Tælenskur lax með núðlum og kóriander

Það væri áhugavert að vita hversu mörg heimili elda fisk á mánudögum. Í mínum bókum eru mánudagar fiskidagar og helst reyni ég koma öðrum fiskrétti á matseðilinn síðar í vikunni. Ég kæmist þó eflaust ekki upp með að bjóða upp á fisk þrisvar í viku, sérstaklega þar sem strákarnir fá líka fisk í skólanum og þættu því eflaust nóg um.

Eitt af því besta sem Malín fær er lax en sjálf er ég hrifnari af bleikju. Þessi laxuppskrift (ef uppskrift má kalla, þetta er svo einfalt!) er hins vegar svo góð að meira að segja þeir sem borða ekki lax fá sér aftur á diskinn. Ég mæli með að prófa!

Tælenskur lax með núðlum og kóriander

 • um 800 g laxaflök
 • nokkrar matskeiðar sojasósa

Leggið laxaflökin í eldfast mót eða ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið nokkrar matskeiðar af soja yfir og bakið í ofni við 180° í 15 mínútur.

 • 250 g eggjanúðlur
 • 1,5 dl sweet chilisósa
 • 1-2 msk sojasósa
 • 1 rauð paprika, hökkuð
 • 1 búnt vorlaukur, skorið í sneiðar
 • 2 dl kasjúhnetur

Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið sweet chilisósu og sojasósu á pönnu og steikið núðlurnar, vorlauk, papriku og kasjúhnetur í sósunum. Stráið fersku kóriander yfir áður en núðlurnar eru bornar fram. Berið núðlurnar fram með laxinum og limebátum til að kreista yfir.

 

 

Ofnbakaður lax með fetaosti

Ofnbakaður lax með fetaosti

Í letikastinu um helgina, þegar við Malín vorum bara tvær í kvöldmat bæði laugardags- og sunnudagskvöld, rifjaðist upp fyrir mér að ég átti vænan bita af laxi í frystinum. Malín elskar lax og því þótti mér tilvalið að elda laxauppskrift sem ég hef verið á leiðinni að prófa.

Ofnbakaður lax með fetaosti

Þessi réttur er með þeim einfaldari sem hægt er að elda og hann var alveg dásamlega ljúffengur. Ég bar hann fram með hrísgrjónum og einföldu tómatsalati sem passaði mjög vel með. Við mæðgurnar vorum alsælar með þetta og það kom ekki annað til greina en að geyma þann litla bita sem varð eftir af laxinum. Kvöldið eftir, þegar vorum ný búin að borða þorsk, rifjaðist upp fyrir Malínu að það hefði verið afgangur af laxinum. Hún rauk upp, hitaði laxbitann og fékk sér hann í eftirrétt! Það hljóta að vera góð meðmæli, ekki satt?

Ofnbakaður lax með fetaosti (uppskrift fyrir 2)

 • 400 g lax
 • 1/2 dós sýrður rjómi (um 90 g)
 • 100 g fetaostur (t.d. fetakubbur)
 • 1/2 fiskiteningur
 • sítrónupipar

Hitið ofn í 220°. Leggið laxinn í eldfast mót. Hrærið saman sýrðum rjóma, fetaosti, fiskiteningi og sítrónupipar og setjið blönduna yfir laxinn. Setjið í ofninn, eftir 15-20 mínútur er slökkt á honum en laxinn tekinn út þegar 30 mínútur eru liðnar.

Tómatsalat

 • tómatar
 • rauðlaukur
 • ólífuolía
 • balsamikedik
 • salt og pipar

Skerið tómatana og rauðlaukinn í sneiðar og setjið í skál. Hrærið saman ólífuolíu og balsamikediki í jöfnum hlutföllum (1-2 msk af hvoru) og kryddið með salti og pipar. Hellið yfir tómatana og rauðlaukinn og berið fram.