndilausnir í eldhúsinu hjá mér upp á síðkastið. Matur sem okkur þykir góður en tekur lítinn tíma að útbúa. Uppskriftir sem er sniðugt að grípa til þegar boðið er í mat án þess að hafa tíma til að undirbúa matarboðið. Þannig var það einmitt með þennan rétt. Ég var enga stund að reiða hann fram þegar ég hafði boðið í mat hér eitt kvöldið og allir voru ánægðir með matinn.  Jakob var svo ánægður að hann borðaði afganginn í morgunmat daginn eftir og hefðu glaður viljað fleiri diska.

Butter chicken

Butter chicken (uppskrift fyrir 4-5)

 • 700 g úrbeinuð kjúklingalæri (eða kjúklingabringur)
 • 1 laukur
 • 1/2 spergilkálhaus
 • 1 krukka Butter chicken sósa frá Patak´s
 • 1-2 tsk karrý
 • 1 grænmetisteningur
 • 2-3 msk mangó chutney

Skerið kjúklinginn í bita, laukinn í báta og spergilkálið í bita. Hitið olíu á pönnu og steikið kjúklinginn þar til hann er steiktur á öllum hliðum, bætið þá lauknum á pönnuna og steikið áfram þar til hann er orðinn mjúkur. Bætið sósu, spergilkáli, karrý, grænmetisteningi og mangó chuthey á pönnuna og látið sjóða við vægan hita þar til kjúklingurinn er fulleldaður og spergilkálið orðið mjúkt.

Butter chicken

Berið fram með hrísgrjónum og nan-brauði.

Indverskur korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Um helgina leit mamma við hjá okkur með súkkulaðimús og færði mér það sem hún kallaði kærleiksgjöf. Í pakkanum leyndist silkiklútur sem mér þykir svo fallegur að ég fell í stafi. Ég átti einn Plomo o Plata klút fyrir sem ég hef varla tekið af mér en gerði óvart smá gat á hann um daginn þegar ég flækti hann í rennilás. Mamma hafði þó ekki hugmynd um það og því kom gjöfin skemmitlega á óvart. Takk enn og aftur elsku mamma ♥

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Við enduðum þessa fyrstu aðventuhelgi á dásamlegri máltíð, korma kjúklingi með hrísgrjónum og nan-brauði. Mér þykir indverskur matur svo góður og þó að ég geri hann stundum frá grunni þá þakka ég fyrir að hægt sé að kaupa sósurnar tilbúnar þegar tíminn er knappur. Ég kynntist þeim fyrst þegar vinafólk bauð okkur í mat sem okkur þótti sérlega góður. Þegar ég bað um uppskriftina sögðust þau einfaldlega hafa steikt kjúkling og hellt tilbúinni korma sósu yfir. Síðan þá hef ég notað sósuna óspart en hef gaman af að breyta til með ólíku meðlæti. Mér þykir mjög gott að bera réttinn fram með mangó chutney og sýrðum rjóma en um helgina bætti ég lauki, hvítlauki og engifer í sósuna og bar réttinn síðan fram með ristuðum kasjúhnetum til að strá yfir kjúklinginn, hrísgrjónum og nan-brauði sem er gott að dýfa í bragðgóða sósuna. Það var ekki svo mikið sem sósudropi eftir af matnum og diskana hefði verið hægt að setja beint upp í skáp, svo vel var sleikt af þeim.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Að lokum vil ég minna á gjafaleikinn í samvinnu við Heru Björk. Leikurinn er í gangi út morgundaginn og á fimmtudaginn dreg ég vinningshafa.

Indverskur korma kjúklingur

 • 500 g kjúklingalundir
 • 1 lítill laukur, skorinn í þunnar sneiðar
 • 1 tsk rifið engifer
 • 1 tsk hvítlauksmauk (eða 1-2 hökkuð hvítlauksrif)
 • 1 krukka korma sósa (ég nota sósuna frá Patak´s, það eru 450 g. í krukkunni)
 • Ristaðar kasjúhnetur

Hitið olíu á pönnu við miðlungshita og mýkið laukinn. Bætið hvítlauk, engifer og kjúklingalundum á pönnuna og steikið í um 5 mínútur eða þar til kjúklingurinn er kominn með steikingarhúð en er ekki full eldaður. Bætið sósunni á pönnuna og látið sjóða við vægan hita undir loki í 10 mínútur. Hrærið af og til í pönnunni á meðan.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð

Nan-brauð

 • 1,5 dl fingurheitt vatn
 • 2 tsk sykur
 • 2 tsk þurrger
 • 4 dl hveiti
 • 0,5 tsk salt
 • 2 msk brætt smjör
 • 2 msk hreint jógúrt
 • Garam Masala (má sleppa)
 • gróft salt, t.d. Maldon (má sleppa)

Hrærið saman geri, vatni og sykri. Leggið viskastykki yfir skálina og látið standa í 10 mínútur.

Bætið hveiti, salti, smjöri og jógúrt saman við og hnoðið saman í deig. Leggið viskastykki yfir skálina og látið deigið hefast í 30 mínútur.

Skiptið deiginu í 4-6 hluta (eftir hversu stór þú vilt að brauðin verði) og sléttið út í aflöng brauð (það þarf ekkert kökukefli, hendurnar duga vel). Mér þykir gott að krydda brauðin með garam masala og grófu salti áður en ég steiki þau. Bræðið smjör á pönnu við miðlungshita og steikið brauðið í 3-4 mínútur áður en því er snúið við og steikt áfram í 2-3 mínútur.

Indverskur Korma kjúklingur og nan-brauð