Það væri áhugavert að vita hversu mörg heimili elda fisk á mánudögum. Í mínum bókum eru mánudagar fiskidagar og helst reyni ég koma öðrum fiskrétti á matseðilinn síðar í vikunni. Ég kæmist þó eflaust ekki upp með að bjóða upp á fisk þrisvar í viku, sérstaklega þar sem strákarnir fá líka fisk í skólanum og þættu því eflaust nóg um.
Eitt af því besta sem Malín fær er lax en sjálf er ég hrifnari af bleikju. Þessi laxuppskrift (ef uppskrift má kalla, þetta er svo einfalt!) er hins vegar svo góð að meira að segja þeir sem borða ekki lax fá sér aftur á diskinn. Ég mæli með að prófa!
Tælenskur lax með núðlum og kóriander
- um 800 g laxaflök
- nokkrar matskeiðar sojasósa
Leggið laxaflökin í eldfast mót eða ofnskúffu sem hefur verið klædd með bökunarpappír. Setjið nokkrar matskeiðar af soja yfir og bakið í ofni við 180° í 15 mínútur.
- 250 g eggjanúðlur
- 1,5 dl sweet chilisósa
- 1-2 msk sojasósa
- 1 rauð paprika, hökkuð
- 1 búnt vorlaukur, skorið í sneiðar
- 2 dl kasjúhnetur
Sjóðið núðlurnar eftir leiðbeiningum á pakka. Setjið sweet chilisósu og sojasósu á pönnu og steikið núðlurnar, vorlauk, papriku og kasjúhnetur í sósunum. Stráið fersku kóriander yfir áður en núðlurnar eru bornar fram. Berið núðlurnar fram með laxinum og limebátum til að kreista yfir.
Ein athugasemd á “Tælenskur lax með núðlum og kóriander”